fimmtudagur, 24. nóvember 2011

rósakál m/kastaníuhnetum, beikoni og steinselju


Beikon á síðu sem býður upp á holla rétti?!! Ég hreinlega varð að deila þessari uppskrift með ykkur og ég held að þetta verði í eina skiptið sem þið finnið beikon hér. Beikon er svo sannarlega ekki heilsufæða en eigum við ekki bara að segja að rósakálið og hneturnar bæti það upp í þessu meðlæti? Fyrir nokkrum árum var ég að undirbúa jólin og það var kveikt á sjónvarpinu. Allt í einu heyri ég rödd Nigellu og þá var hún að undirbúa kalkúnamáltíð í einhverjum jólaþætti. Ég var á höttunum eftir góðu meðlæti því við erum alltaf með kalkún á jólunum, ýmist á aðfangadagskvöld eða jóladag. Hún heillaði mig alveg upp úr skónum með þessari uppskrift, en ég bjóst alveg við því að börnin fúlsuðu við rósakálinu. Til að gera langa sögu stutta þá elskuðu þau það frá fyrsta bita og þetta er því fastur liður á okkar veisluborði. Ég nota gjarnan hakkaðar cashewhnetur í staðinn fyrir kastaníuhnetur og ef ég er með mikið af öðru meðlæti þá nota ég stundum bara ca. 800 g af rósakálinu. Ég sleppi smjörinu sem er í upprunalegu uppskriftinni og yfirleitt sleppi ég líka víninu. Hér er sem sagt mín útgáfa af uppskrift Nigellu og fyrir neðan eru nokkrir punktar um breytingarnar sem ég hef gert.

RÓSAKÁL MEÐ KASTANÍUHNETUM, BEIKONI OG STEINSELJU

HRÁEFNI

 • 1 kg rósakál
 • 1-2 matskeiðar kókosolía
 • 200 g lúxus beikon, lífrænt/free-range ef mögulegt
 • 100-150 g kastaníuhnetur í loftþéttum umbúðum* eða cashewhnetur
 • 60 ml (4 matskeiðar) Marsala vín (má sleppa)
 • 1 stór handfylli fersk steinselja, söxuð og svo skipt til helminga
 • nýmalaður svartur pipar
 • örlítið sjávarsalt (má sleppa)

*Athugið að kastaníuhnetur í loftþéttum umbúðum eru tilbúnar til notkunar. Ef þið fáið ekki slíkar þá verður að rista hneturnar í ofni til að ná hýðinu af: Skerið fyrst í hýðið með beittum hníf og ristið í ofnskúffu ásamt smá vatni í 8 mínútur eða svo á 240°C. Fjarlægið hýðið á meðan það er enn heitt. Þegar búið er að ná hnetunum úr hýðinu má geyma þær í lokuðu íláti í 3-4 daga í ísskáp (leiðbeiningar úr Larousse alfræðibókinni um mat). Þið getið því undirbúið þetta nokkrum dögum áður. Svo má líka bara nota cashewhnetur en kastaníuhneturnar fara virkilega vel með rósakálinu.

Í uppskrift Nigellu á að nota 250 g af ítölsku beikoni (pancetta) og er það skorið í teninga sem eru ca. 1.25 cm. Mér finnst nóg að nota 200 g af lúxus beikoni. Í hennar uppskrift er auk þess að finna 225 g af kastaníuhnetum en mér finnst 100-150 g nóg. Stundum nota ég þó meira, það veltur svolítið á því hvaða meðlæti ég er að bera fram hverju sinni. Það er ekkert sjávarsalt í uppskrift Nigellu, nema það sem hún setur í pottinn til að sjóða rósakálið, en mér finnst oft ágætt að strá örlitlu yfir réttinn áður en ég ber hann fram.

AÐFERÐ

 1. Skerið endana af rósakálinu og skerið kross í botninn um leið. Setjið rósakálið í stóran pott af sjóðandi vatni með salti og sjóðið það í 5 mínútur, eða þar til kálið er mjúkt en samt örlítið stökkt
 2. Á meðan rósakálið sýður í pottinum skuluð þið skera beikonsneiðarnar í bita, ekki of litla þó. Ef þið notið cashewhnetur í staðinn fyrir kastaníuhnetur þá er um að gera að spara tíma og hakka þær rétt aðeins í matvinnsluvélinni. Þið getið líka notað hníf til þess
 3. Fjarlægið pottinn af hellunni, hellið vatninu af og látið rósakálið standa í sigti þar til þið notið það (mér finnst best að skera rósakálið í tvennt áður en það fer á pönnuna; ef þið hafið tíma þá mæli ég með að skera það þegar það hefur kólnað)
 4. Hitið 1 matskeið af kókosolíu í öðrum stórum potti eða á stórri pönnu, bætið beikoninu út í og steikið það þar til það verður örlítið stökkt og gullinbrúnt. Passið af ofsteikja ekki því þá verður það þurrt
 5. Bætið meira af kókoslíu út í ef þið þurfið og því næst kastaníuhnetum úr loftþéttum umbúðum (eða hökkuðum cashewhnetum). Notið trésleif eða sleikju til þess að þrýsta á kastaníuhneturnar og brjóta þær. Þegar þær hafa hitnað í gegn þá aukið þið hitann og hellið Marsala víninu út í, ef þið notið það, og sjóðið þar til blandan hefur þykknað
 6. Bætið soðna rósakálinu út í pottinn og helmingnum af söxuðu steinseljunni (yfirleitt læt ég alla steinseljuna út í eða þá tvo-þriðju hluta hennar)
 7. Kryddið með nýmöluðum svörtum pipar og áður en þið berið meðlætið fram má dreifa örlitlu sjávarsalti yfir og svo restinni af söxuðu steinseljunni ef þið hafið ekki þegar notað hana alla

