þriðjudagur, 15. október 2013

sætkartöflusúpa með ristuðum graskersfræjum



Þessi súpa gerist varla haustlegri. Ég fann hana á vefsíðu Sweet Paul (mæli með nettímaritinu þeirra sem er fallegt, inniheldur uppskriftir og fleira, og er ókeypis) og gerði bara minniháttar breytingar á henni: bætti kókosolíu sem valmöguleika, notaði gríska jógúrt í stað rjóma og bætti engifer. Ég á eftir að smakka hana með fersku timían og er viss um að það gefi skemmtilegan keim.

SÆTKARTÖFLUSÚPA MEÐ RISTUÐUM GRASKERSFRÆJUM

HRÁEFNI

  • 1 laukur
  • 1 hvítlauksrif
  • valmöguleiki: lítill bútur ferskt engifer (ca. á stærð við tening)
  • 4 stórar sætar kartöflur
  • 3 stórar gulrætur
  • 1½-2 matskeiðar ólífuolía eða kókosolía (2 í upprunalegu uppskriftinni)
  • 2 lífrænir grænmetisteningar (eða kjúklinga-)
  • 1 lítri vatn
  • 190 ml grísk jógúrt (rjómi í upprunalegu uppskriftinni)
  • ¼ teskeið mulið chilli
  • ¼ teskeið nýmalaður svartur pipar
  • skreytið með ristuðum graskersfræjum, greinum af fersku timían og grískri jógúrt (eða rjóma)

AÐFERÐ

  1. Afhýðið/flysjið og skerið laukinn, sætu kartöflurnar, gulræturnar og engiferið
  2. Léttsteikið laukinn og grænmetið í stórum potti
  3. Bætið grænmetisteningum og vatni út í og látið suðuna koma upp, minnkið þá hitann og stillið á lágan eða miðlungs hita
  4. Sjóðið í um 25 mínútur þar til grænmetið er orðið mjúkt
  5. Notið töfrasprota til að mauka súpuna (má líka nota matvinnsluvél en betra þá að láta hana kólna á undan). Bætið grísku jógúrtinni (eða rjóma) út í til að þykkja súpuna. Hrærið og látið suðuna koma upp
  6. Kryddið með chilli og svörtum pipar. Bætið salti út í ef ykkur finnst það vanta
  7. Ristið graskersfræ á pönnu
  8. Berið súpuna fram í skálum skreytta með graskersfræjum, greinum af fersku timían og grískri jógúrt (eða rjóma)

Pin It button on image hover