sunnudagur, 20. janúar 2019

Ný uppskrift: Amerískar pönnukökur



Gleðilegt nýtt ár! Ég ætlaði að deila alla vega einni jólalegri uppskrift í desember, tók meira að segja myndina, en svo flaug tíminn og ég kláraði aldrei að setja færsluna upp. Ég bæti þetta upp með uppskrift sem ég setti inn á Lestur & Latte bloggið í dag, að amerískum pönnukökum með berjum, sem ég ber fram með hreinu hlynsírópi (þessar á myndinni eru með bláberjum en stundum geri ég þær með hindberjum). Ég breytti nafninu á blogginu vegna bókanna sem ég fjalla um, en allar uppskriftir eru enn á sama stað.

mánudagur, 26. nóvember 2018

Nýtt! Tvær súpur og brauðbollur



Það eru tvö ár síðan ég uppfærði þessa síðu. Já, þið lásuð rétt. Ótrúlegt en satt þá birti ég uppskrift á Lestur & Latte blogginu í gær, dásamlega haustsúpu sem Sigrún vinkona, CafeSigrun, er höfundur að: gulróta- og kókossúpa frá Zanzibar. Súpuna er að finna í bókinni hennar góðu og hún er ein sú vinsælasta á vefnum hennar, sem kemur mér ekki á óvart. Í janúar í fyrra - já, þið lásuð aftur rétt - birti ég í einni færslu tvær uppskriftir: brauðbollur með sesamfræjum og tómatsúpu með næpum og steinselju. Það vill svo til að allar þrjár uppskriftirnar eru vegan.

Þið sem eigið það til að ráfa inn á þessa síðu hafið tekið eftir því að margar myndir voru hættar að birtast. Það er sem gamla albúmið (fyrir tíð Lestur & Latte) hafi hreinlega gufað upp og ég kann enga skýringu á því. En í gær dúllaði ég mér við það að setja hluta af þessum myndum inn aftur. Ég hef hugsað mér að deila uppskrift að konfekti fyrir jól og kannski annarri jólalegri uppskrift ef tími gefst.


miðvikudagur, 23. nóvember 2016

Nýtt! Pizzasnúðar, baunaréttur og „hrá“ kaka



Ég fæ seint afreksverðlaun fyrir að deila uppskriftum það sem af er þessu ári, en síðan ég uppfærði þessa síðu síðast hef ég bætt þremur uppskriftum á Lestur & Latte. Í gær voru það pizzasnúðar (gerlausir), í október baunapottréttur með karrí og kókosmjólk, sem er ein af mínum uppáhalds haust- og vetaruppskriftum, og í sumar dásamleg óbökuð kaka úr smiðju Ani Phyo sem krakkarnir mínir elska, mjúk valhnetusúkkulaðikaka með hindberjum.



Næsti sunnudagur er hinn fyrsti í aðventu og það sem ég hlakka til. Við erum alltaf með aðventubrönsj alla sunnudaga fram að jólum og fyrir þann fyrsta er heimilið hóflega skreytt: smá jólaskraut, hýasintur og fullt af kertum (jólatréð fer upp fyrstu eða aðra helgina í desember). Núna á sunnudaginn ber ég fram, meðal annars, sænskt fléttubrauð með kardamomu, en það er uppskrift sem ég setti saman í fyrra við miklar vinsældir. Hér eru jólalegar uppskriftir sem ég hef deilt á Lestur & Latte:

indverskt te (chai latte)
kryddbrauð
marengstoppar (og súkkulaðisósa)
möndlugrautur (risalamande)
quinoa-búðingur með grískri jógúrt, berjum og ávöxtum
rabarbaramulningur með berjum
sænskt fléttubrauð með kardamomu

Og hér þær jólalegu sem eru enn hér á gamla blogginu:

rósakál m/kastaníuhnetum, beikoni og steinselju
súkkulaðibitakökur með möndlum og haframjöli
sætkartöflumús með pekanhnetum

Slökkvið nú á þessum blessuðu farsímum og njótið aðventunnar með bókum, spilum og kósíheitum!

Pin It button on image hover