föstudagur, 4. nóvember 2011

franskur kjúklingapottréttur með rósmarín


Þessi uppskrift kemur frá líkamsræktarstöð í Reykjavík og kallast haustpottréttur. Ég fékk hana senda fyrir tveimur árum, eldaði hana fyrir heimilisfólk og einn gest og verð að viðurkenna að það voru nú engir flugeldar við borðið. Okkur fannst of mikið af kjúklingi og grjónum og rósmarínbragðið var aðeins of yfirgnæfandi. Það var samt eitthvað heillandi við innihaldið og lyktin í eldhúsinu var dásamleg þegar ég var að elda þannig að ég vildi ekki afskrifa uppskriftina. Ári síðar fór hún að kalla á mig og ég ákvað að breyta henni eilítið og bætti svo í hana lífrænu dijon sinnepi. Yngsta dóttirin borðaði fjórar skálar! Með því að nota dijon sinnep fannst mér pottrétturinn fá franskt yfirbragð þannig að ég breytti nafninu; það er líka einhver stemning yfir því að borða franskan pottrétt (annars ekkert að marka mig, ég er óð í allt franskt). Ég ber pottréttinn fram í skálum ásamt brauði, helst heimabökuðu, og það er nú ekki leiðinlegt að fá sér eitt glas af góðu rauðvíni með. Ég er í þeirri aðstöðu að geta keypt velferðarkjúklingabringur (free-range) þannig að ég nota þær og ég flysja ekki kartöflurnar því ég nota eingöngu lífrænt grænmeti í pottréttinn. Ef þið eruð að elda fyrir einungis tvo þá mæli ég með því að helminga uppskriftina svo það verði ekki of mikill afgangur. Það er alveg nóg að nota þá bara eina tómatdós og sleppa 400 ml af vatni og skorna tómatinum.

FRANSKUR KJÚKLINGAPOTTRÉTTUR MEÐ RÓSMARÍN

HRÁEFNI

  • 2 bein- og skinnlausar (velferðar)kjúklingabringur
  • 2 bollar vatn (500 ml)
  • kjúklingateningur, lífrænn
  • 1 laukur, afhýddur og fínsaxaður
  • 1 dós (450 g) tómatar í bitum („diced“)
  • 400 ml vatn
  • 1 matskeið dijon sinnep , lífrænt
  • 3 kartöflur, skornar í fernt
  • 3 stórar gulrætur, sneiddar
  • 1 rauð paprika, skorin í bita
  • 1 tómatur, skorinn í bita
  • 4 hvítlauksrif, afhýdd og skorin í þunnar sneiðar
  • ½ teskeið rósmarín, helst ferskt, saxað smátt, en má alveg nota krydd
  • 1 teskeið ítölsk kryddblanda (ég hef oft notað ½ teskeið oregano, ¼ teskeið timían, ¼ teskeið basilíku og örlítið af muldum kóríander)
  • má sleppa: 1 lárviðarlauf
  • ¼-½ teskeið nýmalaður svartur pipar
  • 1 teskeið sjávarsalt
  • 2½ bollar soðin Basmati hrísgrjón (600 ml)

AÐFERÐ

  1. Byrjið á því að skola og sjóða Basmati grjónin: Til þess að eiga nóg í réttinn (og smá afgang) sýð ég 1½ bolla (375 ml = ca. 300 g) af grjónum í 3 bollum af vatni (750 ml). Það tekur ekki nema um 10 mínútur að sjóða Basmati (athugið hvort á umbúðum grjónanna sé gefið upp annað magn af vökva; ég nota stundum villt Basmati grjón og þá nota ég 700 ml af vatni og sýð í ca. 20 mín.). (Fyrir ykkur sem eruð óörugg í eldhúsinu þá er ágætt að sjóða grjónin áður en þið byrjið á pottréttinum. Byrjið á því að láta vatnið með grjónunum sjóða án þess að setja lok á pottinn. Þegar suðan kemur upp stillið þá á lægsta hita og tillið loki á pottinn án þess að loka alveg þannig að gufan sleppi í gegn. Þegar grjónin eru tilbúin leyfið þeim að sitja í pottinum með lokinu á þar til þið notið þau í pottréttinn.)
  2. Og þá að sjálfum pottréttinum: Sjóðið kjúklingabringurnar í 2 bollum af vatni (500 ml) ásamt kjúklingateningum í stórum potti. Þegar vatnið byrjar að sjóða bætið þið fínsaxaða lauknum út í. Sjóðið kjúklingabringurnar í gegn (tekur nokkrar mínútur) og snúið þeim einu sinni á meðan
  3. Þegar bringurnar eru soðnar í gegn notið þá gaffal eða töng til þess að veiða þær upp úr pottinum, setjið á disk og til hliðar
  4. Bætið tómötum úr dós út í pottinn ásamt 400 ml af vatni (látið vatn bara renna í tómu dósina því hún tekur 400 ml)
  5. Bætið dijon sinnepi út í og létt hrærið
  6. Bætið öllu skorna grænmetinu út í ásamt kryddjurtum, salti og pipar (ef ítalska kryddblandan ykkar inniheldur ekki lárviðarlauf þá mæli ég með að elda réttinn með einu slíku og veiða það svo bara upp úr áður en hann er borinn fram)
  7. Skerið kjúklingabringurnar í hæfilega bita eða rífið þær bara í höndunum og bætið út í pottinn. Hrærið eilítið og látið sjóða í 25 mínútur á meðalhita eða lágum
  8. Bætið svo 2½ bollum (um 600 ml) af soðnum Basmati grjónum út í pottinn, hrærið og látið sjóða áfram í 8-10 mínútur
  9. Ég ber pottréttinn fram í skálum og leyfi honum eilítið að kólna því grænmetið er ansi heitt beint upp úr pottinum. Ég mæli með grófu heimabökuðu brauði með og hjartastyrkjandi rauðvínsglasi

Pin It button on image hover