laugardagur, 15. desember 2012

súkkulaðibitakökur með möndlum og haframjöli


Ég var að baka smákökur með krökkunum um daginn og varð að tilraunast aðeins. Þessar kökur heppnuðust einstaklega vel en til öryggis bakaði ég þær aftur í gær bara til að vera alveg viss um að þær væru jafn góðar í seinna skiptið. Við smjöttuðum alveg jafn mikið þannig að krakkarnir gáfu þeim grænt ljós á uppskriftasíðuna. Ég er viss um að þær bragðast vel með 70% súkkulaði en krökkunum mínum finnst það ekki gott þannig að ég nota 50%. Það má líka alveg nota lífrænt mjólkursúkkulaði en athugið að það gefur minna kakóbragð. Það er ekki leiðinlegt að borða þessar með heita súkkulaðinu sem ég póstaði um daginn.

SÚKKULAÐIBITAKÖKUR MEÐ MÖNDLUM OG HAFRAMJÖLI

HRÁEFNI

 • 1 stórt (hamingju)egg
 • 70 g hrásykur, lífrænn
 • 2 matskeiðar agave
 • 2 matskeiðar lífrænt hnetusmjör
 • 2 matskeiðar kókosolía
 • 30 g spelti
 • ½ teskeið vínsteinslyftiduft
 • ½ teskeið fínt sjávarsalt
 • 2 teskeiðar kakó, helst lífrænt/fair-trade
 • 50 g gróft haframjöl
 • 70 g möndlur, hakkaðar
 • 70 g lífrænt 50% eða 70% súkkulaði, saxað

AÐFERÐ

 1. Hrærið eggi, sykri, agave, hnetusmjöri og kókosolíu saman í stórri skál (ef olían er í föstu formi þá þarf bara að setja krukkuna í skál með heitu vatni fyrir notkun)
 2. Blandið saman spelti, lyftidufti, salti og kakói í lítilli skál, bætið svo út í eggjablönduna og hrærið létt saman
 3. Bætið haframjöli út í ásamt hökkuðum möndlum og blandið rólega saman (mér finnst best að nota matvinnsluvél til að hakka möndlurnar)
 4. Saxið súkkulaðið, bætið því út í og blandið létt saman við
 5. Setjið bökunarpappír á stóra bökunarplötu
 6. Takið ca. matskeið af deigi og setjið á bökunarplötuna og sjáið til þess að hafa gott bil á milli svo kökurnar renni ekki saman í ofninum. Ég næ um 24 kökum úr deiginu og baka 12 í einu
 7. Bakið við 180°C gráður á undir- og yfirhita í 12 mínútur
 8. Kökurnar eru mjúkar þegar þær koma úr ofninum og því er best að leyfa þeim aðeins að standa áður en þið færið þær yfir á kæligrind til að láta kólna frekar eða berið þær fram

mánudagur, 26. nóvember 2012

heitt súkkulaði með heimagerðum vanillusykri

Þessa dagana ríkir einhvers konar æði fyrir heitu súkkulaði á heimilinu. Nýbakað brauð og heitt súkkulaði er blanda sem við fáum ekki nóg af. Hljómar freistandi, ekki satt? Þetta kallast nú varla uppskrift en þessi tiltekna blanda er uppáhald barnanna. Ég nota bara kakóduft í þessa, ég er ekkert að bræða súkkulaði neitt sérstaklega, og það tekur enga stund að búa þetta til. Ég nota heimagerðan vanillusykur sem gefur sætt bragð þannig að það þarf í raun ekki að bera súkkulaðið fram með rjóma. Við skulum orða það þannig að á sunnudögum notum við rjóma/lífrænan vanilluís. Persónulega vil ég hafa meira súkkulaðibragð og jafnvel smá chilli. Það veltur kannski svolítið á kakóduftinu sem ég nota því það getur jú verið mismunandi. Stundum eyk ég kakóið eða krydda með smá chilli. Svo má setja út í nokkra bita af lífrænu dökku súkkulaði.

