fimmtudagur, 27. maí 2010

baunagums

Ég viðurkenni fúslega að nafnið á þessari uppskrift er allt annað en frumlegt en maðurinn minn kallar þetta alltaf baunagums Lísu þannig að nafnið er komið til að vera. Ég nota ýmist pintó- eða kjúklingabaunir í gumsið og hef það sem meðlæti. Stundum blanda ég því saman við hrísgrjón (með grjónum er það í raun fín máltíð fyrir grænmetisætur, með t.d. salati). Eins og svo margir aðrir þá nota ég gjarnan grjón með mat en soðin grjón eingöngu eru óspennandi til lengdar. Ég geri því nokkuð af því að poppa þau aðeins upp, eins og sagt er, og þetta baunagums er ein aðferð til þess. Það gefur grjónunum góða fyllingu og skapar smá indverska stemningu vegna kryddsins. Mér og eiginmanninum finnst þetta alveg ofboðslega gott þannig að stundum læt ég ekki allt gumsið út í grjónin heldur tek örlítið frá í litla skál fyrir okkur tvö. Kjúklingur og baunagums með eða án grjóna ásamt mangó chutney er ljúf máltíð.

BAUNAGUMS

HRÁEFNI

  • 1 bolli vatn (250 ml)
  • ½-1 gerlaus grænmetisteningur
  • 1 dós pintóbaunir eða kjúklingabaunir
  • 1 matskeið sítrónusafi, ferskur
  • 1 teskeið garam masala

AÐFERÐ

  1. Byrjið á því að skola af baununum í sigti
  2. Setjið allt hráefnið í frekar stóra pönnu, hrærið rólega á meðan teningurinn leysist upp og látið suðuna koma upp (tekur stuttan tíma). Lækkið hitann og látið malla í ca. 15 mínútur, ekki of lengi þannig að allur vökvi þorni upp
  3. Setjið í litla skál og berið fram sem meðlæti eða blandið saman við soðin hrísgrjón (ég sýð 1-1½ bolla af grjónum og blanda baununum svo saman við)

sunnudagur, 23. maí 2010

lasagna með svörtum baunum

Upphaflega var ég með nýrnabaunir í titli þessarar uppskriftar en í langan tíma hef ég notað svartar baunir og það er orðið vaninn. María dóttir mín var hvatinn að þessari uppskrift en hún er bókstaflega óð í lasagna. Þar sem ég er lítið hrifin af útgáfum með hakki þá langaði mig að nota baunir og þessi uppskrift fæddist svo til um leið og ég setti svuntuna á mig. Ef María mætti ráða þá væri þetta í matinn á hverju kvöldi. Hugmyndina að hvítu sósunni fékk ég góðfúslega lánaða hjá (Cafe)Sigrúnu og gerði smávægilegar breytingar.

LASAGNA MEÐ SVÖRTUM BAUNUM (EÐA NÝRNABAUNUM)

HRÁEFNI

RAUÐ SÓSA

  • 1 matskeið létt ólífuolía eða önnur góð olía
  • 1 laukur, fínsaxaður
  • 3 hvítlauksrif, fínsöxuð
  • 1 gul eða rauð paprika, skorin í bita
  • 1 gerlaus grænmetisteningur
  • 2 dósir tómatar
  • 1 matskeið óreganó
  • 1 matskeið fersk basilíka eða 1 teskeið þurrkuð
  • 1 teskeið sætt chilli
  • 1 teskeið Modena balsamedik
  • 1 dós svartar baunir eða nýrnabaunir
  • sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk
  • má sleppa: maísbaunir eftir smekk
  • má sleppa: ein lúka spínat, saxað gróft

HVÍT SÓSA

  • 1 stór dós kotasæla (ca. 450 g)
  • 2 (hamingju)egg*
  • 150 g rifinn ostur (gott að nota mozzarellablöndu)
  • ½ teskeið múskat

ANNAÐ

  • 100 g rifinn ostur
  • nýrifinn parmesan ostur eftir smekk
  • 10-12 lasagnaplötur (helst án hvíts hveitis)

AÐFERÐ

RAUÐ SÓSA
  1. Setjið baunirnar í sigti, skolið af þeim og látið liggja í sigtinu þar til þið notið þær
  2. Veltið lauk upp úr olíu og steikið á pönnu við meðalhita þar til hann byrjar að mýkjast. Bætið papriku út í og loks hvítlauk og steikið í nokkrar mínútur
  3. Setjið grænmetistening á pönnuna og blandið saman við
  4. Bætið tómötum á pönnuna og hækkið hitann
  5. Blandið öllum kryddum, kryddjurtum og ediki saman við
  6. Skellið baunum út í (maís og spínati ef notað), saltið og piprið eftir smekk og stillið á lægsta eða meðalhita

