miðvikudagur, 27. október 2010

grænmetis- og tómatsúpa

Ég geri reglulega núðlusúpu og nota í hana stilkana (græna hlutann) á ýmist vorlauksbúnti eða einum til tveimur blaðlaukum. Hvíta hlutann geymi ég í ísskápnum og það kemur fyrir að ég steingleymi að nota hann og þarf svo að henda honum. Mér líkar ekki að henda mat og fannst því kjörið að leyfa hugmyndafluginu að ráða og setja saman uppskrift að súpu með þessu tiltekna hráefni. Úr varð tómatsúpa sem rennur vel ofan í mitt fólk með nýbökuðum speltbollum, ólífubrauði eða sveitabrauði. Hún er ekki síðri upphituð daginn eftir og því upplagt að taka hana með í vinnuna ef þið hafið aðstöðu til þess. Tómatsúpur eru ekkert annað en klassík og þessi er kjörin í kuldanum. Súpum á eftir að fjölga á vefnum því ég hef verið að leika mér með nokkrar nú í haust og vetur.

GRÆNMETIS- OG TÓMATSÚPA

HRÁEFNI

  • 1 laukur
  • 2 blaðlaukar eða vorlauksbúnt (ekki nota græna hlutann)
  • 2 stór hvítlauksrif
  • 1½ matskeið extra virgin ólífuolía
  • 1 stór gulrót
  • 1 rauð paprika
  • 1½ lítri vatn
  • 2½ gerlaus grænmetisteningur
  • 2 dósir tómatar (helst flysjaðir tómatar)
  • ½ teskeið paprikuduft
  • ½ teskeið mulinn kóríander
  • 2 teskeiðar ítölsk kryddblanda
  • 1 teskeið sjávarsalt

AÐFERÐ

  1. Byrjið á því að skera lauk og grænmeti og léttsteikið laukinn og blaðlaukinn í olíunni í sæmilega stórum potti
  2. Bætið hvítlauk og restinni af grænmetinu út í þegar laukurinn er aðeins byrjaður að mýkjast og haldið áfram að léttsteikja
  3. Bætið því næst vatninu, grænmetisteningunum og tómötunum út í, blandið vel saman og stillið á hæsta hita
  4. Kryddið og bíðið eftir að suðan komi upp
  5. Látið súpuna malla í 30 mínútur á meðalhita
  6. Maukið súpuna rétt aðeins með töfrasprota, þó ekki svo mikið að hún verði eins og ungbarnamatur (þið getið líka sett hana í smá skömmtum í ýmist blandara eða matvinnsluvél en þá þarf að kæla hana áður)

Pin It button on image hover