föstudagur, 11. febrúar 2011

banana- og berjadrykkur (smoothie)

Ég á vinkonu sem á að vera á fljótandi fæði þessa dagana og að slaka á eftir kirtlatöku. Mér fannst því kjörið að birta eina smoothie uppskrift, ef hægt er að kalla þetta uppskrift. Ég myndi segja að ég væri frekar vanaföst þegar kemur að smoothie og í raun eru þetta bara örfáir drykkir sem ég skiptist á að gera. Bestir finnst mér drykkir með banana og berjum og yfirleitt fylgi ég aldrei uppskrift heldur læt bara tilfinninguna ráða. Ég á yfirleitt alltaf frosin ber í frystinum; bláber, hindber eða blöndu af skógarberjum. Stundum blanda ég þeim öllum saman, stundum nota ég bara bláber eða hindber, veltur bara á því hvað kroppurinn kallar á. Oft finnst mér gott að útbúa smoothie eftir matinn ef við höfum verið að borða sterkan mat, eins og indverskan eða mexíkóskan. Þá er eins og tönnin kalli á eitthvað sætt og stað þess að þenja sig út af ís eða súkkulaði þá er ágætt að fá bara nokkra sopa af smoothie.

BANANA- OG BERJADRYKKUR

HRÁEFNI

 • ca. 100-120 ml sojamjólk, undanrenna eða léttmjólk
 • 1 dl frosin ber (bláber, hindber eða skógarberjablanda)
 • 2-3 ísmolar
 • 1 stór banani
 • 3 möndlur með hýði
 • örlítið af agave (má sleppa)

AÐFERÐ

 1. Hellið mjólkinni í blandara
 2. Bætið frosnum berjum og ísmolum út í ásamt möndlum og leyfið blandaranum að mauka þetta í smá stund
 3. Bætið svo banananum út í ásamt agave ef þið notið það og maukið þar til drykkurinn er tilbúinn (veltur bara á því hversu öflugan blandara þið eigið)
 4. Hellið í stórt glas eða tvö minni og njótið

fimmtudagur, 3. febrúar 2011

núðlusúpa með kjúklingi og grænmeti

Áður fyrr vissi ég fátt betra í kulda en að fá mér núðlusúpu á ónefndu veitingahúsi í Reykjavík sem var borin fram með sítrónu, chilli-mauki og engifer. Eiginmaðurinn kynnti mig fyrir þessari dásemd en kunningjahópur hans hittist þarna reglulega og fékk sér súpu. Við vorum í Köben í einhverju kuldakasti í desember 2009 og dauðlangaði í súpuna. Það var ekkert annað í stöðunni en að ráðast í tilraunir þar til réttu nammi namm hljóðin heyrðust við borðið. Síðan þá hefur súpan verið svo til vikulega á okkar borðum í köldu veðri og hjá nokkrum öðrum sem fengið hafa uppskriftina. Einn kosturinn við hana er sá að það er einfalt að útbúa hana. Ég nota í flestum tilfellum lífrænar gulrætur í súpuna og þar sem ég nota engifer í hana ber ég hana ekki fram með fersku engifer. Við skerum þó alltaf sítrónu og  kreistum út í og notum svo örlítið af Sambal Oelek chilli-mauki. Það eru tvö mikilvæg atriði í þessari súpugerð: Það er að nota gæða kjúklingateninga, helst lífræna, og gæða núðlur. Ég hef gert þessa súpu með síðri vörum og þetta var bara ekki sama súpan. Ég mæli því með að spara ekki þegar kemur að þessu hráefni. (Myndin er tekin áður en kjúklingurinn og núðlurnar fóru ofan í pottinn.)

NÚÐLUSÚPA MEÐ KJÚKLINGI OG GRÆNMETI

HRÁEFNI

 • 3 lítrar vatn
 • 4 kjúklingateningar, lífrænir
 • 3 stórir hvílauksgeirar, fínsaxaðir
 • engifer (15-20 g), fínsaxað
 • 5-6 gulrætur, fyrst sneiddar nokkuð gróft og hver hluti skorinn langsum í fernt
 • 1 blaðlaukur, einungis græni hlutinn notaður og skorinn í ca. 2 cm langar sneiðar, eða græni hlutinn af einu vorlauksbúnti
 • 300-400 g kjúklingur, skorinn í frekar smá bita
 • 200-275 g núðlur (veltur á þykkt núðlanna)

