sunnudagur, 29. desember 2013

skonsur

Uppskriftin að skonsunum varð til vegna einskærrar leti af minni hálfu. Ég er búin að vera að leika mér lengi að púsla saman uppskrift að amerískum pönnukökum og er alltaf að gera breytingar á henni. Það var einn sunnudagsmorgun sem ég ætlaði að negla niður lokaútgáfu þegar mér fannst ameríski pönnukökuandinn bara ekki vera yfir mér og auk þess nennti ég ekki að þeyta eggjahvítur. Ég horfði á krotið í glósubókinni og hugsaði með mér að ég gæti gert úr þessu skonsur með smá breytingum. Síðan þá hafa þessar oft verið í morgunmatinn á sunnudögum - ég er einmitt að gera þær núna - enda tekur litla stund að skella í þær. Það er ekki mikil olía í þeim þannig að þið aukið hana bara ef ykkur finnst þær of þurrar. Við hjónin borðum þær yfirleitt með osti og sultu en krakkarnir taka oftast fram agave- eða hlynsírópið. Mér finnst líka gott að borða þær með t.d. eggjasalati ef ég á það til.

SKONSUR

HRÁEFNI

 • 325 g spelti (2½ bollar)
 • 2 matskeiðar hrásykur, lífrænn
 • 1 matskeið agave
 • 2-2½ teskeið vínsteinslyftiduft
 • ½ teskeið sjávarsalt, fínt
 • 2 stór egg
 • 400 ml mjólk/sojamjólk
 • 2½ matskeiðar kókosolía eða önnur góð jurtaolía

AÐFERÐ

 1. Blandið þurrefnum saman í stórri bökunarskál
 2. Myndið holu í speltið, setið eggin í holuna og rétt hrærið með pískara til að brjóta rauðurnar. Hellið svo mjólkinni rólega út í og hrærið allan tímann með pískara þar til deigið er kekklaust
 3. Bætið agave og kókosolíu út í og hrærið vel saman við (ef olían er í föstu formi látið þá krukkuna standa í heitu vatni í smá stund)
 4. Berið þunnt lag af kókosolíu á pönnu og látið pönnuna hitna á miðlungshita (ég byrja á stillingu 6 af 9 og lækka fljótlega niður í 5 eða 4 þegar skonsurnar verða full dökkar. Ef pannan verður of heit þá er gott að fjarlægja hana af hellunni í eitt augnablik. Ef þið notið gas þá myndi ég hafa hitann frekar lágan)
 5. Notið ausu til að hella deigi á pönnuna og þegar loftbólur hafa myndast á yfirborðinu þá snúið þið skonsunni við með mjúkum spaða. Þetta getur tekið um 2 mínútur en það tekur minni tíma að baka hina hliðina. Færið skonsuna svo yfir á disk og staflið næstu skonsum ofan á (ég næ ca. 12 skonsum úr deiginu)
 6. Berið fram með osti og sultu, hreinu hlynsírópi eða agave, eða hverju sem ykkur þykir gott og er í hollari kantinum

mánudagur, 16. desember 2013

marengstoppar (súkkulaði)

© Lísa Hjalt | Lönsj & Latte
Uppskriftina að marengstoppum (með súkkulaði og súkkulaðisósu) er nú að finna á Lönsj & Latte blogginu (smellið á tengilinn).

fimmtudagur, 12. desember 2013

súkkulaðikrem eða -sósa

Yngri dóttir okkar átti afmæli í gær og þar sem hún elskar marengs þá skellti ég í marengstoppa sem ég ber fram með þeyttum rjóma, ferskum berjum og heimagerðri súkkulaðisósu. Ég deildi einmitt mynd á Facebook síðunni í gær þegar ég var að baka og lofaði uppskrift, sem ég birti fljótlega. En ég áttaði mig á því þegar ég var að útbúa sósuna að ég var búin að lofa að deila nýju súkkulaðikremi með ykkur, kremi sem ég er farin að nota á skúffukökuna. Ég nota sömu uppskrift þegar ég geri sósu fyrir marengstoppa en eyk þá rétt aðeins vatnið til að hafa það meira fljótandi. Sykur telst náttúrlega aldrei vera hollusta en mér líður betur að blanda saman lífrænum hrásykri við agave síróp til að gera krem heldur en að nota flórsykur. Ég hef ekki notað flórsykur síðan 2006 og hef aldrei saknað hans. Það er fljótlegt að útbúa kremið en hafið í huga að það þarf að standa í klukkutíma fyrir notkun.

