þriðjudagur, 23. apríl 2013

hrísgrjón með indverskum kryddum

Um daginn var bóndinn að grilla kjúkling og spurði hvort ég væri til í að útbúa góð grjón til að bera fram með honum. Með því átti hann við grjón með einhvers konar kryddblöndu. Ég hef leikið mér að því í gegnum tíðina að bragðbæta grjón með alls kyns kryddum og jurtum og í þetta sinn ákvað ég að skrifa niður það sem ég notaði til þess að deila hér á blogginu. Ég sjálf er hrifin af einföldum grillmat, ég er lítið fyrir rjómasósur eða of margar tegundir af meðlæti með grilluðu kjöti. Einföld salöt eða grjón finnst mér alltaf eiga vel við. Stundum er nú bara ágætt að setja tamarisósu út á grjón en ég neita því ekki að það er gaman að bæta við indverskum kryddum til að skapa skemmtilegri stemningu. Ég hef sagt það áður að þessar uppskriftir mínar eru ekkert heilagar, þið getið breytt kryddhlutföllum alveg eins og þið viljið og skipt út kryddum ef bragðið er ykkur ekki að skapi. Ég mæli með því að fjarlægja negulnaglana og piparkornin áður en þið berið þessi grjón fram og ef þið viljið meira saltbragð af grjónunum þá er fínt nota smá Maldon salt þegar grjónin eru komin á diskinn.

HRÍSGRJÓN MEÐ INDVERSKUM KRYDDUM

HRÁEFNI

 • 1½ bolli (300 g) basmati hrísgrjón
 • 3 bollar (750 ml) soðið vatn
 • 1 lífrænn grænmetisteningur
 • 2 teskeiðar gæða jurtaolía (eða ghee)
 • ¼ teskeið sinnepsfræ
 • ¼ teskeið kóríanderfræ
 • 1 teskeið broddkúmenfræ (cumin seeds)
 • 4 svört piparkorn
 • 3 negulnaglar
 • ögn af chilli flögum
 • ½ teskeið mulið túrmerik

AÐFERÐ

 1. Skolið grjónin í sigti og geymið þau í sigtinu þar til þið þurfið að nota þau
 2. Hellið soðna vatninu (ég sýð það í hraðsuðukatli til að flýta fyrir) í stóra könnu og látið grænmetisteninginn leysast upp í því
 3. Hitið olíuna í potti á meðalhita (potturinn þarf að vera nógu stór til að sjóða grjónin) og bætið svo öllum kryddunum út í nema túrmerikinu. Leyfið kryddunum að liggja í olíunni þar til fræin fara að poppa. Þar sem einungis eru tvær teskeiðar af olíu í uppskriftinni þá þarf ekkert að vera að velta kryddunum til og frá í pottinum, sjáið bara til þess að þau liggi í olíunni
 4. Um leið og fræin byrja að poppa þá bætið þið soðinu út í ásamt grjónunum og túrmerikinu og hrærið rólega saman
 5. Notið hæsta hita þar til vatnið fer að sjóða og stillið þá hitann á lægsta og sjóðið grjónin í 12-15 mínútur. Notið lok á pottinn en skiljið eftir smá rifu til þess að hleypa gufunni út
 6. Áður en þið berið grjónin fram þá mæli ég með því að fjarlægja negulnaglana og piparkornin, einkum ef börn sitja til borðsPin It button on image hover