mánudagur, 18. október 2010

bananabrauð með valhnetum


Uppskriftina að þessu bananabrauði (ég elska valhnetur!) fékk ég á Starbucks í Kanada og gerði breytingar á henni; hún er núna hollari og er bara betri fyrir vikið. Mér þótti athyglisvert að heyra að fitumagnið í henni hefði verið minnkað á Starbucks því þrátt fyrir það inniheldur uppskriftin þeirra ½ bolla af olíu. Mér finnst óþarfi að nota svo mikið magn og brauðið verður ekkert þurrt með minni olíu því valhneturnar innihalda næga fitu (það má líka nota pekanhnetur). Ég þarf svo varla að taka það fram að ég tók út hvítan sykur og minnkaði sykurmagnið verulega.

BANANABRAUÐ MEÐ VALHNETUM

HRÁEFNI

  • 260 g (2 bollar) gróft spelti (má líka blanda grófu og fínu)
  • 1 matskeið vínsteinslyftiduft
  • ¼ teskeið fínt sjávarsalt
  • 100 g (½ bolli) lífrænn hrásykur
  • 2 matskeiðar hreint hlynsíróp eða agave eða lífrænn hrásykur
  • 1 (hamingju)egg
  • 1 matskeið kókosolía, fljótandi (látið krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)
  • ½ teskeið vanilludropar eða lífrænn vanillusykur
  • 2-3 matskeiðar hrein jógúrt eða súrmjólk
  • 3 stórir bananar eða 4 litlir (í uppskriftinni segir vel þroskaðir en mér finnst í fínu lagi að nota venjulega)
  • ½ bolli saxaðar valhnetur + 1 lúka til þess að setja ofan á brauðið

AÐFERÐ

  1. Byrjið á því að blanda spelti, vínsteinslyftidufti og salti saman í skál. Setjið til hliðar
  2. Setjið egg, hrásykur og kókosolíu í aðra skál og hrærið saman með pískara eða gaffli
  3. Bætið þurrefnablöndunni út í blautu blönduna og blandið saman með sleif (ekki hafa áhyggjur af því að blandan virki þurr því bananarnir eiga eftir að blandast saman við)
  4. Stappið bananana og bætið þeim saman við ásamt vanilludropum og jógúrt. Hrærið létt með sleifinni þar til hráefnin hafa blandast saman
  5. Bætið ½ bolla af söxuðum valhnetum saman við og sem fyrr, hrærið bara létt með sleifinni
  6. Klæðið brauðform með bökunarpappír og hellið deiginu út í
  7. Dreifið ca. 1 lúku af söxuðum valhnetum yfir brauðið (upprunalega uppskriftin segir 1/3 bolli en mér finnst það óþarflega mikið)
  8. Bakið við 175°C í 50-60 mínútur. Það er ágætt að stinga gaffli eða prjón í miðjuna eftir 45 mínútur til að sjá hvort brauðið sé nokkuð of blautt (stillið á 160°C ef þið bakið á blæstri)
  9. Látið brauðið standa í forminu á kæligrind á meðan það er að kólna

Pin It button on image hover