föstudagur, 4. nóvember 2011

franskur kjúklingapottréttur með rósmarín


Þessi uppskrift kemur frá líkamsræktarstöð í Reykjavík og kallast haustpottréttur. Ég fékk hana senda fyrir tveimur árum, eldaði hana fyrir heimilisfólk og einn gest og verð að viðurkenna að það voru nú engir flugeldar við borðið. Okkur fannst of mikið af kjúklingi og grjónum og rósmarínbragðið var aðeins of yfirgnæfandi. Það var samt eitthvað heillandi við innihaldið og lyktin í eldhúsinu var dásamleg þegar ég var að elda þannig að ég vildi ekki alveg afskrifa uppskriftina. Ári síðar fór hún að kalla á mig og ég ákvað að breyta henni eilítið og bætti svo í hana lífrænu dijon sinnepi. Yngsta dóttirin borðaði fjórar skálar! Með því að nota dijon sinnep fannst mér pottrétturinn fá franskt yfirbragð þannig að ég breytti nafninu; það er líka einhver stemning yfir því að borða franskan pottrétt (annars ekkert að marka mig, ég er óð í allt franskt). Ég ber pottréttinn fram í skálum ásamt brauði, helst heimabökuðu, og það er nú ekki leiðinlegt að fá sér eitt glas af góðu rauðvíni með. Ég er í þeirri aðstöðu að geta keypt velferðarkjúklingabringur (free-range) þannig að ég nota þær og ég flysja ekki kartöflurnar því ég nota eingöngu lífrænt grænmeti í pottréttinn. Ef þið eruð að elda fyrir einungis tvo þá mæli ég með því að helminga uppskriftina svo það verði ekki of mikill afgangur. Það er alveg nóg að nota þá bara eina tómatdós og sleppa 400 ml af vatni og skorna tómatinum.

FRANSKUR KJÚKLINGAPOTTRÉTTUR MEÐ RÓSMARÍN

HRÁEFNI

 • 2 bein- og skinnlausar (velferðar)kjúklingabringur
 • 2 bollar vatn (500 ml)
 • kjúklingateningur, lífrænn
 • 1 laukur, afhýddur og fínsaxaður
 • 1 dós (450 g) tómatar í bitum („diced“)
 • 400 ml vatn
 • 1 matskeið dijon sinnep , lífrænt
 • 3 kartöflur, skornar í fernt
 • 3 stórar gulrætur, sneiddar
 • 1 rauð paprika, skorin í bita
 • 1 tómatur, skorinn í bita
 • 4 hvítlauksrif, afhýdd og skorin í þunnar sneiðar
 • ½ teskeið rósmarín, helst ferskt, saxað smátt, en má alveg nota krydd
 • 1 teskeið ítölsk kryddblanda (ég hef oft notað ½ teskeið oregano, ¼ teskeið timían, ¼ teskeið basilíku og örlítið af muldum kóríander)
 • má sleppa: 1 lárviðarlauf
 • ¼-½ teskeið nýmalaður svartur pipar
 • 1 teskeið sjávarsalt
 • 2½ bollar soðin Basmati hrísgrjón (600 ml)

AÐFERÐ

 1. Byrjið á því að skola og sjóða Basmati grjónin: Til þess að eiga nóg í réttinn (og smá afgang) sýð ég 1½ bolla (375 ml = ca. 300 g) af grjónum í 3 bollum af vatni (750 ml). Það tekur ekki nema um 10 mínútur að sjóða Basmati (athugið hvort á umbúðum grjónanna sé gefið upp annað magn af vökva; ég nota stundum villt Basmati grjón og þá nota ég 700 ml af vatni og sýð í ca. 20 mín.). (Fyrir ykkur sem eruð óörugg í eldhúsinu þá er ágætt að sjóða grjónin áður en þið byrjið á pottréttinum. Byrjið á því að láta vatnið með grjónunum sjóða án þess að setja lok á pottinn. Þegar suðan kemur upp stillið þá á lægsta hita og tillið loki á pottinn án þess að loka alveg þannig að gufan komist í gegn. Þegar grjónin eru tilbúin leyfið þeim að sitja í pottinum með lokinu á þar til þið notið þau í pottréttinn.)
 2. Og þá að sjálfum pottréttinum: Sjóðið kjúklingabringurnar í 2 bollum af vatni (500 ml) ásamt kjúklingateningum í stórum potti. Þegar vatnið byrjar að sjóða bætið þið fínsaxaða lauknum út í. Sjóðið kjúklingabringurnar í gegn (tekur nokkrar mínútur) og snúið þeim einu sinni á meðan
 3. Þegar bringurnar eru soðnar í gegn notið þá gaffal eða töng til þess að veiða þær upp úr pottinum, setjið á disk og til hliðar
 4. Bætið tómötum úr dós út í pottinn ásamt 400 ml af vatni (látið vatn bara renna í tómu dósina því hún tekur 400 ml)
 5. Bætið dijon sinnepi út í og létt hrærið
 6. Bætið öllu skorna grænmetinu út í ásamt kryddjurtum, salti og pipar (ef ítalska kryddblandan ykkar inniheldur ekki lárviðarlauf þá mæli ég með að elda réttinn með einu slíku og veiða það svo bara upp úr áður en hann er borinn fram)
 7. Skerið kjúklingabringurnar í hæfilega bita eða rífið þær bara í höndunum og bætið út í pottinn. Hrærið eilítið og látið sjóða í 25 mínútur á meðalhita eða lágum
 8. Bætið svo 2½ bollum (um 600 ml) af soðnum Basmati grjónum út í pottinn, hrærið og látið sjóða áfram í 8-10 mínútur
 9. Ég ber pottréttinn fram í skálum og leyfi honum eilítið að kólna því grænmetið er ansi heitt beint upp úr pottinum. Ég mæli með grófu heimabökuðu brauði með og hjartastyrkjandi rauðvínsglasi

þriðjudagur, 18. október 2011

kanilsnúðar (gerlausir)


Ég hef nákvæmlega ekkert á móti geri en mér hreinlega leiðist gerbakstur. Ég nenni ekki að bíða eftir því að deig hefi sig og því finnst mér best að nota vínsteinslyftiduft. Fyrir um tveimur árum síðan gerði ég tilraun með uppskrift að gerlausum kanilsnúðum sem heppnaðist þannig séð vel. Allt heimilisfólk var alla vega ánægt en ég var ekki alveg sátt, ég vildi hafa þá aðeins mýkri, svona bollulegri. Á fallegum sunnudegi í september sat ég í stofunni að lesa og lét mig dreyma um mjúka kanilsnúða að bíta í. Allt í einu fékk ég hugmynd og fór beinustu leið inn í eldhús, setti upp svuntuna og það sem ég kýs að kalla ósýnilega aðgangur-bannaður skiltið á eldhúshurðina. Tilraunin heppnaðist eins og í sögu og við tók dásamlegt sunnudagsmorgunkaffi með miklum nammi namm hljóðum. Mér finnst betra að mynda ferning úr deiginu heldur en ílangan ferhyrning því ég vil hafa kanilsnúðana svolítið þykka. Uppskriftin er án eggja og það er enginn sykur í deiginu sjálfu og þrátt fyrir það eru snúðarnir dásamlegir á bragðið.