HEITT SÚKKULAÐI MEÐ VANILLUSYKRI

HRÁEFNI

 • 1 lítri mjólk
 • 2 matskeiðar hrásykur, lífrænn
 • ½ matskeið heimagerður vanillusykur
 • 3 matskeiðar gott kakó, helst lífrænt/fair-trade
 • hnífsoddur sjávarsalt (má sleppa)

AÐFERÐ

 1. Hitið mjólkina í potti á meðalhita
 2. Bætið sykrinum, kakóinu og saltinu út í og hrærið rólega þar til kakóið hefur leyst upp
 3. Hrærið af og til rólega þar til suðan kemur upp og fjarlægið þá strax af hellunni
 4. Berið fram með eða án rjóma

HEIMAGERÐUR VANILLUSYKUR

Ég birti „uppskriftina“ mína að heimagerðum vanillusykri fyrr á þessu ári en skrifa hana hér líka upp á þægindi. Það er mjög auðvelt að gera sinn eigin vanillusykur, það eina sem þarf er hrásykur og vanillustöng.

Kljúfið vanillustöngina í tvennt: skerið í gegnum hana miðja með beittum hníf, og skafið kjarnann úr henni með hnífsoddinum. Setjið lífrænan hrásykur í glerkrukku (með loki) ásamt kjarnanum og vanillustönginni sjálfri. Það þarf ekki að setja kjarnann í krukkuna heldur er nóg að setja bara vanillustöngina sem búið er að skera í tvennt og skafa úr. En ég nota kjarnann, mér finnst það skemmtilegra og það gefur enn meira vanillubragð.

miðvikudagur, 10. október 2012

epla- og kanilmöffins


Það er óhætt að segja að þessir muffinsar eru ansi algengir hér á bæ enda eiga epli og kanill alltaf vel við. Við köllum þá alltaf appins og það hefur örugglega verið eiginmaðurinn sem setti það orð saman úr orðunum 'apps' og muffins á einhverjum tímapunkti. Ef ég hef ekki tíma til að baka eplakökuna þá skelli ég frekar í þessa, enda fljótlegt. Ég nota alltaf eina teskeið af kanil en ef ykkur finnst kanilbragðið verða of yfirgnæfandi þá minnkið þið bara magnið og ef þið notið venjulegt lyftiduft þá er ein teskeið nóg. Ég er svo með nokkrar útfærslur hér að neðan ef þið viljið leika ykkur með uppskriftina.

EPLA- OG KANILMÖFFINS

HRÁEFNI

 • 200 g spelti(1½ bolli)
 • 2 teskeiðar vínsteinslyftiduft
 • ½ teskeið fínt sjávarsalt
 • ½-1 teskeið kanill
 • 1 stórt (hamingju)egg
 • 1 eggjahvíta (stórt egg)
 • 100 g lífrænn hrásykur (½ bolli)
 • 2 matskeiðar hreint hlynsíróp
 • 1 matskeið kókosolía
 • 2 stór rauð epli

Útfærsla: Það má nota minna af kanil og/eða nota engifer eða múskat, eða bæði. Stundum bæti ég út í einni lúku af hökkuðum pekanhnetum og ég hef líka notað rúsínur. Smá lífrænt súkkulaði, fínhakkað, er líka gott; 20 g er nóg og sleppið þá einni matskeið af sírópinu.

AÐFERÐ

 1. Blandið þurrefnunum saman í skál og setjið til hliðar
 2. Í aðra skál skuluð þið hræra saman eggi, eggjahvítu, hrásykri, hlynsírópi og kókosolíu (ef kókosolían er í föstu formi látið þá krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)
 3. Afhýðið eplin og fjarlægið steinana. Rífið eplin á grófu rifjárni og bætið þeim svo út í eggja- og sykurblönduna og blandið saman með sleif eða sleikju
 4. Bætið þurrefnablöndunni út í og hrærið bara létt, alls ekki mikið. Deigið á að vera létt í sér þannig að þið þurfið bara rétt að velta því með sleif þar til hráefnin hafa blandast saman
 5. Smyrjið silíkonmöffinsform með kókosolíu áður en deigið fer í formin (gerir 12 stykki). Þið getið ekki notað pappírsform fyrir þessa uppskrift þar sem hún inniheldur litla fitu
 6. Bakið við 200°C (180°C á blæstri) í 22-25 mínútur
 7. Látið kólna í formunum á kæligrind í 5-10 mínútur

