miðvikudagur, 15. maí 2013

hrísgrjón með indverskum kryddum og rúsínum

Þessi grjón eru svipuð þeim sem ég birti um daginn en í þessa uppskrift eru ekki notaðir negulnaglar og piparkorn. Að vísu er þetta tvennt að finna í garam masala kryddblöndunni en hún inniheldur mörg önnur krydd og er hér í litlu magni. Það má alveg sleppa rúsínunum en mér finnst náttúruleg sæta þeirra vera skemmtilegt mótvægi við bragð indversku kryddanna. Ég segi það enn og aftur að þið getið breytt kryddhlutföllum alveg eins og þið viljið og skipt út kryddum ef bragðið er ykkur ekki að skapi, og ef þið viljið meira saltbragð af grjónunum þá er fínt nota smá Maldon salt þegar þau eru komin á diskinn.

HRÍSGRJÓN MEÐ INDVERSKUM KRYDDUM OG RÚSÍNUM

HRÁEFNI

 • 1½ bolli (300 g) basmati hrísgrjón
 • 3 bollar (750 ml) soðið vatn
 • 1 lífrænn grænmetisteningur
 • 2 teskeiðar gæða jurtaolía (eða ghee)
 • ½ teskeið broddkúmenfræ (cumin seeds)
 • ¼ teskeið sinnepsfræ
 • ögn af chilli flögum
 • ½ teskeið mulið túrmerik
 • ¼ teskeið garam masala
 • ¼ teskeið mulinn kóríander
 • handfylli af rúsínum

AÐFERÐ

 1. Skolið grjónin í sigti og geymið þau í sigtinu þar til þið þurfið að nota þau
 2. Hellið soðna vatninu (ég sýð það í hraðsuðukatli til að flýta fyrir) í stóra könnu og látið grænmetisteninginn leysast upp í því
 3. Hitið olíuna í potti á meðalhita (potturinn þarf að vera nógu stór til að sjóða grjónin) og bætið svo broddkúmen- og sinnepsfræjum út í ásamt chilli flögum. Leyfið þessu að liggja í olíunni þar til fræin fara að poppa. Þar sem lítil olía er notuð þá er óþarfi að hræra í fræjunum í pottinum, sjáið bara til þess að þau liggi í olíunni
 4. Um leið og fræin byrja að poppa þá bætið þið soðinu út í ásamt grjónum, túrmerik, garam masala og kóríander og hrærið rólega saman
 5. Notið hæsta hita þar til vatnið fer að sjóða (tekur stutta stund) og stillið þá hitann á lægsta og sjóðið grjónin í 12-15 mínútur. Notið lok á pottinn en skiljið eftir smá rifu til þess að hleypa gufunni út
 6. Þegar um þrjár mínútur eða svo eru eftir af suðutíma grjónanna dreifið þá handfylli af rúsínum yfir þau en ekki hræra neitt, þið hrærið bara rúsínunum saman við áður en þið berið grjónin fram


Pin It button on image hover