sunnudagur, 29. desember 2013

skonsur

Uppskriftin að skonsunum varð til vegna einskærrar leti af minni hálfu. Ég er búin að vera að leika mér lengi að púsla saman uppskrift að amerískum pönnukökum og er alltaf að gera breytingar á henni. Það var einn sunnudagsmorgun sem ég ætlaði að negla niður lokaútgáfu þegar mér fannst ameríski pönnukökuandinn bara ekki vera yfir mér og auk þess nennti ég ekki að þeyta eggjahvítur. Ég horfði á krotið í glósubókinni og hugsaði með mér að ég gæti gert úr þessu skonsur með smá breytingum. Síðan þá hafa þessar oft verið í morgunmatinn á sunnudögum - ég er einmitt að gera þær núna - enda tekur litla stund að skella í þær. Það er ekki mikil olía í þeim þannig að þið aukið hana bara ef ykkur finnst þær of þurrar. Við hjónin borðum þær yfirleitt með osti og sultu en krakkarnir taka oftast fram agave- eða hlynsírópið. Mér finnst líka gott að borða þær með t.d. eggjasalati ef ég á það til.

SKONSUR

HRÁEFNI

 • 325 g spelti (2½ bollar)
 • 2 matskeiðar hrásykur, lífrænn
 • 1 matskeið agave
 • 2-2½ teskeið vínsteinslyftiduft
 • ½ teskeið sjávarsalt, fínt
 • 2 stór egg
 • 400 ml mjólk/sojamjólk
 • 2½ matskeiðar kókosolía eða önnur góð jurtaolía

AÐFERÐ

 1. Blandið þurrefnum saman í stórri bökunarskál
 2. Myndið holu í speltið, setið eggin í holuna og rétt hrærið með pískara til að brjóta rauðurnar. Hellið svo mjólkinni rólega út í og hrærið allan tímann með pískara þar til deigið er kekklaust
 3. Bætið agave og kókosolíu út í og hrærið vel saman við (ef olían er í föstu formi látið þá krukkuna standa í heitu vatni í smá stund)
 4. Berið þunnt lag af kókosolíu á pönnu og látið pönnuna hitna á miðlungshita (ég byrja á stillingu 6 af 9 og lækka fljótlega niður í 5 eða 4 þegar skonsurnar verða full dökkar. Ef pannan verður of heit þá er gott að fjarlægja hana af hellunni í eitt augnablik. Ef þið notið gas þá myndi ég hafa hitann frekar lágan)
 5. Notið ausu til að hella deigi á pönnuna og þegar loftbólur hafa myndast á yfirborðinu þá snúið þið skonsunni við með mjúkum spaða. Þetta getur tekið um 2 mínútur en það tekur minni tíma að baka hina hliðina. Færið skonsuna svo yfir á disk og staflið næstu skonsum ofan á (ég næ ca. 12 skonsum úr deiginu)
 6. Berið fram með osti og sultu, hreinu hlynsírópi eða agave, eða hverju sem ykkur þykir gott og er í hollari kantinum


mánudagur, 16. desember 2013

marengstoppar (súkkulaði)

Í nokkur ár hef ég gert tilraunir með marengs, svona af og til, og varð að lokum að játa mig sigraða og sættast við að hollari útgáfa af marengs er líklega óskhyggja (þetta verður sennilega uppskriftin á síðunni sem er með hvað mest sykurmagn). Það eru takmörk fyrir því hversu lítið magn af sykri hægt er að nota á móti eggjahvítunum án þess að enda með eitthvað sem bragðast kannski eins og marengs en áferð þess líkist einna helst pottasvömpum. Já, ég meina þessa gulu! (Ég næstum skammast mín þegar ég hugsa um sumar tilraunirnar!) Ég hef skoðað margar marengsuppskriftir í gegnum tíðina og hverri fylgja ýmis ráð. Ef ég á að gefa einhver ráð þá finnst mér best að bæta hrásykrinum í smáum skömmtum út í hræriskálina, ekki öllum í einu, og ég kýs að blanda örlitlu maísmjöli saman við sykurinn (hef prófað vínsteinslyftiduft, sítrónusafa, vínstein (cream of tartar) og alls kyns blöndur af þessu). Til ykkar sem eruð óvön marengsgerð: það má ekki fara nein eggjarauða í hræriskálina (sjá fyrir neðan aðferð*). Þrátt fyrir sykurmagnið þá eru topparnir alls ekki dísætir. Ég næ sex stykkjum úr uppskriftinni og ber þá fram með rjóma og ferskum berjum og stundum með heimagerðri súkkulaðisósu líka.

MARENGSTOPPAR (SÚKKULAÐI)

HRÁEFNI

 • 4 eggjahvítur (notið stór egg, við stofuhita)
 • 185 g lífrænn hrásykur (notið eins fínan og hægt er)
 • ½ teskeið maísmjöl
 • klípa fínt sjávarsalt 
 • ef súkkulaðimarengstoppar: ½ matskeið gott kakó, helst lífrænt/fair-trade

AÐFERÐ

 1. Aðskiljið eggin
 2. Blandið saman hrásykri og maísmjöli í sér skál, helst með haldi (stórt mæliglas er líka eðal)
 3. Setjið klípu af salti út í hræriskálina og þeytið hvíturnar þar til það fer að myndast froða. Byrjið þá að bæta hrásykrinum smátt og smátt út í (ég geri þetta á ca. 12 mínútum) þar til þið fáið nokkuð stífa áferð á marengsinn
 4. Ef þið viljið súkkulaðimarengstoppa þá er best að sigta kakóið út í og blanda rólega saman með sleikju til að fá marmaraáferð
 5. Setjið bökunarpappír á plötu og notið sleikju til að mynda 6 marengstoppa með hringsnúningi
 6. Bakið við 125-140°C í ca. 80 mínútur, slökkvið þá á ofninum, opnið ofnhurðina og látið toppana vera í ofninum í 10 mínútur til viðbótar
 7. Berið fram með þeyttum rjóma og ferskum berjum
 8. Ef þið viljið bera toppana fram með súkkulaðisósu þá er best að byrja á henni um leið og topparnir eru komnir inn í ofninn því hún þarf að standa í klukkustund áður en hún er borin fram