sunnudagur, 1. júlí 2012

fjölkornabrauð með rósmarín og timían


Ég var ekki búin að nota ger í þrjú ár þegar ég setti þessa uppskrift saman. Ég hef ekkert á móti geri heldur finnst mér einfaldlega svo þægilegt að baka brauð með vínsteinslyftidufti því þá þarf ekki að láta deigið hefast, það er tilbúið strax til baksturs. Ég er voðalega hrifin af slíkum bakstri. Jæja, svo gerðist það að eiginmaðurinn greip ranga pakka í heilsuvörudeildinni og kom heim með dágóðan slatta af geri. Mér fannst eitthvað asnalegt að fara og skila þeim þannig að ég setti bara á mig svuntuna og lagðist í smá tilraunir. Ég viðurkenni að það var skrýtið að nota ger að nýju og ég þurfti að venjast lyktinni. Það er þess vegna sem ég ákvað að nota kryddjurtir í brauðið. Hvað um það, þessi uppskrift er ein af þeim sem kom út úr þessum tilraunum og aðrar verða birtar síðar. Ef keypt er þurrger í heilsubúðum þá inniheldur það engin aukaefni. Pakkarnir sem ég nota innihalda 9 grömm af geri og eru hugsaðir fyrir 500 grömm af mjöli. Það þarf ekki að blanda þessu geri saman við vatn, það blandast bara saman við þurrefnin þannig að þetta er ákaflega þægilegur bakstur. Í flestum geruppskriftum er talað um að hnoða deigið mjög vel, jafnvel í margar mínútur, en mér finnst best að hnoða það sem minnst (sennilega vegna þess að ég nota spelti). Ég geri tvo meðalstóra brauðhleifa úr deiginu.

FJÖLKORNABRAUÐ MEÐ RÓSMARÍN OG TIMÍAN

HRÁEFNI

 • 500 g spelti
 • 1 pakki þurrger (9 g) - sjá lýsingu í inngangi
 • 1 teskeið fínt sjávarsalt
 • ½ matskeið hrásykur, lífrænn
 • ½ matskeið graskersfræ
 • ½ matskeið hörfræ
 • ½ matskeið sesamfræ
 • ½ matskeið sólkjarnafræ
 • 1 teskeið timían
 • ¼ teskeið rósmarín
 • 150 ml heitt vatn
 • 125 ml sojamjólk eða önnur tegund mjólkur
 • 1 matskeið ólífuolía eða önnur gæða jurtaolía

AÐFERÐ

 1. Blandið öllum þurrefnum saman í stóra skál
 2. Sjóðið vatn og blandið svo vatninu, mjólkinni og olíunni í mælikönnu. Blandið rólega saman við þurrefnin á meðan þið hrærið með sleif
 3. Notið aðra höndina til þess að hnoða deigið örlítið á meðan það er í skálinni. Ef það er enn þurrt spelti á botninum þá má bæta við 1-2 matskeiðum af vatni og hnoða aðeins lengur. Passið bara að deigið verði ekki klístrað 
 4. Setjið lok á skálina eða viskustykki og látið deigið hefast í 45 mínútur á hlýjum stað
 5. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu. Skiptið deiginu í tvennt, stráið örlitlu spelti á borðplötuna og hnoðið hvorn helming. Ég byrja á því að mynda eins konar kúlu og ég breyti henni rólega í lengju sem ég rúlla aðeins fram og til baka. Stærðin á hverjum brauðhleif verður ca. 10 x 22 cm
 6. Bakið við 200°C í 20-22 mínútur