KANILSNÚÐAR

HRÁEFNI


DEIG

 • 435 g spelti
 • 2-2½ matskeiðar vínsteinslyftiduft
 • ¾ teskeið sjávarsalt
 • 250-300 ml sojamjólk eða önnur mjólk
 • 1-2 matskeiðar kókosolía

FYLLING

 • 1 matskeið agave síróp eða hreint hlynsíróp
 • ½ matskeið kókosolía
 • 3½ matskeið hrásykur, lífrænn
 • 1 teskeið kanill
 • útfærsla: ögn af hökkuðum pekanhnetum og/eða rúsínur

AÐFERÐ

 1. Byrjið á deiginu: Blandið saman spelti, vínsteinslyftidufti og salti í stórri skál. Yfirleitt nota ég 2 matskeiðar af vínsteinslyftiduftinu en stundum bæti ég við hálfri matskeið til að gera snúðana aðeins stærri. (Ef þið notið venjulegt lyftiduft þá þurfið þið bara eina matskeið og ½-1 teskeið til viðbótar ef þið viljið gera þá bara örlítið stærri)
 2. Bætið 1-2 matskeiðum af kókosolíu út í. (Ef kókosolían er í föstu formi látið þá krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)
 3. Byrjið á því að bæta 250-275 ml af mjólkinni út í og hrærið rólega með sleif. Bætið við meiri mjólk ef þið þurfið. Deigið á ekki að vera of blautt þar sem þið eigið eftir að hnoða það í höndunum og fletja út með kökukefli. Það er ágætt að hnoða það aðeins með höndunum í skálinni til þess að finna áferðina á því; það á ekki að loða við fingurna
 4. Stráið vel af spelti á borðplötuna og hnoðið deigið í höndunum. Ef deigið vill festast við yfirborðið stráið þið meira af spelti á flötinn
 5. Takið því næst kökukefli og fletjið deigið út. Leitist við að mynda ferning sem er ca. 37 cm. Ég kýs að mynda ferning heldur en ílangan ferhyrning því mér finnst betra að hafa kanilsnúðana svolítið þykka
 6. Þá að fyllingunni: Blandið saman sírópinu og kókosolíunni í lítilli skál. Útbúið kanilsykurinn í annarri skál.
 7. Dreifið síróps- og olíublöndunni jafnt yfir útflatta deigið (mér finnst best að nota bara fingurna). Stráið svo kanilsykrinum yfir og bætið við smá af pekanhnetum og/eða rúsínum ef þið notið þá útfærslu
 8. Rúllið upp deiginu nokkuð þétt. Notið svo beittan hníf til þess að skera lengjuna í 21 sneið (það er ágætt að byrja á því að skera lengjuna í tvennt). Þykkt hverrar sneiðar á að vera aðeins minni en 2 cm
 9. Klæðið 35 x 25 cm form með bökunarpappír eða smyrjið létt með kókosolíu (hæð formsins sem ég nota er ca. 5 cm). Myndið fjórar raðir með fjórum snúðum. Myndið svo eina röð með fimm snúðum og hafið báða endana í henni
 10. Bakið við 220°C í 12-15 mínútur
 11. Leyfið kanilsnúðunum að kólna í forminu í nokkrar mínútur áður en þið berið þá fram


mánudagur, 29. ágúst 2011

tómatpastasósa með hvítlauk og ferskri basilíku


Þetta er nú alveg á mörkum þess að kallast uppskrift því einfaldara gerist það varla. Fólki kann að finnast það skrýtið en við kaupum svo til aldrei 'take-out' mat. Við gerðum meira af því hér áður fyrr en á síðastliðnum tveimur árum hefur það kannski gerst tvisvar. Ef við höfum lítinn tíma í eldhúsinu þá er aðalatriðið að skella í eitthvað sem er einfalt og tekur lítinn tíma, eins og t.d. þessa fersku tómatpastasósu á meðan pastað sýður í pottinum. Heimagert er bara svo miklu betra – það finnst mér alla vega.

TÓMATPASTASÓSA MEÐ HVÍTLAUK OG FERSKRI BASILÍKU

HRÁEFNI

 • 325-350 g kirsuberjatómatar
 • ½ matskeið ólífuolía
 • 1-2 hvítlauksrif, pressuð
 • 1 teskeið agave eða hrásykur
 • ½-1 matskeið söxuð fersk basilíka
 • sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk

AÐFERÐ

 1. Skerið tómatana í fernt og steikið upp úr ólífuolíunni á lágum hita
 2. Bætið restinni af hráefninu út í og látið malla við lágan hita á meðan þið sjóðið pastað
 3. Saltið og piprið eftir smekk og berið fram með brauði eða einföldu gulrótasalati

PS. Þið getið notað basilíkukrydd í staðinn fyrir ferska basilíku. Það er svona þumalputtaregla að nota eina teskeið af kryddi á móti matskeið af ferskri jurt; ég hef ekki notað það sjálf í þessa þannig að þið notið bara meira ef ykkur finnst bragðið aðeins of dauft.

fimmtudagur, 4. ágúst 2011

túnfiskssalat


Ég var að útbúa túnfiskssalat fyrr í dag og fannst því tilvalið að skella uppskriftinni hér inn þar sem ég var búin að taka mynd af því fyrir töluverðu síðan. Þessi uppskrift kemur frá CafeSigrun eins og svo margt annað gott.

