fimmtudagur, 24. nóvember 2011

rósakál m/kastaníuhnetum, beikoni og steinselju


Beikon á síðu sem býður upp á holla rétti?!! Ég hreinlega varð að deila þessari uppskrift með ykkur og ég held að þetta verði í eina skiptið sem þið finnið beikon hér. Beikon er svo sannarlega ekki heilsufæða en eigum við ekki bara að segja að rósakálið og hneturnar bæti það upp í þessu meðlæti? Fyrir nokkrum árum var ég að undirbúa jólin og það var kveikt á sjónvarpinu. Allt í einu heyri ég rödd Nigellu og þá var hún að undirbúa kalkúnamáltíð í einhverjum jólaþætti. Ég var á höttunum eftir góðu meðlæti því við erum alltaf með kalkún á jólunum, ýmist á aðfangadagskvöld eða jóladag. Hún heillaði mig alveg upp úr skónum með þessari uppskrift, en ég bjóst alveg við því að börnin fúlsuðu við rósakálinu. Til að gera langa sögu stutta þá elskuðu þau það frá fyrsta bita og þetta er því fastur liður á okkar veisluborði. Ég nota gjarnan hakkaðar cashewhnetur í staðinn fyrir kastaníuhnetur og ef ég er með mikið af öðru meðlæti þá nota ég stundum bara ca. 800 g af rósakálinu. Ég sleppi smjörinu sem er í upprunalegu uppskriftinni og yfirleitt sleppi ég líka víninu. Hér er sem sagt mín útgáfa af uppskrift Nigellu og fyrir neðan eru nokkrir punktar um breytingarnar sem ég hef gert.

RÓSAKÁL MEÐ KASTANÍUHNETUM, BEIKONI OG STEINSELJU

HRÁEFNI

  • 1 kg rósakál
  • 1-2 matskeiðar kókosolía
  • 200 g lúxus beikon, lífrænt/free-range ef mögulegt
  • 100-150 g kastaníuhnetur í loftþéttum umbúðum* eða cashewhnetur
  • 60 ml (4 matskeiðar) Marsala vín (má sleppa)
  • 1 stór handfylli fersk steinselja, söxuð og svo skipt til helminga
  • nýmalaður svartur pipar
  • örlítið sjávarsalt (má sleppa)

*Athugið að kastaníuhnetur í loftþéttum umbúðum eru tilbúnar til notkunar. Ef þið fáið ekki slíkar þá verður að rista hneturnar í ofni til að ná hýðinu af: Skerið fyrst í hýðið með beittum hníf og ristið í ofnskúffu ásamt smá vatni í 8 mínútur eða svo á 240°C. Fjarlægið hýðið á meðan það er enn heitt. Þegar búið er að ná hnetunum úr hýðinu má geyma þær í lokuðu íláti í 3-4 daga í ísskáp (leiðbeiningar úr Larousse alfræðibókinni um mat). Þið getið því undirbúið þetta nokkrum dögum áður. Svo má líka bara nota cashewhnetur en kastaníuhneturnar fara virkilega vel með rósakálinu.

Í uppskrift Nigellu á að nota 250 g af ítölsku beikoni (pancetta) og er það skorið í teninga sem eru ca. 1.25 cm. Mér finnst nóg að nota 200 g af lúxus beikoni. Í hennar uppskrift er auk þess að finna 225 g af kastaníuhnetum en mér finnst 100-150 g nóg. Stundum nota ég þó meira, það veltur svolítið á því hvaða meðlæti ég er að bera fram hverju sinni. Það er ekkert sjávarsalt í uppskrift Nigellu, nema það sem hún setur í pottinn til að sjóða rósakálið, en mér finnst oft ágætt að strá örlitlu yfir réttinn áður en ég ber hann fram.

