föstudagur, 19. nóvember 2010

pekankaka

Ég heyrði einu sinni tónlistarmanninn Sting segja um lagið Come Down in Time eftir Elton John að hann vildi að hann hefði samið það sjálfur. Mér líður eins með pekankökuna hennar Sigrúnar; þetta er uppskrift sem ég vildi að ég hefði sett saman sjálf. Ég var búin að lofa sjálfri mér því að deila henni á síðunni þegar nýi CafeSigrun-vefurinn færi í loftið, sem gerðist einmitt í dag. Ég er búin að kenna mörgum að gera þessa og það bregst ekki, hún slær í gegn á þeim heimilum og fer beint í uppáhaldskökuflokkinn. Þetta er ein af þessum kökum sem þarf ekki að baka. Það eina sem þarf er matvinnsluvél með góðu blaði. Þegar sonur minn, þá 3ja ára, smakkaði hana fyrst þá hallaði hann aftur augunum og sagði svo: „Þetta er besta rjómakaka sem ég hef fengið.“ Auðvitað er enginn rjómi í kökunni (hún er samt æði með rjóma) en hann kallaði hana lengi vel brúnu rjómakökuna. Hér er uppskriftin og ég óska Sigrúnu til hamingju með nýju útgáfuna af vefnum sem er glæsilegur, hannaður af Jóhannesi eiginmanni hennar (líklega eini forritarinn í heiminum sem fær greitt í smákökum).

PEKANKAKA

BOTN

100 g pekanhnetur
50 g möndlur
90 g döðlur, steinlausar

FYLLING

100 g cashewhnetur
2 matskeiðar kókosolía, fljótandi
1 stór banani
4 matskeiðar agavesíróp (líka gott að nota hreint hlynsíróp á móti agave)
30 g kakó
1 teskeið vanilludropar (helst úr heilsubúð)
smá klípa sjávarsalt
25-50 ml sojamjólk
1 matskeið kakónibbur (cacao nibs) - má sleppa


BOTN

Leggið fyrst döðlurnar í bleyti í 20 mínútur.

Setjið möndlurnar í matvinnsluvél og malið þær gróft. Bætið pekanhnetunum út í og malið fínt án þess að mauka hneturnar.

Hellið vatninu af döðlunum og bætið þeim út í matvinnsluvélina. Maukið í vélinni þar til deigið er grófkornótt og helst vel saman ef þið klípið það saman með fingrunum.

Klæðið 21 cm lausbotna kökuform með matarfilmu (eða bökunarpappír: ég nota bökunarpappír ef ég er bara að gera hana fyrir heimilisfólk og ekki að fara að setja hana á sérstakan kökudisk). Þrýstið blöndunni ofan í botninn með fingrunum og upp á hliðarnar (svona 1,5-2 cm upp á hliðina, botninn þarf ekki að vera mjög þykkur). Geymið í kæliskáp á meðan þið útbúið fyllinguna.

FYLLING

Setjið cashewhneturnar í matvinnsluvélina og maukið alveg þar til hneturnar fara að mynda kekki, sem gæti tekið nokkrar mínútur, fer eftir því hversu öfluga vél þið notið.

Látið vélina vinna á meðan þið bætið kókosolíunni út í og maukið vel.

Afhýðið bananann og bætið honum út í, í 3-4 bitum, ásamt agavesírópi, kakó, vanilludropum og salti. Látið vélina vinna í um 30 sekúndur og hellið á meðan um 25 ml af sojamjólkinni út í blönduna.

Fyllingin verður mjög fljótandi og ætti að leka af sleif frekar hratt (en ekki í dropatali). Ef hún er mjög stíf, eins og búðingur, bætið þá um 25-35 ml af sojamjólk til viðbótar. Betra er þó að hafa blönduna stífari en mýkri því alltaf má bæta meira af sojamjólk ef þörf er á.