mánudagur, 28. maí 2012

hveitikökur ömmu lóu


Þær voru ófáar stundirnar sem ég eyddi sem stelpa í eldhúsi ömmu minnar Lóu í Vogahverfinu í Reykjavík, nánar tiltekið í Karfavoginum. Kökusortirnar sem finna mátti í hennar skápum voru allt að því endalausar enda var amma vöknuð fyrir allar aldir og byrjuð að baka. Í fersku minni er hveitikökugerðin. Amma hnoðaði deigið létt á borðplötunni, flatti það svo út og skar með litlum skera sem ég man enn hvernig leit út (engir pizzuskerar til í þá daga enda hefði amma örugglega fussað við slíkum tólum). Kökunum var svo skellt á pönnuna og á stuttum tíma var amma búin að galdra fram dásemd sem borðuð var með smjöri. Það var aldrei hægt að borða of mikið af hveitikökum! Það er svo einfalt að skella í hveitikökur og þær eru enga stund að verða til á pönnunni - ég nota að vísu fínt spelti í mínar. Á þessu heimili finnst okkur best að nota bara ¼ teskeið af salti í deigið því við borðum þær ekki með smjöri heldur penslum kökurnar með smá ólífuolíu og stráum örlitlu sjávarsalti yfir. Ef þið viljið baka þær með meira salti þá er það í góðu lagi en ekki nota mikið meira; ég prófaði þær einu sinni með ½ teskeið og okkur fannst þær of saltar.

HVEITIKÖKUR ÖMMU LÓU

HRÁEFNI

 • 1 bolli fínt spelti (250 ml)
 • ½ teskeið matarsódi eða vínsteinslyftiduft
 • ¼ teskeið fínt sjávarsalt
 • 50-60 ml léttmjólk/sojamjólk

AÐFERÐ

 1. Blandið spelti, matarsóda og salti saman í skál
 2. Bætið 50 ml af mjólk út í á meðan þið hrærið létt með sleif. Hnoðið svo deigið eilítið með höndunum á meðan það er enn í skálinni til þess að finna hvort það þurfi kannski smá mjólk til viðbótar
 3. Stráið spelti á borðplötuna og létthnoðið deigið, skiptið því svo til helminga og fletjið út með kökukefli (ég er ekki upptekin af einhverri formfræðilegri fegurð, ýmist flet ég út tvo meðalstóra hringi eða eitthvað sem líkist ferningi)
 4. Notið pizzaskera til þess að skera hvorn hring/ferning í fernt og stingið hverja köku með gaffli ca. þrisvar sinnum alveg í gegn. (Deigið gefur ykkur sem sagt átta kökur og ég mæli með að útbúa bara annan skammt ef þið ætlið að gera fleiri því það er best að ráða við deigið þegar það er ekki of mikið um sig)
 5. Hellið örlítilli olíu (ég nota ólífuolíu) á pönnu og dreifið úr með eldhúsbréfi. Stillið á næsthæsta hita og leyfið pönnunni að hitna áður en þið raðið eins mörgum kökum og þið komið á pönnuna
 6. Snúið kökunum við með spaða þegar þær hafa aðeins brúnast og leyfið hinni hliðinni að bakast
 7. Berið fram með ólífuolíu og sjávarsalti eða smjöri


þriðjudagur, 22. maí 2012

heimagerður vanillusykur


Síðustu mánuði hef ég verið ódugleg að pósta á síðuna og það er kominn tími til að bæta úr því. Höfum þetta bara einfalt í dag og byrjum næstu lotu á heimagerðum vanillusykri. Það er ótrúlega einfalt að búa hann til. Ég keypti mér glerkrukku með áföstu loki alveg sérstaklega fyrir vanillusykurinn því þá sé ég alltaf hversu mikið ég á eftir.

Vegna fyrirspurnar sem ég fékk þá er ég búin að uppfæra „uppskriftina“ og bæta eitlítið við aðferðarlýsinguna. Ég las einhvers staðar að þumalputtareglan væri að nota 2 bolla af sykri (= 500 ml) á móti einni vanillustöng og þá ætti að taka um tvær vikur að fá góðan vanillusykur. Ég nota 1 bolla (= 250 ml). Ef þið eigið góða matvinnsluvél þá er ekki verra að vinna vel sykurinn og kjarnann úr vanillunni áður en það fer í krukku (eftir að þið hafið losað kjarnann þá má stöngin líka fara í matvinnsluvélina en passið bara að þið séuð með það góða vél að hún vinni þetta vel). Þið getið notað sigti til þess að koma í veg fyrir vanillukekki eins og þið sjáið í krukkunni minni og til að fjarlægja parta af stönginni sem þið viljið ekki hafa í krukkunni.

