laugardagur, 30. apríl 2011

bananamöffins með hindberjum og mangó


Þessi uppskrift varð óvart til á góðum sunnudegi. Ég var að fara í gegnum frystinn og rakst á hindber í boxi sem ég hafði gleymt og mangó sem ég hafði fryst. Ég átti banana sem ég þurfti að fara að nota og ákvað bara að nýta þetta hráefni til að gera eitthvað gott fyrir krakkana í nesti. Ég var ekki með tölvuna við hlið mér en mundi eftir uppskrift að mangó- og bananamöffins með pekanhnetum frá CafeSigrun þannig að við skulum orða það þannig að ég hafi verið undir hennar áhrifum. Krakkarnir voru alsælir og kvarta ekki þegar þeir finna þessa í nestisboxinu. Það má gera þessi með eða án kakó og svo má nota lífrænt súkkulaði til þess að gera þau nammileg með sunnudagskaffinu.

BANANAMÖFFINS MEÐ HINDBERJUM OG MANGÓ

HRÁEFNI

  • 1½ bolli spelti
  • 40 g haframjöl
  • 2 teskeiðar vínsteinslyftiduft
  • ½ teskeið fínt sjávarsalt
  • 1 teskeið kanill
  • 1 matskeið kakó (má sleppa)
  • 1 (hamingju)egg
  • ½ bolli hrásykur
  • ½ matskeið límónusafi, nýkreistur
  • 1 matskeið kókosolía
  • 3 bananar
  • 1 dl frosin hindber (ca. 50 g) + ½ teskeið hrásykur
  • ½ dl mangó (ca. 25 g)
  • 25 g möndlur, saxaðar
  • nammiútgáfa: 25 g lífrænt 70% súkkulaði

AÐFERÐ

  1. Byrjið á því að tæta frosin hindber í matvinnsluvélinni, setjið þau svo í litla skál, hrærið ½ tsk af hrásykri út í og látið þiðna á borðinu í 7 mínútur eða svo. Setjið skálina svo strax aftur í frysti og geymið þar uns þið notið berin í deigið (þið getið þess vegna gert þetta deginum áður til að undirbúa baksturinn)
  2. Blandið þurrefnunum saman í stórri skál og setjið til hliðar
  3. Í minni skál skuluð þið hræra saman eggi, hrásykri, límónusafa og kókosolíu (látið kókosolíukrukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)
  4. Stappið bananana og bætið þeim út í eggjablönduna
  5. Skerið mangóið í mjög smáa bita og setjið til hliðar
  6. Saxið súkkulaðið ef þið notið það og setjið til hliðar
  7. Saxið möndlurnar vel í matvinnsluvél þannig að hluti þeirra verður nánast að mjöli og blandið saman við þurrefnin
  8. Notið sleikju til þess að blanda eggja- og bananablöndunni rólega saman við þurrefnin og alls ekki hræra mikið. Deigið á að vera létt í sér þannig að þið þurfið bara rétt að velta deiginu með sleikjunni þar til hráefnin hafa blandast saman
  9. Takið sykruðu hindberin úr frystinum og bætið út í deigið ásamt mangóinu og súkkulaðinu ef þið notið það og blandið þessu rólega saman við
  10. Smyrjið silíkonmöffinsform með smá kókosolíu áður en deigið fer í formin (gerir 12 stykki). Þið getið ekki notað pappírsform fyrir þessa uppskrift þar sem hún inniheldur litla fitu
  11. Bakið við 180°C á blæstri í 23-27 mínútur
  12. Látið fyrst kólna í formunum og svo á kæligrind í 5-10 mínútur

sunnudagur, 10. apríl 2011

klattar

© Lisa Hjalt | Lestur & Latte
Uppskriftina að klöttunum er nú að finna á Lestur & Latte blogginu (smellið á tengilinn).

mánudagur, 4. apríl 2011

kjúklingabaunir með papriku

Þessi einfaldi réttur hefur verið í uppáhaldi hjá mér í mörg ár, einn af þessum sem mér finnst gott að borða í hádegismat. Hann er að finna í matreiðslubók sem var gefin út af Kripalu jógastöðinni í Bandaríkjunum fyrir löngu síðan en ég hef eitthvað breytt hlutföllunum: Ég hef t.d. minnkað magn kjúklingabauna (nota magn úr 1 dós) því það átti að leggja þær í bleyti og sjóða og mér fannst of mikið af þeim. Kosturinn við þennan rétt er sá að það tekur stuttan tíma að undirbúa hann og svo er hann bara í ca. 10 mínútur á pönnunni. Hann er því kjörinn á dögum þegar maður hefur lítinn tíma til að stússast í eldhúsinu en vill samt fá eitthvað hollt og gott í kroppinn. Yfirleitt ber ég hann fram með basmati hrísgrjónum en mér finnst hann líka góður með naan brauði eða chapati (indverskt flatbrauð - lofa uppskrift að því fljótlega), auk þess er hann kjörinn sem meðlæti. Það eru engin sterk krydd í þessum þannig að hann er barnvænn og ekkert ögrandi að til að bera á borð fyrir þá sem eiga það til að fussa og sveia yfir framandi eldamennsku.

KJÚKLINGABAUNIR MEÐ PAPRIKU

HRÁEFNI

  • 1 dós kjúklingabaunir
  • 1 græn paprika
  • ½ matskeið góð olía
  • 1 teskeið sinnepsfræ
  • 1 teskeið mulið túrmerik
  • 1 teskeið mulinn kóríander
  • ½ teskeið gott karrí
  • 1 matskeið tómatmauk
  • 1-1½ matskeið sítrónusafi, nýkreistur
  • 2 matskeiðar gott hunang (má líka nota agave en notið þá eilítið meira af því)
  • 1 teskeið fínt sjávarsalt

AÐFERÐ

  1. Byrjið á því að skola kjúklingabaunirnar í sigti og látið þær liggja í sigtinu þar til þið þurfið að nota þær
  2. Fræhreinsið paprikuna og skerið í bita
  3. Blandið saman öllum kryddum nema sinnepsfræjunum í litla skál. Hafið matskeiðina með tómatmaukinu tilbúna og kreista safann sem þið þurfið úr sítrónunni því hlutirnir gerast hratt á pönnunni þegar sinnepsfræin byrja að poppa
  4. Hitið olíuna á pönnunni og bætið sinnepsfræjunum út í
  5. Um leið og sinnepsfræin byrja að poppa á pönnunni þá bætið þið kryddblöndunni út í ásamt tómatmaukinu, sítrónusafanum, hunanginu, paprikunni, kjúklingabaununum og saltinu
  6. Blandið þessu saman og látið malla á miðlungshita í 7-10 mínútur

Pin It button on image hover