laugardagur, 24. júlí 2010

súkkulaðihnetusmjör (eða íssósa)

Ég kaupi stundum lífrænt súkkulaðihnetusmjör fyrir börnin því þeim finnst það gott ofan á brauð og hrískökur (ég kaupi aldrei Nutella eða svipaðar tegundir). Einhvern tíma þegar börnin sátu við borðið að smjatta á þessu þá fékk ég hugmyndina að prufa einn daginn að gera mitt eigið, bara til að sjá útkomuna. Þessi grófa útgáfa er í raun alfarið hugmynd barnanna. Ég valdi hráefnin og þau stóðu hérna og smökkuðu og sögðu mér nákvæmlega hvort þau vildu meiri sykur eða kakó o.s.frv. Uppskriftin ætti því að vera algjörlega skotheld fyrir krakkabragðlauka. Við skulum bara segja að þetta súkkulaðihnetusmjör sé gott fyrir krakka á öllum aldri því mmmmm hljóðin í mér og bóndanum voru ekkert minni (mér persónulega finnst þó betra að skipta út einni msk af hrásykri fyrir msk af agave, bara upp á áferðina). Ég geymi smjörið í ísskáp en vegna kókosolíunnar þá harnar það og því er gott að láta það aðeins standa áður en það er borið fram. Við notum þetta líka sem íssósu og ég verð að segja að það er algjört lostæti á ís (það þarf ekki að láta það standa áður en það er notað út á ís).

SÚKKULAÐIHNETUSMJÖR

HRÁEFNI

 • 100 g heslihnetur
 • 2 matskeiðar hrásykur (eða 1 msk og þá 3 msk agave)
 • 2 matskeiðar agave síróp
 • 1 teskeið vanillusykur, lífrænn
 • 2½ matskeiðar kakó, helst lífrænt/fair-trade
 • 3½-4 matskeiðar kókosolía (ef í föstu formi er gott að láta krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)

AÐFERÐ

 1. Byrjið á því að þurrrista heslihneturnar á pönnu. Það gæti tekið góðar 10 mínútur að fá hýðið til að losna. Kælið svo hneturnar og nuddið hýðið af með fingrunum, svona eins og hægt er
 2. Fínmalið hneturnar í matvinnsluvél eins vel og þið getið. Það getur verið ágætt að stöðva vélina á einhverjum punkti og rétt aðeins hræra í hnetunum með sleikju, haldið svo áfram að láta vélina ganga
 3. Bætið öllu öðru hráefni út í (byrjið með 3½ msk af kókosolíu) og látið vélina vinna vel. Ef þið notið útgáfu með minna af hrásykri og meira agave þá skulið þið byrja með 3 msk af kókosolíunni

PS. Ég er enn að tilraunast með útgáfu með silkimjúkri áferð (líklega þarf ég aðra matvinnsluvél því mín vinnur ekki nógu vel á hnetunum) og lofa að deila henni með ykkur þegar ég er orðin sátt.

föstudagur, 9. júlí 2010

hummus

Fyrir mér er hummus eitt það mesta lostæti sem til er. Ég veit ekki hvað þetta er en þegar ég smakka hummus, leiðrétting, þegar ég er að blanda innihaldinu saman í matvinnsluvélinni þá finnst mér ég vera komin til Miðaustur- landa; sé fyrir mér eyðimörk, kameldýr, dökk augu og sandala, já og fallega tekrús. Hvort sem hummusinn á rætur sínar að rekja til 12. aldarinnar og Saladin soldáns eða hvort hann er upprunalega frá 18. öld skiptir mig ekki nokkru máli, hummusgerð fylgir hreint og beint dásamleg stemning og það er svo einfalt að búa hann til. Hummus á nýbökuðu brauði, chapati (indversk flatbrauð) eða hrís/quinoa-kökum með grænmeti er fín máltíð út af fyrir sig og svo er hann líka góður sem meðlæti. CafeSigrun á heiðurinn af þessari uppskrift og þetta eru hlutföllin sem mér finnst best. Sigrún segir að hummusinn verði betri ef hýðið er fjarlægt af kjúklingabaununum og því hef ég ávallt fylgt þessu ráði hennar.