SÚKKULAÐIKREM EÐA -SÓSA

HRÁEFNI

 • 3 matskeiðar gott kakó, helst lífrænt/fair-trade
 • 1½ matskeið lífrænn hrásykur
 • 2½ matskeið agave
 • 3-3½ matskeiðar vatn (4½-5 msk = ca. 75 ml ef súkkulaðisósa)
 • lítill bútur (20 g) lífrænt dökkt súkkulaði eða mjólkursúkkulaði
 • má sleppa: klípa sjávarsalt, fínt

AÐFERÐ

 1. Setjið allt hráefnið í lítinn pott eða pönnu
 2. Hitið við meðalhita þar til það fer að sjóða og hrærið rólega á meðan. Þegar suðan er komin upp þá fjarlægið þið pottinn/pönnuna af hellunni
 3. Hellið kreminu í skál og leyfið því að standa í klukkutíma fyrir notkun

þriðjudagur, 15. október 2013

sætkartöflusúpa með ristuðum graskersfræjum

Þessi súpa gerist varla haustlegri. Ég fann hana á vefsíðu Sweet Paul (mæli með nettímaritinu þeirra sem er fallegt, inniheldur uppskriftir og fleira, og er ókeypis) og gerði bara minniháttar breytingar á henni: bætti kókosolíu sem valmöguleika, notaði gríska jógúrt í stað rjóma og bætti engifer. Ég er ekki búin að smakka hana enn þá með fersku timían en er viss um að það gefi skemmtilegan keim.

SÆTKARTÖFLUSÚPA MEÐ RISTUÐUM GRASKERSFRÆJUM

HRÁEFNI

 • 1 laukur
 • 1 hvítlauksrif
 • valmöguleiki: lítill bútur ferskt engifer (ca. á stærð við tening)
 • 4 stórar sætar kartöflur
 • 3 stórar gulrætur
 • 1½-2 matskeiðar ólífuolía eða kókosolía (2 í upprunalegu uppskriftinni)
 • 2 lífrænir grænmetisteningar (eða kjúklinga-)
 • 1 lítri vatn
 • 190 ml grísk jógúrt (rjómi í upprunalegu uppskriftinni)
 • ¼ teskeið mulið chilli
 • ¼ teskeið nýmalaður svartur pipar
 • skreytið með ristuðum graskersfræjum, greinum af fersku timían og grískri jógúrt (eða rjóma)

AÐFERÐ

 1. Afhýðið/flysjið og skerið laukinn, sætu kartöflurnar, gulræturnar og engiferið
 2. Léttsteikið laukinn og grænmetið í stórum potti
 3. Bætið grænmetisteningum og vatni út í og látið suðuna koma upp, minnkið þá hitann og stillið á lágan eða miðlungs hita
 4. Sjóðið í um 25 mínútur þar til grænmetið er orðið mjúkt
 5. Notið töfrasprota til að mauka súpuna (má líka nota matvinnsluvél en betra þá að láta hana kólna á undan). Bætið grísku jógúrtinni (eða rjóma) út í til að þykkja súpuna. Hrærið og látið suðuna koma upp
 6. Kryddið með chilli og svörtum pipar. Bætið salti út í ef ykkur finnst það vanta
 7. Ristið graskersfræ á pönnu
 8. Berið súpuna fram í skálum skreytta með graskersfræjum, greinum af fersku timían og grískri jógúrt (eða rjóma)

fimmtudagur, 8. ágúst 2013

grænmetisbaka með kartöflum og vorlauk

Kannski væri bara réttast að kalla þessa uppskrift karöflur með smá böku til hliðar! Það er næstum því óeðlilegt hversu hrifið heimilisfólkið mitt er af kartöflum og því nota ég eins mikið af þeim og rúmast í bökudisknum. Ólíkt mörgum frönskum grænmetisbökum (quiche) þá eru ekki 5 egg og rjómi í þessari og heldur ekki heilt fjall af smjöri í botninum. Í raun er ekkert smjör í honum. Það þarf hvorki að setja deigið í plastfilmu og láta það standa né að forbaka botninn. Hljómar það ekki bara nokkuð vel? Ef þið hafið keypt deig í svona bökur hingað til þá er kominn tími til að láta af þeirri iðju og gera þetta sjálf. Það er auðveldara en þið haldið og hollara. Ef þið eruð hrifin af kartöflum þá vona ég að ykkur líki bakan en ég á eftir að deila fleiri uppskriftum af grænmetisbökum hér á síðunni. Nokkrir punktar varðandi botninn: Það eru til margar tegundir af spelti og í þennan botn hef ég notað tegund sem aðallega er notuð í brauðbakstur (týpa 630 sem er þýsk flokkun á mjöli). Þegar ég var að gera tilraunir með botna í bökur þá fannst mér bara svo gott að rúlla deiginu út þannig að ég hef bara haldið mig við þessa tegund í bökubakstri. Hafið þetta í huga því stundum þarf maður aðeins að stilla af magnið af speltinu eftir því hvaða tegund maður notar. Fyrir ykkur sem notið ekki bollamál: Einn bolli (250 ml) af spelti vegur um 130 grömm en tegundin af speltinu sem ég nota í botninn vegur um 165-170 g.

