föstudagur, 11. febrúar 2011

banana- og berjadrykkur (smoothie)

Ég á vinkonu sem á að vera á fljótandi fæði þessa dagana og að slaka á eftir kirtlatöku. Mér fannst því kjörið að birta eina smoothie uppskrift, ef hægt er að kalla þetta uppskrift. Ég myndi segja að ég væri frekar vanaföst þegar kemur að smoothie og í raun eru þetta bara örfáir drykkir sem ég skiptist á að gera. Bestir finnst mér drykkir með banana og berjum og yfirleitt fylgi ég aldrei uppskrift heldur læt bara tilfinninguna ráða. Ég á yfirleitt alltaf frosin ber í frystinum; bláber, hindber eða blöndu af skógarberjum. Stundum blanda ég þeim öllum saman, stundum nota ég bara bláber eða hindber, veltur bara á því hvað kroppurinn kallar á. Oft finnst mér gott að útbúa smoothie eftir matinn ef við höfum verið að borða sterkan mat, eins og indverskan eða mexíkóskan. Þá er eins og tönnin kalli á eitthvað sætt og stað þess að þenja sig út af ís eða súkkulaði þá er ágætt að fá bara nokkra sopa af smoothie.

BANANA- OG BERJADRYKKUR

HRÁEFNI

  • ca. 100-120 ml sojamjólk, undanrenna eða léttmjólk
  • 1 dl frosin ber (bláber, hindber eða skógarberjablanda)
  • 2-3 ísmolar
  • 1 stór banani
  • 3 möndlur með hýði
  • örlítið af agave (má sleppa)

AÐFERÐ

  1. Hellið mjólkinni í blandara
  2. Bætið frosnum berjum og ísmolum út í ásamt möndlum og leyfið blandaranum að mauka þetta í smá stund
  3. Bætið svo banananum út í ásamt agave ef þið notið það og maukið þar til drykkurinn er tilbúinn (veltur bara á því hversu öflugan blandara þið eigið)
  4. Hellið í stórt glas eða tvö minni og njótið

Pin It button on image hover