HUMMUS

HRÁEFNI

 • 1 dós niðursoðnar kjúklingabaunir
 • 2½ matskeið tahini (sesammauk)
 • 1½ matskeið sítrónusafi
 • ¼ teskeið cumin, malað
 • cayennepipar á hnífsoddi eða aðeins meira af paprikudufti
 • 2 hvítlauksrif, pressuð
 • 2 matskeiðar undanrenna
 • 1 teskeið tamarisósa
 • 1-1½ matskeið extra virgin ólífuolía

AÐFERÐ

 1. Setjið baunirnar í skál með köldu vatni og látið standa í smá stund. Nuddið þær varlega með fingrunum til að losa og fjarlægja hýðið (börnunum mínum finnst mjög gaman að gera þetta fyrir mig) og hellið svo vatninu af
 2. Setjið allt innihald í matvinnsluvélina en byrjið með einungis 1 msk af ólífuolíunni. Þið finnið það á meðan vélin vinnur hvort það þurfi meira af olíu og þá bætið þið ½ msk til viðbótar
 3. Smakkið til með fínu sjávarsalti
 4. Það má bera hummusinn fram með smá klípu af cayennepipar og fínsaxaðri steinselju og það má líka skvetta smá ólífuolíu yfir hann


miðvikudagur, 7. júlí 2010

pekansmákökur

Ein af mínum uppáhaldsbókum er Ani's Raw Food Desserts en hana skrifar Ani Phyo sem er þekkt fyrir hráfæði. Persónulega þá leiðist mér þetta orð hráfæði, mér finnst það einstaklega fráhrindandi eins og margt sem flokkast undir hráfæði getur nú verið gott. Bókin hennar Ani geymir 85 uppskriftir og þær sem ég hef prufað nú þegar eru virkilega ljúffengar. Í miklu uppáhaldi hér á bæ er t.d. bláberjaeftirréttur með möndlum og döðlum sem er að finna hér á síðunni. Þessar pecansmákökur eru á bls. 121 í bókinni og úr hráefninu eiga að nást 10 kökur. Ég geri þær líklega minni en Ani sjálf því ég geri alltaf fleiri og ég nota eilítið aðra aðferð. Ani notar nefnilega Medjool döðlur sem þarf ekki að leggja í bleyti.

PEKANSMÁSKÖKUR

1 bolli pekanhnetur (250 ml)
1 teskeið kanill
1 teskeið appelsínusafi (ég nota 1 matskeið)
1 bolli döðlur


Leggið döðlurnar í bleyti í 30 mínútur.

Setjið pekanhnetur, kanil og appelsínusafa (ég kreisti safa úr appelsínu) í matvinnsluvél, veljið púlshnappinn og látið vélina vinna uns þið fáið litla klumpa. Hellið vatninu af döðlunum, bætið þeim út í og vinnið vel.

Ani bendir fólki á að taka 1½ msk af blöndunni, leggja á plötu með bökunarpappír og fletja út kökur. Ég hef þetta bara einfalt, tek smá slurk í lófann og rúlla aðeins eins og ég ætli að gera kúlu og móta svo bara kökur með fingrunum og skelli beint í ílát með loki.

Þessar geymast í viku í kæliskápnum og í nokkrar vikur í frysti.


ÚTFÆRSLUR

Ég geri stundum útfærslu af þessum kökum. Uppskriftin hennar Ani er virkilega góð og útfærsluna geri ég bara þegar ég er í stuði og vil jafnvel fá enn meira af kökum út úr hráefninu. Ég byrja á því að setja 40 g af möndlum með hýði í matvinnsluvélina og vinn þær mjög vel. Svo bæti ég öllu hráefni uppskriftarinnar út í skálina ásamt þessu: 1 tsk agavesíróp, ½ msk appelsínusafi og klípa af fínu sjávarsalti. Þetta vinn ég vel í vélinni og næ að gera 23-25 kökur.

Pin It button on image hover