Næst er að setja fyllinguna í botninn. Ef bera á kökuna fram á kökudisk þá þarf að færa hana á diskinn fyrst og gæta þess að botninn brotni ekki. Hér þarf svolitla lagni: Best er að færa botninn með því að nota lausan sléttan botn úr kökuformi til að smeygja undir og renna botninum yfir á kökudiskinn.

Hellið fyllingunni út í botninn og jafnið út með sleikju. Geymið í kæliskáp í 2-3 klukkustundir.

Dreifið kakónibbum yfir kökuna, ef notaðar. Berið kökuna fram kalda.

fimmtudagur, 11. nóvember 2010

biscotti


Ég elska biscotti (ítalskar kexkökur) og baka þær reglulega enda veitt ég fátt betra en að dýfa biscotti ofan í kaffibollann minn, hvort sem ég er heima eða á ferðinni. Vinkonur mínar geta kvittað fyrir það að gjarnan leynist poki með biscotti í töskunni minni. Undanfarið hafa nokkrir vina minna sent mér póst og spurt hvaða uppskrift ég nota þannig að nú er rétti tíminn til að birta uppskriftina, sem er að finna á CafeSigrun vefnum (Sigrún fann hana á kaffisíðu einhvers hjólreiðakappa sem nú er  lokuð). Í þessari uppskrift er hrásykur og svo er jú holl fita í möndlunum þannig að það má borða þessar með góðri samvisku. Persónulega finnst mér best að nota möndlur með hýði og ég blanda saman grófu og fínu spelti þannig að kökurnar verði ríkari af trefjum.

BISCOTTI

HRÁEFNI

 • 110 g lífrænn hrásykur (ekki nota of grófan)
 • 1 (hamingju)egg
 • ½-1 teskeið vanillu- eða möndludropar úr heilsubúð
 • 240 g spelti (blandið grófu og fínu saman)
 • 2 teskeiðar vínsteinslyftiduft
 • 75 g möndlur með hýði, gróft saxaðar
 • kalt vatn

Það má bæta 2 msk af góðu kakó (lífrænt/fairtrade) til að gera súkkulaði biscotti og einnig má setja nokkra bita af lífrænu súkkulaði með hrásykri, t.d. frá Rapunzel eða Green & Black's.

AÐFERÐ

 1. Blandið saman hrásykri, eggi og vanillu- eða möndludropum (má líka nota lífrænan vanillusykur) í skál ásamt örlitlu vatni til þess að leysa upp sykurinn [ég nota 1 msk vatn]
 2. Blandið saman spelti, lyftidufti og salti í sér skál
 3. Blandið eggjablöndunni saman við speltið og hrærið með sleif þangað til eggið hefur blandast vel speltinu. Hér þarf líka að bæta við smávegis af köldu vatni, matskeið í einu [ég nota 3 msk], til að blandan verði nægilega blaut. Hún má samt ekki vera klístruð heldur þarf að vera þannig að hægt sé að hnoða hleifinn án þess að hún klessist við allt
 4. Saxið möndlurnar gróft og hrærið þeim saman við
 5. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og fletjið deigið út þannig að þið fáið um það bil 12 cm breiðan og 22 cm langan hleif sem er um 1-1,5 cm á hæð [ef blandan er klístruð, rétt bleytið þá hendurnar undir krananum og haldið áfram að móta hleifinn]
 6. Bakið hleifinn við 180°C í 40 mínútur (160° ef á blæstri) eða þangað til hann er orðinn nógu harður til að hægt sé að skera hann
 7. Takið úr ofninum, kælið í 5 mínútur og skerið hleifinn á ská í þunnar sneiðar (ca. 1 cm) með grófum brauðhníf. Skerið varlega til að möndlurnar brotni ekki úr deiginu
 8. Dreifið sneiðunum á bökunarpappírinn og setjið aftur í ofninn og bakið í 15 mínútur. Snúið þá sneiðunum við og bakið í 5-7 mínútur. Slökkvið svo á ofninum og leyfið biscotti kökunum að kólna inni í ofninum
 9. Biscotti kökurnar geymast vel í lokuðu íláti

Pin It button on image hover