sunnudagur, 15. maí 2011

eplakaka


Síðan mín á eins árs afmæli í dag og það er tilvalið að halda upp á það með eplaköku, uppáhaldi eiginmannsins. Þessi var alveg sérstaklega þróuð fyrir hann því hann elskar eplakökur, ekki bökur heldur kökur, og ef hann mætti ráða þá væri ekkert annað bakað á þessu heimili. Það verður að segjast eins og er að það er eitthvað dásamlegt við heita eplakökusneið með rjóma. Það tók nú ekki langan tíma að þróa þessa því stundum er bara eins og rétti eldhúsandinn sé yfir manni: hún heppnaðist í fyrstu tilraun og bóndinn lét mig lofa sér að gera engar breytingar á uppskriftinni. Ég hef bakað þessa fyrir fólk sem er vanara því að fá ekkert nema dísætar kökur með smjöri og allir lofa kökuna. Ég hef auk þess birt uppskriftina á ensku síðunni og hef fengið góð viðbrögð í tölvupóstum. Bara eitt að lokum: Ekki gleyma að dreifa kanilsykrinum yfir eplin! Ég ætla ekki að segja ykkur hversu oft ég er nálægt því að gleyma þessu atriði í aðferðinni. [Uppfærsla 10. feb. '13: Undanfarið hef ég aðeins verið að leika mér með uppskriftina og hef minnkað hrásykurinn eilítið (magnið var áður ½ bolli eða 100 g). Við bökum þessa köku svo oft og núna þegar ég nota alltaf stór egg þá finnst mér nóg að nota 2 msk af kókosolíu, þess vegna setti ég inn 2-3 msk. Sjá útfærslu af stærri köku neðar.]

EPLAKAKA

HRÁEFNI


  • 70 g hrásykur
  • 2 matskeiðar hreint hlynsíróp eða agave síróp
  • 2 stór (hamingju)egg
  • 2-3 matskeiðar kókosolía, fljótandi
  • 1 bolli (130 g) spelti (má nota gróft og fínt til helminga)
  • 2 teskeiðar vínsteinslyftiduft
  • 2 rauð epli, helst lífræn
  • kanilsykur (útbúinn með hrásykri) eftir smekk

AÐFERÐ

  1. Setjið hrásykur, agave, egg og kókosolíu í bökunarskál og hrærið með pískara (ef kókosolían er í föstu formi látið þá krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)
  2. Blandið speltinu og vínsteinslyftiduftinu saman í aðra skál og blandið svo saman við hina blönduna með sleikju
  3. Notið eplaskera (ef þið eigið hann til) til þess að sneiða eplin, afhýðið sneiðarnar og skerið svo hverja sneið í þrennt, langsum
  4. Klæðið ca. 20-23 cm hringform með bökunarpappír eða smyrjið bökudisk með örlítilli kókosolíu
  5. Dreifið aðeins minna en helmingnum af deiginu í botninn með sleikju. Ef deigið er stíft þá er ágætis ráð að dýfa sleikjunni ofan í ílát með heitu vatni
  6. Raðið eplasneiðunum í hring á botninn, nokkuð þétt þannig að brúnin á hverri sneið sé aðeins uppi á næstu og fyllið svo upp í miðjuna (því smærra form sem notað er því þéttar raðast sneiðarnar)
  7. Stráið kanilsykri yfir eplin (á þessu heimili er kanilsykur mikið notaður og lítið pælt í hlutföllum hrásykurs og kanils þegar hann er útbúinn en einhvers staðar las ég að ágætis hlutföll í bakstur eru 1 matskeið hrásykur á móti 1 teskeið af kanil). Það má líka alveg strá kanil eingöngu yfir eplin
  8. Dreifið restinni af deiginu yfir eplin, rólega svo eplin færist ekki öll úr stað og munið að dýfa sleifinni í heitt vatn ef deigið er stíft. Þetta með deigið veltur svolítið á stærð eggjanna sem notuð eru og á rakanum í eldhúsinu hverju sinni. Stundum er eins og ég þurfi ekkert að nota sleikju til þess að dreifa deiginu heldur virðist vera nóg að hella því bara rólega úr skálinni yfir eplin (áferðin er ekki fljótandi heldur þykk í sér). En notið alla vega sleikju til þess að skafa restina af deiginu úr skálinni
  9. Bakið á blæstri við 150° C neðst í ofninum í 40-55 mínútur þar til toppurinn er orðinn gullinbrúnn (því minna form því lengri bökunartími - stingið prjóni í miðja kökuna til að athuga hvort hún sé tilbúin). Ef toppurinn fer að verða of dökkur í ofninum og töluvert eftir af baksturstímanum þá er ágætt að setja álpappír yfir formið
  10. Berið kökuna fram með þeyttum rjóma eða ís


Um daginn tókst mér að brjóta eldfasta mótið sem ég hef alltaf notað til að baka kökuna. Það var ca. 22-23 cm í þvermál. Ég á eftir að kaupa mér nýtt og hef því verið að baka kökuna í eilítið stærra móti. Ég setti því saman stærri útgáfu af kökunni. Ég nota 3 msk af kókosolíunni í stærri útgáfuna og nota stór egg og bæti við einni eggjahvítu. Ég nota líka stór epli.

EPLAKAKA, STÆRRI KAKA

HRÁEFNI


  • 100 g hrásykur
  • 2-½ matskeið hreint hlynsíróp eða agave síróp
  • 2 stór (hamingju)egg
  • 1 eggjahvíta (af stóru eggi)
  • 3 matskeiðar kókosolía, fljótandi
  • 200 g spelti (má nota gróft og fínt til helminga)
  • 2½ teskeiðar vínsteinslyftiduft
  • 2 stór rauð epli, helst lífræn
  • kanilsykur: ½ matskeið hrásykri og ½ teskeið kanill

Aðferðin er alveg sú sama nema ég baka þessa við 170° C (undir- og yfirhiti, ekki á blæstri) og hef hana í ca. 55 mín. í ofninum. Þegar ca. 25 mínútur eru eftir læt ég bökunarpappír yfir mótið í ofninum þannig að kökutoppurinn verði ekki of dökkur.

Pin It button on image hover