mánudagur, 28. maí 2012

hveitikökur ömmu lóu


Þær voru ófáar stundirnar sem ég eyddi sem stelpa í eldhúsi ömmu minnar Lóu í Vogahverfinu í Reykjavík, nánar tiltekið í Karfavoginum. Kökusortirnar sem finna mátti í hennar skápum voru allt að því endalausar enda var amma vöknuð fyrir allar aldir og byrjuð að baka. Í fersku minni er hveitikökugerðin. Amma hnoðaði deigið létt á borðplötunni, flatti það svo út og skar með litlum skera sem ég man enn hvernig leit út (engir pizzuskerar til í þá daga enda hefði amma örugglega fussað við slíkum tólum). Kökunum var svo skellt á pönnuna og á stuttum tíma var amma búin að galdra fram dásemd sem borðuð var með smjöri. Það var aldrei hægt að borða of mikið af hveitikökum! Það er svo einfalt að skella í hveitikökur og þær eru enga stund að verða til á pönnunni - ég nota að vísu fínt spelti í mínar. Á þessu heimili finnst okkur best að nota bara ¼ teskeið af salti í deigið því við borðum þær ekki með smjöri heldur penslum kökurnar með smá ólífuolíu og stráum örlitlu sjávarsalti yfir. Ef þið viljið baka þær með meira salti þá er það í góðu lagi en ekki nota mikið meira; ég prófaði þær einu sinni með ½ teskeið og okkur fannst þær of saltar.

HVEITIKÖKUR ÖMMU LÓU

HRÁEFNI

 • 1 bolli fínt spelti (250 ml)
 • ½ teskeið matarsódi eða vínsteinslyftiduft
 • ¼ teskeið fínt sjávarsalt
 • 50-60 ml léttmjólk/sojamjólk

AÐFERÐ

 1. Blandið spelti, matarsóda og salti saman í skál
 2. Bætið 50 ml af mjólk út í á meðan þið hrærið létt með sleif. Hnoðið svo deigið eilítið með höndunum á meðan það er enn í skálinni til þess að finna hvort það þurfi kannski smá mjólk til viðbótar
 3. Stráið spelti á borðplötuna og létthnoðið deigið, skiptið því svo til helminga og fletjið út með kökukefli (ég er ekki upptekin af einhverri formfræðilegri fegurð, ýmist flet ég út tvo meðalstóra hringi eða eitthvað sem líkist ferningi)
 4. Notið pizzaskera til þess að skera hvorn hring/ferning í fernt og stingið hverja köku með gaffli ca. þrisvar sinnum alveg í gegn. (Deigið gefur ykkur sem sagt átta kökur og ég mæli með að útbúa bara annan skammt ef þið ætlið að gera fleiri því það er best að ráða við deigið þegar það er ekki of mikið um sig)
 5. Hellið örlítilli olíu (ég nota ólífuolíu) á pönnu og dreifið úr með eldhúsbréfi. Stillið á næsthæsta hita og leyfið pönnunni að hitna áður en þið raðið eins mörgum kökum og þið komið á pönnuna
 6. Snúið kökunum við með spaða þegar þær hafa aðeins brúnast og leyfið hinni hliðinni að bakast
 7. Berið fram með ólífuolíu og sjávarsalti eða smjöri


þriðjudagur, 22. maí 2012

heimagerður vanillusykur


Síðustu mánuði hef ég verið ódugleg að pósta á síðuna og það er kominn tími til að bæta úr því. Höfum þetta bara einfalt í dag og byrjum næstu lotu á heimagerðum vanillusykri. Það er ótrúlega einfalt að búa hann til. Ég keypti mér glerkrukku með áföstu loki alveg sérstaklega fyrir vanillusykurinn því þá sé ég alltaf hversu mikið ég á eftir.

Vegna fyrirspurnar sem ég fékk þá er ég búin að uppfæra „uppskriftina“ og bæta eitlítið við aðferðarlýsinguna. Ég las einhvers staðar að þumalputtareglan væri að nota 2 bolla af sykri (= 500 ml) á móti einni vanillustöng og þá ætti að taka um tvær vikur að fá góðan vanillusykur. Ég nota 1 bolla (= 250 ml). Ef þið eigið góða matvinnsluvél þá er ekki verra að vinna vel sykurinn og kjarnann úr vanillunni áður en það fer í krukku (eftir að þið hafið losað kjarnann þá má stöngin líka fara í matvinnsluvélina en passið bara að þið séuð með það góða vél að hún vinni þetta vel). Þið getið notað sigti til þess að koma í veg fyrir vanillukekki eins og þið sjáið í krukkunni minni og til að fjarlægja parta af stönginni sem þið viljið ekki hafa í krukkunni.

HEIMAGERÐUR VANILLUSYKUR

HRÁEFNI

 • 1-2 bollar (250-500 ml) lífrænn hrásykur, ekki of grófur
 • 1 vanillustöng

AÐFERÐ

 1. Byrjið á því að kljúfa vanillustöngina í tvennt: skerið í gegnum hana miðja með beittum hníf, og skafið kjarnann úr henni með hnífsoddinum
 2. (Ef þið eigið góða matvinnsluvél kíkið þá á aðferðina í innganginum)
 3. Setjið hrásykur í glerkrukku (með loki) ásamt kjarnanum og vanillustönginni sjálfri. Það þarf ekki að setja kjarnann í krukkuna heldur er nóg að setja bara vanillustöngina sem búið er að skera í tvennt og skafa úr. En ég nota kjarnann, mér finnst það skemmtilegra og það gefur enn meira vanillubragð
 4. Geymið í lokaðri glerkrukku og skiptið reglulega um vanillustöng/kjarna

Pin It button on image hover