TÚNFISKSSALAT

HRÁEFNI

 • 2 harðsoðin (hamingju)egg (notið eitt heilt og svo bara hvítuna af öðru)
 • 1 dós túnfiskur í vatni
 • 2-3 matskeiðar majónes eða sýrður rjómi (má líka nota bæði)
 • ¼ teskeið svartur pipar
 • ¼ teskeið karrí
 • hálfur rauðlaukur, saxaður smátt (má sleppa en gefur afar gott bragð)

AÐFERÐ

 1. Sjóðið eggin og kælið
 2. Fjarlægið aðra eggjarauðuna og notið svo eggjaskera til að skera eggin langsum og þversum
 3. Hellið vatninu af túnfisknum og setjið hann í skál
 4. Bætið eggjum, majónesi/sýrðum rjóma, karrí og svörtum pipar í skálina
 5. Afhýðið og saxið rauðlaukinn og bætið honum út í
 6. Hrærið öllu vel saman

sunnudagur, 5. júní 2011

hrökkbrauð / kex


Uppruna þessarar hrökkbrauðuppskriftar þekki ég ekki en fyrir tveimur árum fékk ég hana senda frá kunningjakonu og hún fór beint á uppskriftir-sem-ég-verð-að-gera listann (trúið mér, hann er vægast sagt orðinn langur). Svo þegar ein vinkona mín sendi mér sömu uppskrift um daginn eftir að hafa bakað hana (og síðar gefið mér að smakka) þá varð ég að baka hrökkbrauðið sjálf. Vinkona mín minnkaði olíumagnið töluvert og mér finnst það koma vel út. Ég minnkaði svo saltið líka því hér á heimilinu voru allir sammála um að það mætti vera minna. Uppskriftin sem ég birti hér að neðan er hálf uppskrift því mér finnst óþarfi að gera stærri skammt. Ég vil frekar baka hrökkbrauðið oftar enda er það fljótlegt. Aðferðin í uppskriftunum var sú sama nema að baksturstíminn var lengri í þeirri sem ég fékk nú síðast og mér finnst það koma betur út. Þetta kex er miklu hollara með osti og vínberjum heldur en hefðbundin (salt)kex og kjörið í nestisboxið.

HRÖKKBRAUÐ / KEX

HRÁEFNI

 • 1¾ dl spelti
 • ½ dl gróft haframjöl
 • ½ dl graskersfræ
 • ½ dl hörfræ
 • ½ dl sesamfræ
 • ½ dl sólblómafræ
 • ½-¾ teskeið fínt sjávarsalt
 • 1 dl vatn
 • 2 matskeiðar (30 ml) góð olía

AÐFERÐ

 1. Blandið öllu hráefninu saman í skál og hrærið með sleif eða sleikju þar til þið hafið linan massa
 2. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og setjið deigið á pappírinn, setjið því næst bökunarpappír yfir deigið og fletjið það út með kökukefli (þið getið svo lagað endana með fingrunum ef þið þurfið)
 3. Skerið deigið í þá stærð sem þið viljið hafa hrökkbrauðið (ég nota pizzaskera og svo rétt aðeins sting ég í hverja sneið með gaffli)
 4. Bakið í blástursofni við 200°C í 15-20 mínútur, fer eftir því hversu dökkt og stökkt þið viljið hafa hrökkbrauðið (ég baka það í 20 mínútur)
 5. Geymið hrökkbrauðið í loftþéttu boxi svo það verði ekki seigt

sunnudagur, 15. maí 2011

eplakaka


Síðan mín á eins árs afmæli í dag og það er tilvalið að halda upp á það með eplaköku, uppáhaldi eiginmannsins. Þessi var alveg sérstaklega þróuð fyrir hann því hann elskar eplakökur, ekki bökur heldur kökur, og ef hann mætti ráða þá væri ekkert annað bakað á þessu heimili. Það verður að segjast eins og er að það er eitthvað dásamlegt við heita eplakökusneið með rjóma. Það tók nú ekki langan tíma að þróa þessa því stundum er bara eins og rétti eldhúsandinn sé yfir manni: hún heppnaðist í fyrstu tilraun og bóndinn lét mig lofa sér að gera engar breytingar á uppskriftinni. Ég er búin að baka þessa fyrir fólk sem er vanara því að fá ekkert nema dísætar kökur með smjöri og allir lofa kökuna. Ég er auk þess búin að birta uppskriftina á ensku síðunni og hef fengið góð viðbrögð í tölvupóstum. Bara eitt að lokum: Ekki gleyma að dreifa kanilsykrinum yfir eplin! Ég ætla ekki að segja ykkur hversu oft ég er nálægt því að gleyma þessu atriði í aðferðinni. [Uppfærsla 10. feb. '13: Ég er búin að vera að leika mér aðeins með uppskriftina undanfarið og er búin að minnka hrásykurinn eilítið (magnið var áður ½ bolli eða 100 g). Við bökum þessa köku svo oft og núna þegar ég nota alltaf stór egg þá finnst mér nóg að nota 2 msk af kókosolíu, þess vegna setti ég inn 2-3 msk. Sjá útfærslu af stærri köku neðar.]

