miðvikudagur, 27. október 2010

grænmetis- og tómatsúpa

Ég geri reglulega núðlusúpu og nota í hana stilkana (græna hlutann) á ýmist vorlauksbúnti eða einum til tveimur blaðlaukum. Hvíta hlutann geymi ég í ísskápnum og það kemur fyrir að ég steingleymi að nota hann og þarf svo að henda honum. Mér líkar ekki að henda mat og fannst því kjörið að leyfa hugmyndafluginu að ráða og setja saman uppskrift að súpu með þessu tiltekna hráefni. Úr varð tómatsúpa sem rennur vel ofan í mitt fólk með nýbökuðum speltbollum, ólífubrauði eða sveitabrauði. Hún er ekki síðri upphituð daginn eftir og því upplagt að taka hana með í vinnuna ef þið hafið aðstöðu til þess. Tómatsúpur eru ekkert annað en klassík og þessi er kjörin í kuldanum. Súpum á eftir að fjölga á vefnum því ég hef verið að leika mér með nokkrar nú í haust og vetur.

GRÆNMETIS- OG TÓMATSÚPA

HRÁEFNI

  • 1 laukur
  • 2 blaðlaukar eða vorlauksbúnt (ekki nota græna hlutann)
  • 2 stór hvítlauksrif
  • 1½ matskeið extra virgin ólífuolía
  • 1 stór gulrót
  • 1 rauð paprika
  • 1½ lítri vatn
  • 2½ gerlaus grænmetisteningur
  • 2 dósir tómatar (helst flysjaðir tómatar)
  • ½ teskeið paprikuduft
  • ½ teskeið mulinn kóríander
  • 2 teskeiðar ítölsk kryddblanda
  • 1 teskeið sjávarsalt

AÐFERÐ

  1. Byrjið á því að skera lauk og grænmeti og léttsteikið laukinn og blaðlaukinn í olíunni í sæmilega stórum potti
  2. Bætið hvítlauk og restinni af grænmetinu út í þegar laukurinn er aðeins byrjaður að mýkjast og haldið áfram að léttsteikja
  3. Bætið því næst vatninu, grænmetisteningunum og tómötunum út í, blandið vel saman og stillið á hæsta hita
  4. Kryddið og bíðið eftir að suðan komi upp
  5. Látið súpuna malla í 30 mínútur á meðalhita
  6. Maukið súpuna rétt aðeins með töfrasprota, þó ekki svo mikið að hún verði eins og ungbarnamatur (þið getið líka sett hana í smá skömmtum í ýmist blandara eða matvinnsluvél en þá þarf að kæla hana áður)

mánudagur, 18. október 2010

bananabrauð með valhnetum


Uppskriftina að þessu bananabrauði (ég elska valhnetur!) fékk ég á Starbucks í Kanada og gerði breytingar á henni; hún er núna hollari og er bara betri fyrir vikið. Mér þótti athyglisvert að heyra að fitumagnið í henni hefði verið minnkað á Starbucks því þrátt fyrir það inniheldur uppskriftin þeirra ½ bolla af olíu. Mér finnst óþarfi að nota svo mikið magn og brauðið verður ekkert þurrt með minni olíu því valhneturnar innihalda næga fitu (það má líka nota pekanhnetur). Ég þarf svo varla að taka það fram að ég tók út hvítan sykur og minnkaði sykurmagnið verulega.

BANANABRAUÐ MEÐ VALHNETUM

HRÁEFNI

  • 260 g (2 bollar) gróft spelti (má líka blanda grófu og fínu)
  • 1 matskeið vínsteinslyftiduft
  • ¼ teskeið fínt sjávarsalt
  • 100 g (½ bolli) lífrænn hrásykur
  • 2 matskeiðar hreint hlynsíróp eða agave eða lífrænn hrásykur
  • 1 (hamingju)egg
  • 1 matskeið kókosolía, fljótandi (látið krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)
  • ½ teskeið vanilludropar eða lífrænn vanillusykur
  • 2-3 matskeiðar hrein jógúrt eða súrmjólk
  • 3 stórir bananar eða 4 litlir (í uppskriftinni segir vel þroskaðir en mér finnst í fínu lagi að nota venjulega)
  • ½ bolli saxaðar valhnetur + 1 lúka til þess að setja ofan á brauðið

AÐFERÐ

  1. Byrjið á því að blanda spelti, vínsteinslyftidufti og salti saman í skál. Setjið til hliðar
  2. Setjið egg, hrásykur og kókosolíu í aðra skál og hrærið saman með pískara eða gaffli
  3. Bætið þurrefnablöndunni út í blautu blönduna og blandið saman með sleif (ekki hafa áhyggjur af því að blandan virki þurr því bananarnir eiga eftir að blandast saman við)
  4. Stappið bananana og bætið þeim saman við ásamt vanilludropum og jógúrt. Hrærið létt með sleifinni þar til hráefnin hafa blandast saman
  5. Bætið ½ bolla af söxuðum valhnetum saman við og sem fyrr, hrærið bara létt með sleifinni
  6. Klæðið brauðform með bökunarpappír og hellið deiginu út í
  7. Dreifið ca. 1 lúku af söxuðum valhnetum yfir brauðið (upprunalega uppskriftin segir 1/3 bolli en mér finnst það óþarflega mikið)
  8. Bakið við 175°C í 50-60 mínútur. Það er ágætt að stinga gaffli eða prjón í miðjuna eftir 45 mínútur til að sjá hvort brauðið sé nokkuð of blautt (stillið á 160°C ef þið bakið á blæstri)
  9. Látið brauðið standa í forminu á kæligrind á meðan það er að kólna

sunnudagur, 10. október 2010

súkkulaðikrem (á skúffuköku)

Þessi uppskrift að kremi er ekki ný á síðunni heldur ákvað ég að hafa hana í sér færslu upp á þægindin. Þetta er einfalt súkkulaðikrem sem ég setti saman fyrir skúffuköku og ég hef fengið góð viðbrögð við því og kökunni (ég var einmitt að taka hana út úr ofninum, nammi namm). Þetta krem varð til úr blöndu sem ég notaði til að gera heitt súkkulaði og ég gerði bara smávægilegar breytingar til þess að gera úr henni krem. Ég á eftir að birta uppskriftina að þessu heimagerða heita súkkulaði, geri það síðar þegar vetur konungur er genginn í garð. Eins og kemur fram í aðferðinni þá er gott að gera kremið á meðan kakan er í ofninum og leyfa því að standa.

SÚKKULAÐIKREM

HRÁEFNI

  • 3 matskeiðar hrásykur (ekki nota of grófan)
  • 4 matskeiðar kakó
  • 2 matskeiðar kaffi
  • 1-2 matskeiðar vatn
  • ½ teskeið vanilludropar/vanillusykur úr heilsubúð
  • 2½ teskeiðar agave eða hreint hlynsíróp
  • ½ teskeið kókosolía, fljótandi
  • örlítið fínt sjávarsalt

AÐFERÐ

  1. Blandið kakó og sykri saman í litla skál með skeið
  2. Bætið vanilludropum, kaffi og vatni út í og hrærið rólega saman með skeiðinni
  3. Bætið agave og kókosolíu saman við, saltið og smakkið til (áferð kremsins á að vera silkimjúk en ekki of fljótandi)
  4. Látið kremið standa við stofuhita á meðan kakan er að kólna og dreifið því svo yfir kökuna með sleikju

Pin It button on image hover