mánudagur, 29. ágúst 2011

tómatpastasósa með hvítlauk og ferskri basilíku


Þetta er nú alveg á mörkum þess að kallast uppskrift því einfaldara gerist það varla. Fólki kann að finnast það skrýtið en við kaupum svo til aldrei 'take-out' mat. Við gerðum meira af því hér áður fyrr en á síðastliðnum tveimur árum hefur það kannski gerst tvisvar. Ef við höfum lítinn tíma í eldhúsinu þá er aðalatriðið að skella í eitthvað sem er einfalt og tekur lítinn tíma, eins og t.d. þessa fersku tómatpastasósu á meðan pastað sýður í pottinum. Heimagert er bara svo miklu betra – það finnst mér alla vega.

TÓMATPASTASÓSA MEÐ HVÍTLAUK OG FERSKRI BASILÍKU

HRÁEFNI

  • 325-350 g kirsuberjatómatar
  • ½ matskeið ólífuolía
  • 1-2 hvítlauksrif, pressuð
  • 1 teskeið agave eða hrásykur
  • ½-1 matskeið söxuð fersk basilíka
  • sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk

AÐFERÐ

  1. Skerið tómatana í fernt og steikið upp úr ólífuolíunni á lágum hita
  2. Bætið restinni af hráefninu út í og látið malla við lágan hita á meðan þið sjóðið pastað
  3. Saltið og piprið eftir smekk og berið fram með brauði eða einföldu gulrótasalati

PS. Þið getið notað basilíkukrydd í staðinn fyrir ferska basilíku. Það er svona þumalputtaregla að nota eina teskeið af kryddi á móti matskeið af ferskri jurt; ég hef ekki notað það sjálf í þessa þannig að þið notið bara meira ef ykkur finnst bragðið aðeins of dauft.

fimmtudagur, 4. ágúst 2011

túnfiskssalat

CafeSigrún uppskrift: Túnfiskssalat · Lísa Hjalt


Ég var að útbúa túnfiskssalat fyrr í dag og fannst því tilvalið að skella uppskriftinni hér inn þar sem ég hafði tekið mynd af því fyrir töluverðu síðan. Þessi uppskrift kemur frá CafeSigrun eins og svo margt annað gott.

TÚNFISKSSALAT

HRÁEFNI

  • 2 harðsoðin (hamingju)egg (notið eitt heilt og svo bara hvítuna af öðru)
  • 1 dós túnfiskur í vatni
  • 2-3 matskeiðar majónes eða sýrður rjómi (má líka nota bæði)
  • ¼ teskeið svartur pipar
  • ¼ teskeið karrí
  • hálfur rauðlaukur, saxaður smátt (má sleppa en gefur afar gott bragð)

AÐFERÐ

  1. Sjóðið eggin og kælið
  2. Fjarlægið aðra eggjarauðuna og notið svo eggjaskera til að skera eggin langsum og þversum
  3. Hellið vatninu af túnfisknum og setjið hann í skál
  4. Bætið eggjum, majónesi/sýrðum rjóma, karrí og svörtum pipar í skálina
  5. Afhýðið og saxið rauðlaukinn og bætið honum út í
  6. Hrærið öllu vel saman

Pin It button on image hover