miðvikudagur, 30. júní 2010

súkkulaðibitakökur

Ég lagðist í smá tilraunir um jólin 2008 því mig langaði að geta bakað súkkulaðibitakökur fyrir okkur sem væru ekki stútfullar af smjöri og púðursykri. Börnin elska svona kökur og eftir að ég breytti baksturshefðum mínum þá fann ég enga löngun til þess að hræra þessum hráefnum saman ásamt fleiri grömmum af konsúm súkkulaði. Mín útgáfa er auðvitað kaloríurík en ég nota hollara hráefni. Þó ég segi sjálf frá þá eru kökurnar svakalega góðar og ég hef fengið mikið lof fyrir þær. Myndina fékk ég að láni hjá CafeSigrun því vandamálið hingað til hefur verið það að börnin mín og eiginmaður (já, já, ég líka) eru svo fljót að klára þær að ég hreinlega næ aldrei að taka mynd! Og það þýðir ekkert að spyrja mig hvort þessar geymist vel því það er eitthvað sem ég hef aldrei þurft að hafa áhyggjur af.

SÚKKULAÐIBITAKÖKUR

HRÁEFNI

 • 10 döðlur, steinlausar (leggið í bleyti í 30 mínútur)
 • 2 matskeiðar agave eða hreint hlynsíróp
 • 1 (hamingju)egg
 • 75 g hrásykur
 • 1-2 teskeiðar vanilludropar (úr heilsubúð)
 • 2 matskeiðar lífrænt hnetusmjör (eða heimagert)
 • 4 matskeiðar kókosolía (látið krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)
 • 3-4 matskeiðar kakó (sumir vilja örugglega minnka kakómagnið og nota frekar meira af súkkulaðibitum)
 • 75 g spelti (hér má líka nota 50 g á móti 50 g af heslihnetum sem búið er að þurrrista, taka hýðið af og mala í spað í matvinnsluvél, ég hef notað malaðar möndlur á móti speltinu líka og það kom mjög vel út
 • 1 teskeið matarsódi
 • ½ teskeið sjávarsalt, fínt
 • 1½ dl af hnetum/möndlum eftir smekk (pecan, cashew, möndlur og hýðislausar heslihnetur eru góð blanda, ég ef líka notað saltlausar hnetur eingöngu)
 • 50 g (eða meira) lífrænt dökkt súkkulaði eða mjólkursúkkulaði t.d. frá Green & Black's eða Rapunzel. Veljið semi-sweet (ca. 50%) eða mjólkursúkkulaði ef þið eruð að baka fyrir börn því 70% súkkulaðið er of rammt fyrir þau
 • nokkrar valhnetur, hakkaðar (má sleppa en þær gefa góðan keim og eru meinhollar)
 • sesamfræ eftir smekk (má sleppa en gera kökurnar bara betri)

AÐFERÐ

 1. Byrjið á því að skella öllum hnetum/möndlum og súkkulaði í matvinnsluvél og myljið gróft, setjið til hliðar
 2. Setjið egg, hrásykur, vanilludropa, hnetusmjör og kókosolíu í skál og hrærið saman með pískara, hrærið svo kakóinu rólega saman við
 3. Hellið vatni af döðlum og setjið þær í matvinnsluvél ásamt agave sírópi og maukið vel, blandið svo döðlumaukinu út í hina blönduna
 4. Blandið spelti, matarsóda og salti saman í skál og hrærið þessu saman við blönduna, bara rólega með sleif
 5. Bætið svo hnetum/möndlum/sesamfræjum ásamt súkkulaði út í deigið og hrærið rólega saman við með sleifinni
 6. Notið skeið (ca. kúfaða teskeið) til þess að raða kökunum á plötu með bökunarpappír
 7. Bakið við 170°C í blástursofni í 7-9 mínútur (ofnar eru mismunandi en ekki baka þessar of lengi). Ef ég hef kökurnar frekar stórar þá næ ég að gera 24-28 kökur en það má hafa þær minni og gera þá mun fleiri

sunnudagur, 13. júní 2010

veggie chilli


Að mínu mati getur chilli ekki klikkað, það er klassískt og það má leika sér endalaust með útgáfur og meðlæti. Mig hefur alltaf langað til að þróa mína eigin chilli uppskrift því áður fyrr fór ég eftir hinum og þessum uppskriftum og þó að útkoman væri góð þá fannst mér alltaf eitthvað vanta. Í fyrrasumar ákvað ég svo að ráðast í tilraunir og byrjaði á því að nóta hjá mér allt hráefni sem ég vildi nota í mína eigin uppskrift. Ég vildi ekki hafa hana of sterka vegna barnanna en þau eru nú ýmsu vön þegar kemur að sterkum réttum og það má nota meðlæti eins og sýrðan rjóma, ost eða guacamole til að deyfa bragðið örlítið. Börnin eru vitlaus í þetta og kalla þetta bara mömmu chilli. Uppskriftin er laus við kjöt enda finnst mér veggie chilli, eins og það kallast, miklu betra.