HVÍT SÓSA

  1. Hrærið kotasælu og eggjum saman í stórri skál
  2. Bætið 150 g af rifnum osti, kryddið með múskati og blandið saman
  1. Forhitið ofn samkvæmt leiðbeiningum á lasagnaplötupakka og stillið ofngrind neðst
  2. Slökkvið undir pönnunni, setjið smá af rauðri sósu í botninn á eldföstu móti og raðið 3-4 lasagnaplötum ofan á (veltur á stærð mótsins)
  3. Setjið hvíta sósu ofan á plöturnar, svo rauða sósu og aftur lasagnaplötur. Endurtakið eftir þörfum og endið á restinni af hvítri og rauðri sósu
  4. Stráið 100 g af rifnum osti ásamt parmesan yfir og bakið neðst í ofni samkvæmt leiðbeiningum á pakka (plöturnar sem ég nota kalla á 220°C í 25 mínútur)

* Sleppa má eggjum og nota þá um 600 g af kotasælu

Berið fram með til dæmis spínati, einföldu salati, grófu brauði eða hvítlauksbrauði. Það er mjög gott að nota gerlausa pizzabotnsuppskrift eða snittubrauðin á CafeSigrun til að útbúa hvítlauksbrauð. Ef ég nota snittubrauðin þá baka ég þau fyrr um daginn eða deginum áður og skelli í frystinn. Ég læt ólífuolíu, hvítlauk, óreganó og örlítið sjávarsalt í litla skál og pensla heit brauðin/nýbakaðan pizzabotninn.

fimmtudagur, 20. maí 2010

ávaxtakúlur

Þessar ávaxtakúlur eru í miklu uppáhaldi hjá mér og mínu fólki. Þær eru ekki bara ljúffengar og hollar heldur er minningin um það hvernig ég fann uppskriftina svo skemmtileg. Ég á vinkonu sem er mikill sælkeri og er óhrædd við að gera tilraunir í eldhúsinu. Einu sinni bauð hún mér heim til sín í mini-jólaboð, bara ég og hún og yndisleg jólastemning. Eftir ljúffenga máltíð sátum við með heimagerða latte og dökkt, lífrænt súkkulaði og flettum tímaritum með jólaþemum. Síðar um kvöldið útbjó hún heitt súkkulaði, setti dreitil af Baileys út í og bar fram með þeyttum rjóma. Ég var að fletta Bolig þegar ég rakst á þessa uppskrift sem birtist hér í sömu hlutföllum og í blaðinu góða. Það er svo gott að eiga ávaxtakúlurnar í kæli og næla sér í með kaffinu. Ég mæli með því að setja nokkrar í lítið, sætt nestisbox og hafa með í vinnuna/skólann.

ÁVAXTAKÚLUR

HRÁEFNI

  • 100 g þurrkaðar aprikósur (ef mögulegt, notið þá þessar brúnlituðu)
  • 100 g döðlur, steinlausar
  • ca. 100 g kókosmjöl (mér finnst betra að nota gróft)
  • ½ teskeið vanillusykur (notið lífrænan eða vanilludropa úr heilsubúð)
  • ca. 25 g kakó
  • 2-3 matskeiðar kókosolía (mér finnst 2 msk nóg, látið krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun til að fá fljótandi olíu)
  • kókosmjöl eða kakó til að velta kúlunum upp úr

AÐFERÐ

  1. Leggið aprikósur og döðlur í bleyti í 30 mínútur
  2. Hellið vatninu af ávöxtunum og setjið í matvinnsluvél ásamt kókosmjölinu í ca. hálfa mínútu
  3. Setjið restina af hráefninu út í og látið vélina ganga í smá stund
  4. Útbúið litlar kúlur og veltið þeim upp úr kókosmjöli eða kakó
  5. Kælið áður en þið berið fram (geymið í lokuðu íláti í kæli)

ÚTFÆRSLUR

  • Ég hef gert þessar með 50 g af möndlum á móti 50 g kókosmjöli. Ég lét möndlurnar liggja í bleyti með ávöxtunum og bætti svo 2 valhnetum í matvinnsluvélina líka. Konfektið var virkilega gott en ég rúllaði nokkrum kúlum upp úr kókosmjöli og lét hinar vera óhúðaðar
  • Ég hef líka sleppt því að velta kúlunum upp úr kókosmjöli/kakó og brætt dökkt, lífrænt súkkulaði yfir vatnsbaði á vægum hita. Ég dýfi kúlunum alveg ofan í eða bara að hluta og legg þær á bökunarpappír áður en þær fara í ílát og í kæli.

PS. Á CafeSigrun er að finna hátíðlega útgáfu af þessu konfekti sem er virkilega góð.