EPLAKAKA

HRÁEFNI


 • 70 g hrásykur
 • 2 matskeiðar hreint hlynsíróp eða agave síróp
 • 2 stór (hamingju)egg
 • 2-3 matskeiðar kókosolía, fljótandi
 • 1 bolli (130 g) spelti (má nota gróft og fínt til helminga)
 • 2 teskeiðar vínsteinslyftiduft
 • 2 rauð epli, helst lífræn
 • kanilsykur (útbúinn með hrásykri) eftir smekk

AÐFERÐ

 1. Setjið hrásykur, agave, egg og kókosolíu í bökunarskál og hrærið með pískara (ef kókosolían er í föstu formi látið þá krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)
 2. Blandið speltinu og vínsteinslyftiduftinu saman í aðra skál og blandið svo saman við hina blönduna með sleikju
 3. Notið eplaskera (ef þið eigið hann til) til þess að sneiða eplin, afhýðið sneiðarnar og skerið svo hverja sneið í þrennt, langsum
 4. Klæðið ca. 20-23 cm hringform með bökunarpappír eða smyrjið bökudisk með örlítilli kókosolíu
 5. Dreifið aðeins minna en helmingnum af deiginu í botninn með sleikju. Ef deigið er stíft þá er ágætis ráð að dýfa sleikjunni ofan í ílát með heitu vatni
 6. Raðið eplasneiðunum í hring á botninn, nokkuð þétt þannig að brúnin á hverri sneið sé aðeins uppi á næstu og fyllið svo upp í miðjuna (því smærra form sem notað er því þéttar raðast sneiðarnar)
 7. Stráið kanilsykri yfir eplin (á þessu heimili er kanilsykur mikið notaður og lítið pælt í hlutföllum hrásykurs og kanils þegar hann er útbúinn en einhvers staðar las ég að ágætis hlutföll í bakstur eru 1 matskeið hrásykur á móti 1 teskeið af kanil). Það má líka alveg strá kanil eingöngu yfir eplin
 8. Dreifið restinni af deiginu yfir eplin, rólega svo eplin færist ekki öll úr stað og munið að dýfa sleifinni í heitt vatn ef deigið er stíft. Þetta með deigið veltur svolítið á stærð eggjanna sem notuð eru og á rakanum í eldhúsinu hverju sinni. Stundum er eins og ég þurfi ekkert að nota sleikju til þess að dreifa deiginu heldur virðist vera nóg að hella því bara rólega úr skálinni yfir eplin (áferðin er ekki fljótandi heldur þykk í sér). En notið alla vega sleikju til þess að skafa restina af deiginu úr skálinni
 9. Bakið á blæstri við 150° C neðst í ofninum í 40-55 mínútur þar til toppurinn er orðinn gullinbrúnn (því minna form því lengri bökunartími - stingið prjóni í miðja kökuna til að athuga hvort hún sé tilbúin). Ef toppurinn fer að verða of dökkur í ofninum og töluvert eftir af baksturstímanum þá er ágætt að setja álpappír yfir formið
 10. Berið kökuna fram með þeyttum rjóma eða ís


Um daginn tókst mér að brjóta eldfasta mótið sem ég hef alltaf notað til að baka kökuna. Það var ca. 22-23 cm í þvermál. Ég á eftir að kaupa mér nýtt og hef því verið að baka kökuna í eilítið stærra móti sem er með hallandi brúnum þannig að ég er ekki viss um nákvæmt þvermál, kannski 25 cm. Ég setti því saman stærri útgáfu af kökunni. Ég nota 3 msk af kókosolíunni í stærri útgáfuna og nota stór egg og bæti við einni eggjahvítu. Ég nota líka stór epli.

EPLAKAKA, STÆRRI KAKA

HRÁEFNI


 • 130 g hrásykur
 • 3 matskeiðar hreint hlynsíróp eða agave síróp
 • 2 stór (hamingju)egg
 • 1 eggjahvíta (af stóru eggi)
 • 3 matskeiðar kókosolía, fljótandi
 • 200 g spelti (má nota gróft og fínt til helminga)
 • 2½-3 teskeiðar vínsteinslyftiduft
 • 2 stór rauð epli, helst lífræn
 • kanilsykur (útbúinn með hrásykri) eftir smekk

Aðferðin er alveg sú sama nema ég baka þessa við 170° C (ekki á blæstri) og hef hana í ca. 55 mín. í ofninum. Þegar ca. 25 mínútur eru eftir læt ég álpappír yfir mótið í ofninum þannig að kakan verði ekki of dökk.

laugardagur, 30. apríl 2011

bananamöffins með hindberjum og mangó


Þessi uppskrift varð óvart til á góðum sunnudegi. Ég var að fara í gegnum frystinn og rakst á hindber í boxi sem ég var búin að gleyma og mangó sem ég hafði fryst. Ég átti banana sem ég þurfti að fara að nota og ákvað bara að nýta þetta hráefni til að gera eitthvað gott fyrir krakkana í nesti. Ég var ekki með tölvuna við hlið mér en mundi eftir uppskrift að mangó- og bananamöffins með pekanhnetum frá CafeSigrun þannig að við skulum orða það þannig að ég hafi verið undir hennar áhrifum. Krakkarnir voru alsælir og kvarta ekki þegar þeir finna þessa í nestisboxinu. Það má gera þessi með eða án kakó og svo má nota lífrænt súkkulaði til þess að gera þau nammileg með sunnudagskaffinu.

BANANAMÖFFINS MEÐ HINDBERJUM OG MANGÓ

HRÁEFNI

 • 1½ bolli spelti
 • 40 g haframjöl
 • 2 teskeiðar vínsteinslyftiduft
 • ½ teskeið fínt sjávarsalt
 • 1 teskeið kanill
 • 1 matskeið kakó (má sleppa)
 • 1 (hamingju)egg
 • ½ bolli hrásykur
 • ½ matskeið límónusafi, nýkreistur
 • 1 matskeið kókosolía
 • 3 bananar
 • 1 dl frosin hindber (ca. 50 g) + ½ teskeið hrásykur
 • ½ dl mangó (ca. 25 g)
 • 25 g möndlur, saxaðar
 • nammiútgáfa: 25 g lífrænt 70% súkkulaði