VEGGIE CHILLI

HRÁEFNI

 • 1 meðalstór laukur
 • 4 stór hvítlauksrif
 • 2 grænar paprikur, eða ein rauð og ein græn
 • 1 ferskt, grænt jalapeno eða grænt chilli aldin
 • 1½ matskeið extra virgin ólífuolía eða önnur góð olía
 • 1 matskeið oregano
 • 2 matskeiðar chilli, milt (notið minna ef þið notið sterkt chilli, logandi tungur eru ekki beint áhrifin sem við erum að sækjast eftir)
 • 1 matskeið blackstrap mólassi (eða hrásykur/agave)
 • 2 matskeiðar mulið broddkúmen eða fræ (cumin)
 • 1 teskeið mulinn kóríander
 • 1 teskeið mulið túrmerik
 • 1 dós nýrnabaunir
 • 1 dós pintóbaunir
 • 1 dós tómatar (eða 2 dósir og sleppa þá tómatmaukinu)
 • 2 matskeiðar tómatmauk, vel kúfaðar
 • 1 teskeið sjávarsalt

AÐFERÐ

 1. Byrjið á því að setja baunirnar í sigti, skolið af þeim og látið liggja í sigtinu þar til þið notið þær. Þið getið alveg notað 2 dósir af nýrnabaununum og sleppt pintóbaununum
 2. Blandið kryddum í litla skál og setjið til hliðar (notið vönduð krydd)
 3. Skerið laukinn og fínsaxið hvítlaukinn. Fræhreinsið paprikurnar og skerið í bita. Fræhreinsið jalapeno/chilli aldin og fínsaxið. Setjið þetta allt í stóran pott, veltið upp úr olíunni og léttsteikið á miðlungs hita
 4. Hellið kryddblöndunni út í pottinn og blandið vel saman við
 5. Bætið baunum, tómötum/tómatmauki og mólassa út í ásamt salti og blandið þessu rólega saman
 6. Stillið á fullan hita og látið suðuna koma upp. Setjið lok á pottinn, lækkið hitann, á minnstu eða næstminnstu stillingu, og látið malla með loki í 20 mínútur og án loks í 10 mínútur til viðbótar. (Ef þið hafið tíma þá er gott að láta þetta malla með loki í 30 mínútur og án loks í 10 mínútur.)

 • Ef ykkur finnst maísbaunir góðar þá má bæta ½-1 bolla út í pottinn undir lokin. Það má einnig nota eina dós til viðbótar af nýrna- eða pintóbaunum en þá finnst mér gott að bæta smá tómatmauki út í og jafnvel smá vatni.
 • Hugmyndir að meðlæti: sýrður rjómi, cheddar ostur, guacamole heimabakað brauð, lífrænt tortilla snakk, hrískökur eða hvað sem er svo lengi sem ykkur finnst það gott. Reynið bara að forðast óhollt meðlæti með þessu því þetta er jú holl og góð uppskrift.
 • Það er mjög gott að hita upp chilli daginn eftir. Ef þið eigið stóra fjölskyldu þá má hreinlega tvöfalda uppskriftina til að tryggja nægan afgang. Það er ekki slæmt að taka með sér chilli í vinnuna ef þið hafið aðstöðu til þess að hita það upp. Það má líka setja chilli og ost í samloku og grilla.

PS. Í mörgum búðum erlendis má fá lífræna hakkaða tómata í 500 ml fernum. Ef þið komist í slíkt þá getið þið notað tvær fernur í uppskriftina og notað þá þrjár dósir af baunum og þið þurfið að salta bara örlítið meira.

fimmtudagur, 10. júní 2010

pizzasósa

© Lísa Hjalt | Lönsj & Latte
Uppskriftina að pizzasósunni er nú að finna á Lönsj & Latte blogginu (smellið á tengilinn).

þriðjudagur, 1. júní 2010

kryddbrauð

© Lísa Hjalt | Lönsj & Latte
Uppskriftina að kryddbrauðinu er nú að finna á Lönsj & Latte blogginu (smellið á tengilinn).
Pin It button on image hover