AÐFERÐ

  1. Skerið endana af rósakálinu og skerið kross í botninn um leið. Setjið rósakálið í stóran pott af sjóðandi vatni með salti og sjóðið það í 5 mínútur, eða þar til kálið er mjúkt en samt örlítið stökkt
  2. Á meðan rósakálið sýður í pottinum skuluð þið skera beikonsneiðarnar í bita, ekki of litla þó. Ef þið notið cashewhnetur í staðinn fyrir kastaníuhnetur þá er um að gera að spara tíma og hakka þær rétt aðeins í matvinnsluvélinni. Þið getið líka notað hníf til þess
  3. Fjarlægið pottinn af hellunni, hellið vatninu af og látið rósakálið standa í sigti þar til þið notið það (mér finnst best að skera rósakálið í tvennt áður en það fer á pönnuna; ef þið hafið tíma þá mæli ég með að skera það þegar það hefur kólnað)
  4. Hitið 1 matskeið af kókosolíu í öðrum stórum potti eða á stórri pönnu, bætið beikoninu út í og steikið það þar til það verður örlítið stökkt og gullinbrúnt. Passið af ofsteikja ekki því þá verður það þurrt
  5. Bætið meira af kókoslíu út í ef þið þurfið og því næst kastaníuhnetum úr loftþéttum umbúðum (eða hökkuðum cashewhnetum). Notið trésleif eða sleikju til þess að þrýsta á kastaníuhneturnar og brjóta þær. Þegar þær hafa hitnað í gegn þá aukið þið hitann og hellið Marsala víninu út í, ef þið notið það, og sjóðið þar til blandan hefur þykknað
  6. Bætið soðna rósakálinu út í pottinn og helmingnum af söxuðu steinseljunni (yfirleitt læt ég alla steinseljuna út í eða þá tvo-þriðju hluta hennar)
  7. Kryddið með nýmöluðum svörtum pipar og áður en þið berið meðlætið fram má dreifa örlitlu sjávarsalti yfir og svo restinni af söxuðu steinseljunni ef þið hafið ekki þegar notað hana alla

föstudagur, 4. nóvember 2011

franskur kjúklingapottréttur með rósmarín


Þessi uppskrift kemur frá líkamsræktarstöð í Reykjavík og kallast haustpottréttur. Ég fékk hana senda fyrir tveimur árum, eldaði hana fyrir heimilisfólk og einn gest og verð að viðurkenna að það voru nú engir flugeldar við borðið. Okkur fannst of mikið af kjúklingi og grjónum og rósmarínbragðið var aðeins of yfirgnæfandi. Það var samt eitthvað heillandi við innihaldið og lyktin í eldhúsinu var dásamleg þegar ég var að elda þannig að ég vildi ekki afskrifa uppskriftina. Ári síðar fór hún að kalla á mig og ég ákvað að breyta henni eilítið og bætti svo í hana lífrænu dijon sinnepi. Yngsta dóttirin borðaði fjórar skálar! Með því að nota dijon sinnep fannst mér pottrétturinn fá franskt yfirbragð þannig að ég breytti nafninu; það er líka einhver stemning yfir því að borða franskan pottrétt (annars ekkert að marka mig, ég er óð í allt franskt). Ég ber pottréttinn fram í skálum ásamt brauði, helst heimabökuðu, og það er nú ekki leiðinlegt að fá sér eitt glas af góðu rauðvíni með. Ég er í þeirri aðstöðu að geta keypt velferðarkjúklingabringur (free-range) þannig að ég nota þær og ég flysja ekki kartöflurnar því ég nota eingöngu lífrænt grænmeti í pottréttinn. Ef þið eruð að elda fyrir einungis tvo þá mæli ég með því að helminga uppskriftina svo það verði ekki of mikill afgangur. Það er alveg nóg að nota þá bara eina tómatdós og sleppa 400 ml af vatni og skorna tómatinum.