AÐFERÐ

 1. Sjóðið vatnið í stórum potti með loki (til að flýta fyrir má sjóða vatnið fyrst í hraðsuðukatli)
 2. Bætið kjúklingateningunum út í ásamt fínsöxuðum hvítlauk og engifer (ef þið eigið ekki gæða teninga þá má nota það sem ég kalla venjulega en þá þarf rétt aðeins að salta líka með sjávarsalti)
 3. Bætið svo sneiddum gulrótum og blaðlauk/vorlauk út í og látið malla í 5 mínútur með loki
 4. Bætið kjúklingabitunum út í og sjóðið súpuna í 8-10 mínútur til viðbótar með loki
 5. Það fer eftir því hvernig núðlur þið notið en yfirleitt þarf ekki að sjóða núðlur nema í ca. fjórar mínútur. Bætið núðlunum út í ca. 4-5 mínútum áður en kjúklingurinn er tilbúinn
 6. Berið súpuna fram með chilli-mauki og sítrónubitum til að kreista út í. Ef þið viljið meira engifer þá getið þið að sjálfsögðu notað meira í súpuna sjálfa eða borið það fram ferskt og rifið

PS. Við erum fimm og yfirleitt náum við svona nokkurn veginn að klára upp úr pottinum, enda eru börnin dugleg að borða. Núðlusúpur geymast ekki vel og því finnst mér best að veiða kjúklinginn og gulræturnar upp úr pottinum ef það verður afgangur. Það má svo steikja þetta tvennt daginn eftir upp úr sojasósu og bera fram með núðlum eða grjónum.

þriðjudagur, 1. febrúar 2011

pönnukökur


Pönnukökur á sunnudögum er eitthvað sem ætti að vera fært í lög. Það er bara eitthvað dásamlegt við það að borða pönnukökur með sultu og rjóma með sunnudagskaffinu. Kannski er það minningin um gamla tíma sem fylgir pönnukökugerð; mér finnst alltaf eins og ég sé stödd í eldhúsinu hjá mömmu eða ömmu. Yfirleitt ber ég pönnsurnar fram með lífrænni bláberjasultu, hindberjasultu og rifsberjahlaupi, og stundum nota börnin lífrænt eða heimagert súkkulaðihnetusmjör með rjómanum. En stundum setjum við nú bara hrásykur á þær og rúllum þeim upp. [Uppfærsla 6. okt '14: Uppskriftin sem ég birti hér fyrst í febrúar 2011 kom frá (Cafe)Sigrúnu vinkonu minni en á einhverjum punkti byrjaði ég að leika mér með hana og þetta er uppskriftin sem ég nota í dag.]

PÖNNUKÖKUR

HRÁEFNI

 • 250 g fínt spelti
 • 1½-2 teskeiðar vínteinslyftiduft
 • má sleppa: klípa fínt sjávarsalt
 • 2-3 (hamingju)egg
 • 500 ml mjólk
 • 1 teskeið vanilludropar úr heilsubúð
 • 1½-2 matskeiðar jurtaolía

AÐFERÐ

 1. Blandið saman spelti og lyftidufti (og salti ef notað) í stórri skál
 2. Myndið holu í speltið, setjið eggin í holuna og bara rétt hrærið með pískara til að brjóta rauðurnar. Hellið svo mjólkinni rólega út í og hrærið allan tímann með pískara þar til deigið er kekklaust
 3. Bætið svo vanilludropunum og olíunni út í og hrærið saman við
 4. Ég nota ekki þessar klassísku íslensku pönnur þannig að ég byrja bara á því að bera þunnt lag af olíu með þurrku á pönnuna og læt hana svo hitna á meðalhita. Ég lækka hitann svo örlítið áður en ég byrja að gera pönnukökurnar. Ég geri mínar ekki mjög þunnar en það er bara smekksatriði
 5. Ef þið eruð nýgræðingar á sviði pönnukökugerðar þá hafið í huga að æfingin skapar meistarann og ljótar pönnukökur eru betri en margt annað. Aðalatriðið er bara að nota ausu til þess að koma deiginu hratt og vel á pönnuna og setja svo ausuna aftur í skálina. Notið mjúkan spaða til þess að snúa pönnukökunni við og færa hana á disk


ný síða tekin í notkun

Kæru notendur

Verið velkomin á nýja síðu. Uppskriftirnar sem voru á þeirri eldri eru allar hér í sömu röð.

Góðar stundir í eldhúsinu,
Lísa Hjalt

Pin It button on image hover