AÐFERÐ

 1. Byrjið á því að tæta frosin hindber í matvinnsluvélinni, setjið þau svo í litla skál, hrærið ½ tsk af hrásykri út í og látið þiðna á borðinu í 7 mínútur eða svo. Setjið skálina svo strax aftur í frysti og geymið þar uns þið notið berin í deigið (þið getið þess vegna gert þetta deginum áður til að undirbúa baksturinn)
 2. Blandið þurrefnunum saman í stórri skál og setjið til hliðar
 3. Í minni skál skuluð þið hræra saman eggi, hrásykri, límónusafa og kókosolíu (látið kókosolíukrukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)
 4. Stappið bananana og bætið þeim út í eggjablönduna
 5. Skerið mangóið í mjög smáa bita og setjið til hliðar
 6. Saxið súkkulaðið ef þið notið það og setjið til hliðar
 7. Saxið möndlurnar vel í matvinnsluvél þannig að hluti þeirra verður nánast að mjöli og blandið saman við þurrefnin
 8. Notið sleikju til þess að blanda eggja- og bananablöndunni rólega saman við þurrefnin og alls ekki hræra mikið. Deigið á að vera létt í sér þannig að þið þurfið bara rétt að velta deiginu með sleikjunni þar til hráefnin hafa blandast saman
 9. Takið sykruðu hindberin úr frystinum og bætið út í deigið ásamt mangóinu og súkkulaðinu ef þið notið það og blandið þessu rólega saman við
 10. Smyrjið silíkonmöffinsform með smá kókosolíu áður en deigið fer í formin (gerir 12 stykki). Þið getið ekki notað pappírsform fyrir þessa uppskrift þar sem hún inniheldur litla fitu
 11. Bakið við 180°C á blæstri í 23-27 mínútur
 12. Látið fyrst kólna í formunum og svo á kæligrind í 5-10 mínútur

sunnudagur, 10. apríl 2011

klattar

© Lisa Hjalt | Lönsj & Latte
Uppskriftina að klöttunum er nú að finna á Lönsj & Latte blogginu (smellið á tengilinn).

mánudagur, 4. apríl 2011

kjúklingabaunir með papriku

Þessi einfaldi réttur er búinn að vera í uppáhaldi hjá mér í mörg ár, einn af þessum sem mér finnst gott að borða í hádegismat. Hann er að finna í matreiðslubók sem var gefin út af Kripalu jógastöðinni í Bandaríkjunum fyrir löngu síðan en ég er búin að breyta hlutföllunum eitthvað: Ég hef t.d. minnkað magn kjúklingabauna (nota bara 1 dós) því það átti að leggja þær í bleyti og sjóða og mér fannst of mikið af þeim. Kosturinn við þennan rétt er sá að það tekur stuttan tíma að undirbúa hann og svo er hann bara í ca. 10 mínútur á pönnunni. Hann er því kjörinn á dögum þegar maður hefur lítinn tíma til að stússast í eldhúsinu en vill samt fá eitthvað hollt og gott í kroppinn. Yfirleitt ber ég hann fram með basmati hrísgrjónum en mér finnst hann líka góður með naan brauði eða chapati (indverskt flatbrauð - lofa uppskrift að því fljótlega), auk þess er hann kjörinn sem meðlæti. Það eru engin sterk krydd í þessum þannig að hann er barnvænn og ekkert ögrandi að til að bera á borð fyrir þá sem eiga það til að fussa og sveia yfir framandi eldamennsku.

KJÚKLINGABAUNIR MEÐ PAPRIKU

HRÁEFNI

 • 1 dós kjúklingabaunir
 • 1 græn paprika
 • ½ matskeið góð olía
 • 1 teskeið sinnepsfræ
 • 1 teskeið mulið túrmerik
 • 1 teskeið mulinn kóríander
 • ½ teskeið gott karrí
 • 1 matskeið tómatmauk
 • 1-1½ matskeið sítrónusafi, nýkreistur
 • 2 matskeiðar gott hunang (má líka nota agave en notið þá eilítið meira af því)
 • 1 teskeið fínt sjávarsalt

AÐFERÐ

 1. Byrjið á því að skola kjúklingabaunirnar í sigti og látið þær liggja í sigtinu þar til þið þurfið að nota þær
 2. Fræhreinsið paprikuna og skerið í bita
 3. Blandið saman öllum kryddum nema sinnepsfræjunum í litla skál. Hafið matskeiðina með tómatmaukinu tilbúna og verið búin að kreista safann sem þið þurfið úr sítrónunni því hlutirnir gerast hratt á pönnunni þegar sinnepsfræin byrja að poppa
 4. Hitið olíuna á pönnunni og bætið sinnepsfræjunum út í
 5. Um leið og sinnepsfræin byrja að poppa á pönnunni þá bætið þið kryddblöndunni út í ásamt tómatmaukinu, sítrónusafanum, hunanginu, paprikunni, kjúklingabaununum og saltinu
 6. Blandið þessu saman og látið malla á miðlungshita í 7-10 mínútur

miðvikudagur, 30. mars 2011

belgískar vöfflur


Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja um belgískar vöfflur, þær útskýra sig nokkurn veginn sjálfar. Þetta er uppskrift sem ég er búin að leika mér með í nokkurn tíma og nú er allt heimilisfólk orðið mjög sátt. Ég nota stór egg í þessa og nota yfirleitt bara tvær eggjarauður á móti þremur eggjahvítum. Fyrir ykkur sem bakið gjarnan með agave sírópi þá verð ég að segja að hrásykur er skemmtilegri í þessa uppskrift því sírópið gerir vöfflurnar örlítið slepjulegar. Mér finnst best að borða þær með lífrænni hindberjasultu eða ferskum berjum og rjóma. Krakkarnir nota lífrænt súkkulaðihnetusmjör, ber og rjóma. Ég næ tíu vöfflum úr deiginu og er hver vaffla ansi matarmikil.