HEIMAGERÐUR VANILLUSYKUR

HRÁEFNI

 • 1-2 bollar (250-500 ml) lífrænn hrásykur, ekki of grófur
 • 1 vanillustöng

AÐFERÐ

 1. Byrjið á því að kljúfa vanillustöngina í tvennt: skerið í gegnum hana miðja með beittum hníf, og skafið kjarnann úr henni með hnífsoddinum
 2. (Ef þið eigið góða matvinnsluvél kíkið þá á aðferðina í innganginum)
 3. Setjið hrásykur í glerkrukku (með loki) ásamt kjarnanum og vanillustönginni sjálfri. Það þarf ekki að setja kjarnann í krukkuna heldur er nóg að setja bara vanillustöngina sem búið er að skera í tvennt og skafa úr. En ég nota kjarnann, mér finnst það skemmtilegra og það gefur enn meira vanillubragð
 4. Geymið í lokaðri glerkrukku og skiptið reglulega um vanillustöng/kjarna

sunnudagur, 29. janúar 2012

epla- og súkkulaðimöffins


Ég skellti þessari uppskrift saman fyrr í dag og ákvað að deila henni strax með ykkur. Ég notaði bara sama grunninn og venjulega og bætti svo við rifnum eplum og súkkulaðihnetusmjöri. Ég kaupi einungis lífrænt súkkulaðihnetusmjör, aldrei Nutella eða slíkar tegundir. Það má að sjálfsögðu nota heimagert ef maður á það til. Súkkulaðihnetusmjörið gerir toppana örlítið stökka og brakandi og það lagðist greinilega vel í mitt fólk í dag. (Ef þið eruð með hnetuofnæmi þá getið þið notað kókosolíu í staðinn fyrir súkkulaðihnetusmjör og örlítið kakó eða lífræna súkkulaðibita.) Þetta er ein af þessum uppskriftum sem er einföld og því kjörið að skella í þessa möffinsa þegar mann langar í eitthvað örlítið sætt með kaffinu. Og þar sem þeir eru ekki mjög sætir er tilvalið að bjóða upp á þá sem hluta af t.d. sunnudags 'bröns' eða hafa með í nesti í vinnuna/skólann.

EPLA- OG SÚKKULAÐIMÖFFINS

HRÁEFNI

 • 1½ bolli spelti
 • 2 teskeiðar vínsteinslyftiduft
 • ½ teskeið fínt sjávarsalt
 • 1 (hamingju)egg
 • ½ bolli hrásykur
 • 3 matskeiðar lífrænt súkkulaðihnetusmjör
 • 2 rauð epli (ekki of stór), afhýdd og rifin gróft

AÐFERÐ

 1. Blandið þurrefnunum saman í skál og setjið til hliðar
 2. Í aðra skál skuluð þið hræra saman eggi og hrásykri
 3. Afhýðið eplin og fjarlægið steinana. Rífið eplin á grófu rifjárni
 4. Bætið rifnu eplunum út í eggjablönduna ásamt súkkulaðihnetusmjörinu og blandið saman með sleikju
 5. Bætið þurrefnablöndunni út í og alls ekki hræra mikið. Deigið á að vera létt í sér þannig að þið þurfið bara rétt að velta því með sleikjunni þar til hráefnin hafa blandast saman
 6. Smyrjið silíkonmöffinsform með smá kókosolíu (mér finnst nóg að bara rétt pensla botnana) áður en deigið fer í formin (gerir 12 stykki). Þið getið ekki notað pappírsform fyrir þessa uppskrift þar sem hún inniheldur litla fitu
 7. Bakið við 200°C í 23-27 mínútur
 8. Látið kólna í formunum á kæligrind í 5-10 mínútur

Pin It button on image hover