þriðjudagur, 18. maí 2010

bláberjamöffins

Um daginn var ég að gera bláberja- og hindberjaþeyting (smoothie) fyrir mig og soninn þegar óstjórnleg löngun í bláberjamöffins tók völdin. Ég elska bláber, sem er heppilegt því þau eru rík af andoxunarefnum, og mér verður reglulega hugsað til risastórra, kanadískra bláberja sem ég borðaði í fyrra. Ég ákvað að gera tilraun með pekan- og valhnetum ásamt smá kanil sem kom ágætlega út en var samt ekki alveg með því bragði sem ég var að leita eftir. Mig langaði í eitthvað eilítið mýkra og hugsaði með mér að ég hefði átt að nota möndlur frekar. Daginn eftir var andinn yfir mér og ég réðst í aðra tilraun. Möffinsin heppnuðust svakalega vel og krakkarnir voru ekki lengi að klára þau (góður mælikvarði á gæði baksturs; börn ljúga ekki). Það er eðal að eiga svona möffins í frystinum og kippa með sér í vinnuna eða setja í nestisbox krakkanna. Ég vil benda á að þar sem uppskriftin inniheldur svo til enga olíu þá þarf að nota silíkonmöffinsform; það er ekki hægt að nota pappírsform.

BLÁBERJAMÖFFINS

HRÁEFNI

  • 1½ bolli spelti (1 bolli = 250 ml)
  • 2 teskeiðar vínsteinslyftiduft
  • ½ teskeið sjávarsalt, fínt
  • 50 g möndlur, saxaðar (ég nota með hýði)
  • 1 (hamingju)egg
  • 1 eggjahvíta
  • ½ bolli hrásykur (100 g)
  • ½ matskeið agave eða hreint hlynsíróp
  • ⅓ bolli sojamjólk (+ 1 matskeið ef þarf)
  • 2½-3 matskeiðar eplamauk (notið lífrænt eða gerið ykkar eigið, sjá neðar)
  • 100 g frosin bláber + ½ matskeið hrásykur

Hugmyndin að innihaldi eplamauksins kemur frá (Cafe)Sigrúnu en á vefnum hennar er að finna hollar og góðar uppskriftir fyrir smábörn. Ég náði 2½ msk úr því hráefni sem ég notaði (ég notaði frekar lítið epli sem var ca. 110 g áður en ég afhýddi það):


  • 1 epli, afhýtt og skorið í bita (kjarni ekki notaður)
  • ½ teskeið sojamjólk/léttmjólk
  • ½ teskeið kókosolía (látið krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)

  • AÐFERÐ

    1. Setjið bláberin í litla skál, hrærið ½ msk af hrásykri út í og látið þiðna á borðinu í 7 mínútur eða svo. Setjið skálina svo strax aftur í frysti og geymið þar uns þið notið bláberin í deigið (þið getið þess vegna gert þetta deginum áður til að undirbúa baksturinn)
    2. Ef þið gerið ykkar eigið eplamauk (mjög auðvelt) þá byrjið þið á því að gufusjóða eplabitana í 6 mínútur, setjið þá svo í djúpa skál ásamt ½ tsk af mjólk og kókosolíu og notið töfrasprota til að mauka (það má líka alveg stappa vel með gaffli)
    3. Blandið þurrefnum saman í stórri skál
    4. Saxið möndlur í matvinnsluvél og blandið saman við þurrefnin (ég saxa þær mjög vel þannig að hluti þeirra verður nánast að mjöli)
    5. Blandið eggi, eggjahvítu, hrásykri, agave, mjólk og eplamauki saman í skál og hrærið létt saman, hellið svo blöndunni í skálina með þurrefnunum og bara rétt veltið deiginu þar til hráefnin hafa blandast saman. Deigið á að vera létt í sér og því á alls ekki að hræra mikið. Ef ykkur finnst þurfa, bætið þá 1 msk af mjólk
    6. Takið sykruðu bláberin úr frysti og notið sömu aðferð til að blanda þeim rólega saman við deigið, bara „fold them in,“ eins og Kanarnir segja
    7. Smyrjið silíkonmöffinsform með smá kókosolíu áður en deigið fer í formin (12-14 stykki). Þið getið ekki notað pappírsform fyrir þessa uppskrift þar sem hún inniheldur litla fitu
    8. Bakið við 200°C á blæstri í 20-23 mínútur

    Þar sem ég er nýbúin að setja saman þessa uppskrift þá á ég líklega eftir að leika mér með hana, ekki grunnuppskriftina þó. Ég á við valmöguleika sem má alveg sleppa og ef þeir koma vel út þá bæti ég þeim inn síðar meir.