BELGÍSKAR VÖFFLUR

HRÁEFNI

 • 1½ bolli fínt spelti (200 g)
 • 3½-4 teskeiðar vínsteinslyftiduft
 • ½ teskeið sjávarsalt, fínt
 • 2 matskeiðar lífrænn hrásykur
 • 2-3 eggjarauður
 • 1½ bolli léttmjólk (375 ml)
 • 3 matskeiðar kókosolía í fljótandi formi
 • 3 eggjahvítur, þeyttar

AÐFERÐ

 1. Blandið þurrefnum saman ásamt sykri í stóra skál og setjið til hliðar
 2. Aðskiljið eggin
 3. Þeytið eggjahvíturnar þar til þær verða nokkurn veginn froðukenndar, tekur um 1 mínútu (óþarft að stífþeyta þær) og setjið til hliðar
 4. Bætið eggjarauðum og mjólk út í þurrefnablönduna og hrærið saman með pískara
 5. Bætið kókosolíunni út í og hrærið saman með pískaranum
 6. Notið sleikju til þess að blanda þeyttu eggjahvítunum saman við, mjög hægt og rólega. Alls ekki hræra þeim saman við (bara „fold them“). Deigið á að vera þannig að þið greinið eggjahvítuna
 7. Passið að belgíska vöfflujárnið sé orðið heitt og rétt penslið það með kókosolíu ef vöfflurnar eiga það til að festast í því. Notið stóra ausu til þess að hella deiginu í mitt formið. Það er mismunandi hvað vöfflurnar eru lengi að bakast, í mínu járni bakast vafflan á ca. 5-6 mínútum og er þá orðin gullinbrún. Mér finnst best að setja vöfflurnar beint úr járninu á kæligrind og leyfa þeim að kólna þar í smá stund


miðvikudagur, 16. mars 2011

gulrótasalat


Þetta einfalda salat hefur verið í uppáhaldi hjá mér í margar vikur, ég hreinlega fæ ekki nóg af því. Það er svo fljótlegt að búa það til og því er það kjörið meðlæti. Það var nú eiginlega eiginmaðurinn sem kynnti mig fyrir þessari dásemd eitt kvöldið. Hann kom heim með poka af rifnum gulrótum og bar þær fram með örlitlu lífrænu majónesi og svörtum pipar. Til hliðar var hann svo með einhvers konar blöndu af pestó og tapenade. Þetta var guðdómlegt á bragðið. Núna rífum við gulræturnar í matvinnsluvélinni enda tekur það ekki nema nokkrar sekúndur. Við höfum svolítið verið að leika okkur með útfærslur og þar sem ég er bókstaflega sjúk í grænar ólífur þá eru þær oftast hafðar með og/eða ferskir sólþurrkaðir tómatar, ekki þessir úr krukkunum með olíunni. Passið ykkur bara að drekkja ekki gulrótunum í majónesi því það er jú engin hollusta; það á bara að vera örlítið magn með hverjum skammti.

GULRÓTASALAT

HRÁEFNI

 • 1 gulrót á mann (ég nota stórar, yfirleitt lífrænar)
 • ½-1 teskeið majónes á mann (ég nota lífrænt)
 • nýmalaður svartur pipar eftir smekk

VALKOSTIR

 • safi úr appelsínu
 • 2-3 grænar ólífur á mann
 • ½-1 ferskur sólþurrkaður tómatur á mann
 • rautt pestó eða tapenade

AÐFERÐ

 1. Rífið gulræturnar með fínu rifjárni í matvinnsluvél
 2. Deilið rifnu gulrótunum niður á diska, smyrjið majónesinu á hvern skammt og malið svartan pipar yfir
 3. Appelsínur og gulrætur eiga vel saman og því má skera appelsínu og kreista smá safa yfir hvern skammt. Ef þið notið safann þá skuluð þið kreista hann yfir fyrst, svo bæta majónesi og svörtum pipar 
 4. Skerið ólífurnar og sólþurrkuðu tómatana (ef notað) og bætið þeim á hvern disk. (Ef þið fáið bara tómata í krukku þá er gott að þerra sem mest af olíunni með eldhúspappír áður en þið notið þá)
 5. Það má líka setja örlítið rautt pestó eða tapenade á hvern disk eða bera fram sér fyrir þá sem vilja

föstudagur, 11. febrúar 2011

banana- og berjadrykkur (smoothie)

Ég á vinkonu sem á að vera á fljótandi fæði þessa dagana og að slaka á eftir kirtlatöku. Mér fannst því kjörið að birta eina smoothie uppskrift, ef hægt er að kalla þetta uppskrift. Ég myndi segja að ég væri frekar vanaföst þegar kemur að smoothie og í raun eru þetta bara örfáir drykkir sem ég skiptist á að gera. Bestir finnst mér drykkir með banana og berjum og yfirleitt fylgi ég aldrei uppskrift heldur læt bara tilfinninguna ráða. Ég á yfirleitt alltaf frosin ber í frystinum; bláber, hindber eða blöndu af skógarberjum. Stundum blanda ég þeim öllum saman, stundum nota ég bara bláber eða hindber, veltur bara á því hvað kroppurinn kallar á. Oft finnst mér gott að útbúa smoothie eftir matinn ef við höfum verið að borða sterkan mat, eins og indverskan eða mexíkóskan. Þá er eins og tönnin kalli á eitthvað sætt og stað þess að þenja sig út af ís eða súkkulaði þá er ágætt að fá bara nokkra sopa af smoothie.

BANANA- OG BERJADRYKKUR

HRÁEFNI

 • ca. 100-120 ml sojamjólk, undanrenna eða léttmjólk
 • 1 dl frosin ber (bláber, hindber eða skógarberjablanda)
 • 2-3 ísmolar
 • 1 stór banani
 • 3 möndlur með hýði
 • örlítið af agave (má sleppa)

AÐFERÐ

 1. Hellið mjólkinni í blandara
 2. Bætið frosnum berjum og ísmolum út í ásamt möndlum og leyfið blandaranum að mauka þetta í smá stund
 3. Bætið svo banananum út í ásamt agave ef þið notið það og maukið þar til drykkurinn er tilbúinn (veltur bara á því hversu öflugan blandara þið eigið)
 4. Hellið í stórt glas eða tvö minni og njótið

fimmtudagur, 3. febrúar 2011

núðlusúpa með kjúklingi og grænmeti

Áður fyrr vissi ég fátt betra í kulda en að fá mér núðlusúpu á ónefndu veitingahúsi í Reykjavík sem var borin fram með sítrónu, chilli-mauki og engifer. Eiginmaðurinn kynnti mig fyrir þessari dásemd en kunningjahópur hans hittist þarna reglulega og fékk sér súpu. Við vorum í Köben í einhverju kuldakasti í desember 2009 og dauðlangaði í súpuna. Það var ekkert annað í stöðunni en að ráðast í tilraunir þar til réttu nammi namm hljóðin heyrðust við borðið. Síðan þá hefur súpan verið svo til vikulega á okkar borðum í köldu veðri og hjá nokkrum öðrum sem fengið hafa uppskriftina. Einn kosturinn við hana er sá að það er einfalt að útbúa hana. Ég nota í flestum tilfellum lífrænar gulrætur í súpuna og þar sem ég nota engifer í hana ber ég hana ekki fram með fersku engifer. Við skerum þó alltaf sítrónu og  kreistum út í og notum svo örlítið af Sambal Oelek chilli-mauki. Það eru tvö mikilvæg atriði í þessari súpugerð: Það er að nota gæða kjúklingateninga, helst lífræna, og gæða núðlur. Ég hef gert þessa súpu með síðri vörum og þetta var bara ekki sama súpan. Ég mæli því með að spara ekki þegar kemur að þessu hráefni. (Myndin er tekin áður en kjúklingurinn og núðlurnar fóru ofan í pottinn.)

