sunnudagur, 29. desember 2013

skonsur



Uppskriftin að skonsunum varð til vegna einskærrar leti af minni hálfu. Ég hef lengi verið að leika mér með uppskrift að amerískum pönnukökum og er alltaf að gera örlitar breytingar á henni. Það var einn sunnudagsmorgun sem ég ætlaði að negla niður lokaútgáfu þegar mér fannst ameríski pönnukökuandinn bara ekki vera yfir mér og auk þess nennti ég ekki að þeyta eggjahvítur. Ég horfði á krotið í glósubókinni og hugsaði með mér að ég gæti gert úr þessu skonsur með smá breytingum. Síðan þá hafa þessar oft verið í morgunmatinn á sunnudögum - ég er einmitt að gera þær núna - enda tekur litla stund að skella í þær. Það er ekki mikil olía í þeim þannig að þið aukið hana bara ef ykkur finnst þær of þurrar. Við hjónin borðum þær yfirleitt með osti og sultu en krakkarnir taka oftast fram agave- eða hlynsírópið. Mér finnst líka gott að borða þær með t.d. eggjasalati ef ég á það til.

SKONSUR

HRÁEFNI

  • 325 g spelti (2½ bollar)
  • 2 matskeiðar hrásykur, lífrænn
  • 1 matskeið agave
  • 2-2½ teskeið vínsteinslyftiduft
  • ½ teskeið sjávarsalt, fínt
  • 2 stór egg
  • 400 ml mjólk/sojamjólk
  • 2½ matskeið kókosolía eða önnur góð jurtaolía

AÐFERÐ

  1. Blandið þurrefnum saman í stórri bökunarskál
  2. Myndið holu í speltið, setið eggin í holuna og rétt hrærið með pískara til að brjóta rauðurnar. Hellið svo mjólkinni rólega út í og hrærið allan tímann með pískara þar til deigið er kekklaust
  3. Bætið agave og kókosolíu út í og hrærið vel saman við (ef olían er í föstu formi látið þá krukkuna standa í heitu vatni í smá stund)
  4. Berið þunnt lag af kókosolíu á pönnu og látið pönnuna hitna á miðlungshita (ég byrja á stillingu 6 af 9 og lækka fljótlega niður í 5 eða 4 þegar skonsurnar verða full dökkar. Ef pannan verður of heit þá er gott að fjarlægja hana af hellunni í eitt augnablik. Ef þið notið gas þá myndi ég hafa hitann frekar lágan)
  5. Notið ausu til að hella deigi á pönnuna og þegar loftbólur hafa myndast á yfirborðinu þá snúið þið skonsunni við með mjúkum spaða. Þetta getur tekið um 2 mínútur en það tekur minni tíma að baka hina hliðina. Færið skonsuna svo yfir á disk og staflið næstu skonsum ofan á (ég næ ca. 12 skonsum úr deiginu)
  6. Berið fram með osti og sultu, hreinu hlynsírópi eða agave, eða hverju sem ykkur þykir gott og er í hollari kantinum

mánudagur, 16. desember 2013

marengstoppar (súkkulaði)

© Lísa Hjalt | Lestur & Latte
Uppskriftina að marengstoppum (með súkkulaði og súkkulaðisósu) er nú að finna á Lestur & Latte blogginu (smellið á tengilinn).

fimmtudagur, 12. desember 2013

súkkulaðikrem eða -sósa



Yngri dóttir okkar átti afmæli í gær og þar sem hún elskar marengs þá skellti ég í marengstoppa sem ég ber fram með þeyttum rjóma, ferskum berjum og heimagerðri súkkulaðisósu. Ég deildi einmitt mynd á Facebook síðunni í gær þegar ég var að baka og lofaði uppskrift, sem ég birti fljótlega. En ég áttaði mig á því þegar ég var að útbúa sósuna að ég hafði lofað að deila nýju súkkulaðikremi með ykkur, kremi sem ég er farin að nota á skúffukökuna. Ég nota sömu uppskrift þegar ég geri sósu fyrir marengstoppa en eyk þá rétt aðeins vatnið til að hafa það meira fljótandi. Sykur telst náttúrlega aldrei vera hollusta en mér líður betur að blanda saman lífrænum hrásykri við agave síróp til að gera krem heldur en að nota flórsykur. Ég hef ekki notað flórsykur síðan 2006 og hef aldrei saknað hans. Það er fljótlegt að útbúa kremið en hafið í huga að það þarf að standa í klukkutíma fyrir notkun.

SÚKKULAÐIKREM EÐA -SÓSA

HRÁEFNI

  • 3 matskeiðar gott kakó, helst lífrænt/fair-trade
  • 1½ matskeið lífrænn hrásykur
  • 2½ matskeið agave
  • 3-3½ matskeið vatn (4½-5 msk = ca. 75 ml ef súkkulaðisósa)
  • lítill bútur (20 g) lífrænt dökkt súkkulaði eða mjólkursúkkulaði
  • má sleppa: klípa sjávarsalt, fínt

AÐFERÐ

  1. Setjið allt hráefnið í lítinn pott eða pönnu
  2. Hitið við meðalhita þar til það fer að sjóða og hrærið rólega á meðan. Þegar suðan er komin upp þá fjarlægið þið pottinn/pönnuna af hellunni
  3. Hellið kreminu í skál og leyfið því að standa í klukkutíma fyrir notkun

Pin It button on image hover