sunnudagur, 29. janúar 2012

epla- og súkkulaðimöffins


Ég skellti þessari uppskrift saman fyrr í dag og ákvað að deila henni strax með ykkur. Ég notaði bara sama grunninn og venjulega og bætti svo við rifnum eplum og súkkulaðihnetusmjöri. Ég kaupi einungis lífrænt súkkulaðihnetusmjör, aldrei Nutella eða slíkar tegundir. Það má að sjálfsögðu nota heimagert ef maður á það til. Súkkulaðihnetusmjörið gerir toppana örlítið stökka og brakandi og það lagðist greinilega vel í mitt fólk í dag. (Ef þið eruð með hnetuofnæmi þá getið þið notað kókosolíu í staðinn fyrir súkkulaðihnetusmjör og örlítið kakó eða lífræna súkkulaðibita.) Þetta er ein af þessum uppskriftum sem er einföld og því kjörið að skella í þessa möffinsa þegar mann langar í eitthvað örlítið sætt með kaffinu. Og þar sem þeir eru ekki mjög sætir er tilvalið að bjóða upp á þá sem hluta af t.d. sunnudags 'bröns' eða hafa með í nesti í vinnuna/skólann.

EPLA- OG SÚKKULAÐIMÖFFINS

HRÁEFNI

  • 1½ bolli spelti
  • 2 teskeiðar vínsteinslyftiduft
  • ½ teskeið fínt sjávarsalt
  • 1 (hamingju)egg
  • ½ bolli hrásykur
  • 3 matskeiðar lífrænt súkkulaðihnetusmjör
  • 2 rauð epli (ekki of stór), afhýdd og rifin gróft

AÐFERÐ

  1. Blandið þurrefnunum saman í skál og setjið til hliðar
  2. Í aðra skál skuluð þið hræra saman eggi og hrásykri
  3. Afhýðið eplin og fjarlægið steinana. Rífið eplin á grófu rifjárni
  4. Bætið rifnu eplunum út í eggjablönduna ásamt súkkulaðihnetusmjörinu og blandið saman með sleikju
  5. Bætið þurrefnablöndunni út í og alls ekki hræra mikið. Deigið á að vera létt í sér þannig að þið þurfið bara rétt að velta því með sleikjunni þar til hráefnin hafa blandast saman
  6. Smyrjið silíkonmöffinsform með smá kókosolíu (mér finnst nóg að bara rétt pensla botnana) áður en deigið fer í formin (gerir 12 stykki). Þið getið ekki notað pappírsform fyrir þessa uppskrift þar sem hún inniheldur litla fitu
  7. Bakið við 200°C í 23-27 mínútur
  8. Látið kólna í formunum á kæligrind í 5-10 mínútur

Pin It button on image hover