*Ef þið eruð óvön eða klaufsk aðskiljið þá eggin á meðan þau eru enn köld og bara eitt egg í einu: Notið sér skálar fyrir hvítur og rauður og setjið eggjahvítuna strax í hræriskálina áður en þið aðskiljið næsta egg. Ef eggin eru köld setjið þá plastfilmu/disk á hræriskálina og þeytið hvíturnar eftir ca. hálftíma.

marengstopparnir fyrir bakstur

fimmtudagur, 12. desember 2013

súkkulaðikrem eða -sósa

Yngri dóttir okkar átti afmæli í gær og þar sem hún elskar marengs þá skellti ég í marengstoppa sem ég ber fram með þeyttum rjóma, ferskum berjum og heimagerðri súkkulaðisósu. Ég deildi einmitt mynd á Facebook síðunni í gær þegar ég var að baka og lofaði uppskrift, sem ég birti fljótlega. En ég áttaði mig á því þegar ég var að útbúa sósuna að ég var búin að lofa að deila nýju súkkulaðikremi með ykkur, kremi sem ég er farin að nota á skúffukökuna. Ég nota sömu uppskrift þegar ég geri sósu fyrir marengstoppa en eyk þá rétt aðeins vatnið til að hafa það meira fljótandi. Sykur telst náttúrlega aldrei vera hollusta en mér líður betur að blanda saman lífrænum hrásykri við agave síróp til að gera krem heldur en að nota flórsykur. Ég hef ekki notað flórsykur síðan 2006 og hef aldrei saknað hans. Það er fljótlegt að útbúa kremið en hafið í huga að það þarf að standa í klukkutíma fyrir notkun.

SÚKKULAÐIKREM EDA -SÓSA

HRÁEFNI

 • 3 matskeiðar gott kakó, helst lífrænt/fair-trade
 • 1½ matskeið lífrænn hrásykur
 • 2½ matskeið agave
 • 3-3½ matskeiðar vatn (4½-5 msk = ca. 75 ml ef súkkulaðisósa)
 • lítill bútur (20 g) lífrænt dökkt súkkulaði eða mjólkursúkkulaði
 • má sleppa: klípa sjávarsalt, fínt

AÐFERÐ

 1. Setjið allt hráefnið í lítinn pott eða pönnu
 2. Hitið við meðalhita þar til það fer að sjóða og hrærið rólega á meðan. Þegar suðan er komin upp þá fjarlægið þið pottinn/pönnuna af hellunni
 3. Hellið kreminu í skál og leyfið því að standa í klukkutíma fyrir notkun

þriðjudagur, 15. október 2013

sætkartöflusúpa með ristuðum graskersfræjum

Þessi súpa gerist varla haustlegri. Ég fann hana á vefsíðu Sweet Paul (mæli með nettímaritinu þeirra sem er fallegt, inniheldur uppskriftir og fleira, og er ókeypis) og gerði bara minniháttar breytingar á henni: bætti kókosolíu sem valmöguleika, notaði gríska jógúrt í stað rjóma og bætti engifer. Ég er ekki búin að smakka hana enn þá með fersku timían en er viss um að það gefi skemmtilegan keim.

SÆTKARTÖFLUSÚPA MEÐ RISTUÐUM GRASKERSFRÆJUM

HRÁEFNI

 • 1 laukur
 • 1 hvítlauksgeiri
 • valmöguleiki: lítill bútur ferskt engifer (ca. á stærð við tening)
 • 4 stórar sætar kartöflur
 • 3 stórar gulrætur
 • 1½-2 matskeiðar ólífuolía eða kókosolía (2 í upprunalegu uppskriftinni)
 • 2 lífrænir grænmetisteningar (eða kjúklinga-)
 • 1 lítri vatn
 • 190 ml grísk jógúrt (rjómi í upprunalegu uppskriftinni)
 • ¼ teskeið mulið chilli
 • ¼ teskeið nýmalaður svartur pipar
 • skreytið með ristuðum graskersfræjum, greinum af fersku timían og grískri jógúrt (eða rjóma)

AÐFERÐ

 1. Afhýðið/flysjið og skerið laukinn, sætu kartöflurnar, gulræturnar og engiferið
 2. Léttsteikið laukinn og grænmetið í stórum potti
 3. Bætið grænmetisteningum og vatni út í og látið suðuna koma upp, minnkið þá hitann og stillið á lágan eða miðlungs hita
 4. Sjóðið í um 25 mínútur þar til grænmetið er orðið mjúkt
 5. Notið töfrasprota til að mauka súpuna (má líka nota matvinnsluvél en betra þá að láta hana kólna á undan). Bætið grísku jógúrtinni (eða rjóma) út í til að þykkja súpuna. Hrærið og látið suðuna koma upp
 6. Kryddið með chilli og svörtum pipar. Bætið salti út í ef ykkur finnst það vanta
 7. Ristið graskersfræ á pönnu
 8. Berið súpuna fram í skálum skreytta með graskersfræjum, greinum af fersku timían og grískri jógúrt (eða rjóma)


Related Posts Plugin for WordPress, Blogger...
Pin It button on image hover