NÚÐLUSÚPA MEÐ KJÚKLINGI OG GRÆNMETI

HRÁEFNI

 • 3 lítrar vatn
 • 4 kjúklingateningar, lífrænir
 • 3 stórir hvílauksgeirar, fínsaxaðir
 • engifer (15-20 g), fínsaxað
 • 5-6 gulrætur, fyrst sneiddar nokkuð gróft og hver hluti skorinn langsum í fernt
 • 1 blaðlaukur, einungis græni hlutinn notaður og skorinn í ca. 2 cm langar sneiðar, eða græni hlutinn af einu vorlauksbúnti
 • 300-400 g kjúklingur, skorinn í frekar smá bita
 • 200-275 g núðlur (veltur á þykkt núðlanna)

AÐFERÐ

 1. Sjóðið vatnið í stórum potti með loki (til að flýta fyrir má sjóða vatnið fyrst í hraðsuðukatli)
 2. Bætið kjúklingateningunum út í ásamt fínsöxuðum hvítlauk og engifer (ef þið eigið ekki gæða teninga þá má nota það sem ég kalla venjulega en þá þarf rétt aðeins að salta líka með sjávarsalti)
 3. Bætið svo sneiddum gulrótum og blaðlauk/vorlauk út í og látið malla í 5 mínútur með loki
 4. Bætið kjúklingabitunum út í og sjóðið súpuna í 8-10 mínútur til viðbótar með loki
 5. Það fer eftir því hvernig núðlur þið notið en yfirleitt þarf ekki að sjóða núðlur nema í ca. fjórar mínútur. Bætið núðlunum út í ca. 4-5 mínútum áður en kjúklingurinn er tilbúinn
 6. Berið súpuna fram með chilli-mauki og sítrónubitum til að kreista út í. Ef þið viljið meira engifer þá getið þið að sjálfsögðu notað meira í súpuna sjálfa eða borið það fram ferskt og rifið

PS. Við erum fimm og yfirleitt náum við svona nokkurn veginn að klára upp úr pottinum, enda eru börnin dugleg að borða. Núðlusúpur geymast ekki vel og því finnst mér best að veiða kjúklinginn og gulræturnar upp úr pottinum ef það verður afgangur. Það má svo steikja þetta tvennt daginn eftir upp úr sojasósu og bera fram með núðlum eða grjónum.

þriðjudagur, 1. febrúar 2011

pönnukökur


Pönnukökur á sunnudögum er eitthvað sem ætti að vera fært í lög. Það er bara eitthvað dásamlegt við það að borða pönnukökur með sultu og rjóma með sunnudagskaffinu. Kannski er það minningin um gamla tíma sem fylgir pönnukökugerð; mér finnst alltaf eins og ég sé stödd í eldhúsinu hjá mömmu eða ömmu. Yfirleitt ber ég pönnsurnar fram með lífrænni bláberjasultu, hindberjasultu og rifsberjahlaupi, og stundum nota börnin lífrænt eða heimagert súkkulaðihnetusmjör með rjómanum. En stundum setjum við nú bara hrásykur á þær og rúllum þeim upp. [Uppfærsla 6. okt '14: Uppskriftin sem ég birti hér fyrst í febrúar 2011 kom frá (Cafe)Sigrúnu vinkonu minni en á einhverjum punkti byrjaði ég að leika mér með hana og þetta er uppskriftin sem ég nota í dag.]

PÖNNUKÖKUR

HRÁEFNI

 • 250 g fínt spelti
 • 1½-2 teskeiðar vínteinslyftiduft
 • má sleppa: klípa fínt sjávarsalt
 • 2-3 (hamingju)egg
 • 500 ml mjólk
 • 1 teskeið vanilludropar úr heilsubúð
 • 1½-2 matskeiðar jurtaolía

AÐFERÐ

 1. Blandið saman spelti og lyftidufti (og salti ef notað) í stórri skál
 2. Myndið holu í speltið, setjið eggin í holuna og bara rétt hrærið með pískara til að brjóta rauðurnar. Hellið svo mjólkinni rólega út í og hrærið allan tímann með pískara þar til deigið er kekklaust
 3. Bætið svo vanilludropunum og olíunni út í og hrærið saman við
 4. Ég nota ekki þessar klassísku íslensku pönnur þannig að ég byrja bara á því að bera þunnt lag af olíu með þurrku á pönnuna og læt hana svo hitna á meðalhita. Ég lækka hitann svo örlítið áður en ég byrja að gera pönnukökurnar. Ég geri mínar ekki mjög þunnar en það er bara smekksatriði
 5. Ef þið eruð nýgræðingar á sviði pönnukökugerðar þá hafið í huga að æfingin skapar meistarann og ljótar pönnukökur eru betri en margt annað. Aðalatriðið er bara að nota ausu til þess að koma deiginu hratt og vel á pönnuna og setja svo ausuna aftur í skálina. Notið mjúkan spaða til þess að snúa pönnukökunni við og færa hana á disk


ný síða tekin í notkun

Kæru notendur

Verið velkomin á nýja síðu. Uppskriftirnar sem voru á þeirri eldri eru allar hér í sömu röð.

Góðar stundir í eldhúsinu,
Lísa Hjalt

Pin It button on image hover