    laugardagur, 15. maí 2010

    frönsk súkkulaðikaka


    Franskar súkkulaðikökur eru að mínu mati bestu súkkulaðikökurnar en þessar hefðbundnu uppskriftir innihalda mikið magn af sykri, smjöri og jafnvel suðusúkkulaði (trúi varla að ég hafi bakað svona kökur hér áður fyrr því núna er þetta eitthvað svo fjarri mér). Ég viðurkenni að þessi var lengi í þróun því þegar ég byrjaði á henni þá var ég enn að baka með smjöri en að fikra mig áfram með að minnka það. Þegar ég endanlega sleppti því þá fullkomnaðist kakan, mínu fólki til mikillar gleði. Þar sem kakan hefur fengið frábærar viðtökur á CafeSigrun þá verð ég að hafa hana sem fyrstu uppskriftina á síðunni minni. Sigrún var minn innblástur og ég vil alltaf meina að hún eigi hluta af henni. Hún á alla vega hugmyndina að cashewhnetumaukinu en það má nota það eða kókosolíu eingöngu. Ég hef líka notað blöndu af kókosolíu og lífrænu hnetusmjöri og það kemur vel út. Sonur minn varð 4ra í fyrra og hann heimtaði þessa köku með Spiderman kerti og varð að ósk sinni – alsæll. Ég held að það segi ýmislegt um ágæti hennar. Þessi er ekta frönsk, blaut í miðjunni og hrikalega góð.

    FRÖNSK SÚKKULAÐIKAKA

    HRÁEFNI

    • 10 döðlur, steinlausar, lagðar í bleyti
    • 1 dl cashewhnetur, lagðar í bleyti
    • 1½ dl lífrænn hrásykur (ekki nota of grófan)
    • 1 egg (notið helst hamingjuegg)
    • 1 eggjahvíta
    • 4 msk cashewhnetur + 4 msk kókosolía eða 2 msk lífrænt cashewhnetumauk + 4 msk kókosolía eða 6  msk kókosolía (látið krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)***
    • 1 tsk vanilludropar eða vanillusykur úr heilsubúð
    • 1¼ dl spelti
    • 4 msk kakó (kaupið lífrænt framleitt og helst fair-trade líka)
    • 1 tsk vínsteinslyftiduft
    • ¼ tsk sjávarsalt, fínt
    • ögn af muldum valhnetum (má sleppa en þær gefa góðan keim)
    • lúxusútgáfa: 20-25 g af söxuðu 70% súkkulaði (kaupið lífrænt sem inniheldur hrásykur, t.d. frá Green & Black’s eða Rapunzel)

    *** Ég hef líka notað 2 msk af lífrænu hnetusmjöri og 4 msk af kókosolíu sem kom vel út.

    AÐFERÐ

    1. Byrjið á því að leggja döðlur og cashewhnetur í bleyti í 30 mínútur
    2. Ef þið ætlið að gera ykkar eigið cashewhnetumauk þá setjið þið 4 msk af cashewhnetum í matvinnsluvél og blandið á fullum hraða í ca. 1 mínútu. Þið bætið svo 4 msk af kókosolíu út í, einni matskeið í einu, blandið vel í vélinni og setjið til hliðar (þið sleppið þessu stigi ef þið notið tilbúið ásamt kókosolíu eða kókosolíu eingöngu)
    3. Hellið vatninu af döðlunum og cashewhnetunum, setjið þær í matvinnsluvél og vinnið vel. Setjið til hliðar
    4. Setjið hrásykur og egg í bökunarskál og hrærið með gaffli/pískara, bætið kókosolíu eða cashewhnetumauki ásamt vanilludropum út í og hrærið uns allt blandast vel
    5. Blandið saman þurrefnum, spelti, vínsteinslyftidufti og salti, í sér skál og sigtið kakóið út í, hellið þessu út í hina blönduna og hrærið rólega saman með sleif
    6. Blandið síðan maukuðu döðluðunum og cashewhnetunum saman við ásamt valhnetum og söxuðu súkkulaði, ef þið notið lúxusútgáfuna
    7. Smyrjið hringlaga form (passa að þvermálið sé ekki meira en 23 cm) með kókosolíu eða klæðið það með bökunarpappír og bakið við 180°C á blæstri í 12-15 mínútur (það er mjög mikilvægt að baka kökuna ekki of lengi því hún á að vera blaut í miðjunni, athugið þó að ofnar eru mismunandi. Ég var að gera tilraun með baksturstíma á undir- og yfirhita þegar ég tók myndina að ofan og ég hefði þurft að baka kökuna aðeins skemur, hún á að vera blautari)
    8. Leyfið kökunni aðeins að kólna og berið svo fram með rjóma og jafnvel jarðarberjum, bláberjum eða hindberjum

    Pin It button on image hover