FRANSKUR KJÚKLINGAPOTTRÉTTUR MEÐ RÓSMARÍN

HRÁEFNI

  • 2 bein- og skinnlausar (velferðar)kjúklingabringur
  • 2 bollar vatn (500 ml)
  • kjúklingateningur, lífrænn
  • 1 laukur, afhýddur og fínsaxaður
  • 1 dós (450 g) tómatar í bitum („diced“)
  • 400 ml vatn
  • 1 matskeið dijon sinnep , lífrænt
  • 3 kartöflur, skornar í fernt
  • 3 stórar gulrætur, sneiddar
  • 1 rauð paprika, skorin í bita
  • 1 tómatur, skorinn í bita
  • 4 hvítlauksrif, afhýdd og skorin í þunnar sneiðar
  • ½ teskeið rósmarín, helst ferskt, saxað smátt, en má alveg nota krydd
  • 1 teskeið ítölsk kryddblanda (ég hef oft notað ½ teskeið oregano, ¼ teskeið timían, ¼ teskeið basilíku og örlítið af muldum kóríander)
  • má sleppa: 1 lárviðarlauf
  • ¼-½ teskeið nýmalaður svartur pipar
  • 1 teskeið sjávarsalt
  • 2½ bollar soðin Basmati hrísgrjón (600 ml)

AÐFERÐ

  1. Byrjið á því að skola og sjóða Basmati grjónin: Til þess að eiga nóg í réttinn (og smá afgang) sýð ég 1½ bolla (375 ml = ca. 300 g) af grjónum í 3 bollum af vatni (750 ml). Það tekur ekki nema um 10 mínútur að sjóða Basmati (athugið hvort á umbúðum grjónanna sé gefið upp annað magn af vökva; ég nota stundum villt Basmati grjón og þá nota ég 700 ml af vatni og sýð í ca. 20 mín.). (Fyrir ykkur sem eruð óörugg í eldhúsinu þá er ágætt að sjóða grjónin áður en þið byrjið á pottréttinum. Byrjið á því að láta vatnið með grjónunum sjóða án þess að setja lok á pottinn. Þegar suðan kemur upp stillið þá á lægsta hita og tillið loki á pottinn án þess að loka alveg þannig að gufan sleppi í gegn. Þegar grjónin eru tilbúin leyfið þeim að sitja í pottinum með lokinu á þar til þið notið þau í pottréttinn.)
  2. Og þá að sjálfum pottréttinum: Sjóðið kjúklingabringurnar í 2 bollum af vatni (500 ml) ásamt kjúklingateningum í stórum potti. Þegar vatnið byrjar að sjóða bætið þið fínsaxaða lauknum út í. Sjóðið kjúklingabringurnar í gegn (tekur nokkrar mínútur) og snúið þeim einu sinni á meðan
  3. Þegar bringurnar eru soðnar í gegn notið þá gaffal eða töng til þess að veiða þær upp úr pottinum, setjið á disk og til hliðar
  4. Bætið tómötum úr dós út í pottinn ásamt 400 ml af vatni (látið vatn bara renna í tómu dósina því hún tekur 400 ml)
  5. Bætið dijon sinnepi út í og létt hrærið
  6. Bætið öllu skorna grænmetinu út í ásamt kryddjurtum, salti og pipar (ef ítalska kryddblandan ykkar inniheldur ekki lárviðarlauf þá mæli ég með að elda réttinn með einu slíku og veiða það svo bara upp úr áður en hann er borinn fram)
  7. Skerið kjúklingabringurnar í hæfilega bita eða rífið þær bara í höndunum og bætið út í pottinn. Hrærið eilítið og látið sjóða í 25 mínútur á meðalhita eða lágum
  8. Bætið svo 2½ bollum (um 600 ml) af soðnum Basmati grjónum út í pottinn, hrærið og látið sjóða áfram í 8-10 mínútur
  9. Ég ber pottréttinn fram í skálum og leyfi honum eilítið að kólna því grænmetið er ansi heitt beint upp úr pottinum. Ég mæli með grófu heimabökuðu brauði með og hjartastyrkjandi rauðvínsglasi

Pin It button on image hover