föstudagur, 9. júlí 2010

hummus

Fyrir mér er hummus eitt það mesta lostæti sem til er. Ég veit ekki hvað þetta er en þegar ég smakka hummus, leiðrétting, þegar ég er að blanda innihaldinu saman í matvinnsluvélinni þá finnst mér ég vera komin til Miðaustur- landa; sé fyrir mér eyðimörk, kameldýr, dökk augu og sandala, já og fallega tekrús. Hvort sem hummusinn á rætur sínar að rekja til 12. aldarinnar og Saladins soldáns eða hvort hann er upprunalega frá 18. öld skiptir mig ekki nokkru máli, hummusgerð fylgir hreint og beint dásamleg stemning og það er svo einfalt að búa hann til. Hummus á nýbökuðu brauði, með pítubrauði, chapati (indversk flatbrauð) eða hrís/quinoa-kökum með grænmeti er fín máltíð út af fyrir sig og svo er hann líka góður sem meðlæti. CafeSigrun á heiðurinn af þessari uppskrift og þetta eru hlutföllin sem mér finnst best. Sigrún segir að hummusinn verði betri ef hýðið er fjarlægt af kjúklingabaununum og því hef ég ávallt fylgt þessu ráði hennar.

HUMMUS

HRÁEFNI

  • 1 dós niðursoðnar kjúklingabaunir
  • 2½ matskeið tahini (sesammauk)
  • 1½ matskeið sítrónusafi
  • ¼ teskeið cumin, malað
  • cayennepipar á hnífsoddi eða aðeins meira af paprikudufti
  • 2 hvítlauksrif, pressuð
  • 2 matskeiðar undanrenna
  • 1 teskeið tamarisósa
  • 1-1½ matskeið extra virgin ólífuolía

AÐFERÐ

  1. Setjið baunirnar í skál með köldu vatni og látið standa í smá stund. Nuddið þær varlega með fingrunum til að losa og fjarlægja hýðið (börnunum mínum finnst mjög gaman að gera þetta fyrir mig) og hellið svo vatninu af
  2. Setjið allt innihald í matvinnsluvélina en byrjið með einungis 1 msk af ólífuolíunni. Þið finnið það á meðan vélin vinnur hvort það þurfi meira af olíu og þá bætið þið ½ msk til viðbótar
  3. Smakkið til með fínu sjávarsalti
  4. Það má bera hummusinn fram með smá klípu af cayennepipar og fínsaxaðri steinselju og það má líka skvetta smá ólífuolíu yfir hann

Pin It button on image hover