sunnudagur, 1. júlí 2012

fjölkornabrauð með rósmarín og timían



Ég hafði ekki notað ger í þrjú ár þegar ég setti þessa uppskrift saman. Ég hef ekkert á móti geri heldur finnst mér einfaldlega svo þægilegt að baka brauð með vínsteinslyftidufti því þá þarf ekki að láta deigið hefast, það er tilbúið strax til baksturs. Ég er voðalega hrifin af slíkum bakstri. Jæja, svo gerðist það að eiginmaðurinn greip ranga pakka í heilsuvörudeildinni og kom heim með dágóðan slatta af geri. Mér fannst eitthvað asnalegt að fara og skila þeim þannig að ég setti bara á mig svuntuna og lagðist í smá tilraunir. Ég viðurkenni að það var skrýtið að nota ger að nýju og ég þurfti að venjast lyktinni. Það er þess vegna sem ég ákvað að nota kryddjurtir í brauðið. Hvað um það, þessi uppskrift er ein af þeim sem kom út úr þessum tilraunum og aðrar verða birtar síðar. Ef keypt er þurrger í heilsubúðum þá inniheldur það engin aukaefni. Pakkarnir sem ég nota innihalda 9 grömm af geri og eru hugsaðir fyrir 500 grömm af mjöli. Það þarf ekki að blanda þessu geri saman við vatn, það blandast bara saman við þurrefnin þannig að þetta er ákaflega þægilegur bakstur. Í flestum geruppskriftum er talað um að hnoða deigið mjög vel, jafnvel í margar mínútur, en mér finnst best að hnoða það sem minnst (sennilega vegna þess að ég nota spelti). Ég geri tvo meðalstóra brauðhleifa úr deiginu.

FJÖLKORNABRAUÐ MEÐ RÓSMARÍN OG TIMÍAN

HRÁEFNI

  • 500 g spelti
  • 1 pakki þurrger (9 g) - sjá lýsingu í inngangi
  • 1 teskeið fínt sjávarsalt
  • ½ matskeið hrásykur, lífrænn
  • ½ matskeið graskersfræ
  • ½ matskeið hörfræ
  • ½ matskeið sesamfræ
  • ½ matskeið sólkjarnafræ
  • 1 teskeið timían
  • ¼ teskeið rósmarín
  • 150 ml heitt vatn
  • 125 ml sojamjólk eða önnur tegund mjólkur
  • 1 matskeið létt ólífuolía eða önnur gæða jurtaolía

AÐFERÐ

  1. Blandið öllum þurrefnum saman í stóra skál
  2. Sjóðið vatn og blandið svo vatninu, mjólkinni og olíunni í mælikönnu. Blandið rólega saman við þurrefnin á meðan þið hrærið með sleif
  3. Notið aðra höndina til þess að hnoða deigið örlítið á meðan það er í skálinni. Ef það er enn þurrt spelti á botninum þá má bæta við 1-2 matskeiðum af vatni og hnoða aðeins lengur. Passið bara að deigið verði ekki klístrað
  4. Setjið lok á skálina eða viskustykki og látið deigið hefast í 45 mínútur á hlýjum stað
  5. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu. Skiptið deiginu í tvennt, stráið örlitlu spelti á borðplötuna og hnoðið hvorn helming. Ég byrja á því að mynda eins konar kúlu og ég breyti henni rólega í lengju sem ég rúlla aðeins fram og til baka. Stærðin á hverjum brauðhleif verður ca. 10 x 22 cm
  6. Bakið við 200°C í 20-22 mínútur


Pin It button on image hover