GRÆNMETISBAKA MEÐ KARTÖFLUM OG VORLAUK

HRÁEFNI

FYLLING

 • 4 stórar karöflur (ca. 750 g), forsoðnar í 20 mínútur
 • 2 egg
 • 250 g kotasæla
 • 2 teskeiðar (lífrænt) sinnep
 • 1 teskeið steinselja, þurrkuð
 • 1 teskeið hvítlaukssalt
 • ¼ teskeið rósmarín, þurrkað
 • ¼ teskeið sjávarsalt
 • 7 cm bútur af grænum hluta eins vorlauksbúnts, sneiddur
 • 2 handfylli (ca. 50 g) af blönduðum salatblöðum eða spínati
 • Ofan á fyllinguna: 75-100 g rifinn ostur og örlítið af ferskum rifnum parmesan

BOTN

 • 1¼ bolli spelti (sjá inngang)
 • ½ teskeið sjávarsalt
 • 2½ matskeiðar lífræn sólblómaolía
 • 4 matskeiðar vatn

AÐFERÐ

 1. Byrjið á að forsjóða kartöflurnar ca. klukkutíma áður en þið byrjið á grænmetisbökunni: Sjóðið þær í 20 mínútur án loks. Hellið vatninu af og leyfið þeim að kólna
 2. Í stóra skál skulið þið blanda saman eggjum (það má hræra þau létt), kotasælu, sinnepi, kryddjurtum, salti og salatblöðum
 3. Takið vorlauksbúntið og skerið 7 cm bút af græna hlutanum og sneiðið nokkuð fínt. Bætið saman við og setjið skálina til hliðar á meðan þið gerið botninn
 4. Fyrir botninn: Sigtið speltið og saltið í aðra stóra skál. Bætið olíu og vatni í skálina og blandið rólega saman með sleif. Notið hendurnar til þess að hnoða deigið örlítið í skálinni til að fá tilfinningu fyrir áferðinni. Ef það vill molna þá þurfið þið aðeins meiri olíu; ef það er of olíukennt þá notið þið meira spelti. (Ef það þarf meiri olíu, setjið þá bara nokkra dropa í lófann og hnoðið deigið aðeins í höndunum þar til áferðin verður rétt)
 5. Stráið spelti á borðplötu og mótið kúlu úr deiginu. Fletjið það út með kökukefli þar til þið hafið hring sem er um 28 cm að þvermáli. Notið örlítið af olíu til að smyrja 24 cm bökudisk og setjið deigið í formið. Það er ágætt að stinga á nokkrum stöðum í botninn með gaffli
 6. Flysjið kartöflurnar, skerið þær í bita og blandið þeim saman við fyllinguna. Hellið svo fyllingunni ofan í botninn, jafnið út og stráið ostinum yfir
 7. Bakið við 180°C í 50-55 mínútur þar til osturinn er orðinn gullinbrúnn
 8. Leyfið bökunni að standa í um 5 mínútur áður en þið berið hana fram


þriðjudagur, 9. júlí 2013

sveppasalat


Á laugardaginn kom ég við í tímaritabúð og var að blaða í hinum og þessum tímaritum. Ég fletti í gegnum franska matarblaðið Saveurs og sá mynd af sveppasalati sem var aðeins of girnilegt. Ég vissi að það léti mig ekki friði fyrr en ég smakkaði það þannig að það var ákveðið að bera salatið fram sem meðlæti sama kvöld. Ég skildi ekki alveg öll orðin í aðferðarlýsingunni en ég lagði innihaldið á minnið og þetta er mín útgáfa af salatinu (skammturinn í blaðinu var mun stærri því þeir notuðu 1 kíló af sveppum). Að útbúa salatið gæti ekki verið einfaldara en hafið í huga að það þarf að marínera sveppina í tvær klukkustundir. Ég bar það fram með grilluðum kjúklingaleggjum og kúskús og eins og eiginmaðurinn orðaði það þá var það óvenjulega gott í einfaldleika sínum. Ég er alveg sammála.

SVEPPASALAT

300 g sveppir
1½ matskeið jómfrúarólífuolía
safi úr ca. ⅓ af sítrónu
sjávarsalt
væn lúka af ferskum kóríander


Sneiðið sveppina (eða sparið tíma og kaupið þá sneidda) og setjið þá í stóra skál ásamt ólífuolíu, sítrónusafa og salti. Setjið plastfilmu yfir skálina og marínerið sveppina í tvær klukkustundir. Ef möguleiki, hrærið þá létt í skálinni af og til.

Saxið ferskan kóríander og blandið saman við áður en þið berið salatið fram.

miðvikudagur, 26. júní 2013

quinoa búðingur með grískri jógúrt og jarðarberjum

© Lísa Hjalt | Lönsj & Latte
Uppskriftina að quinoa-búðingnum er nú að finna á Lönsj & Latte blogginu (smellið á tengilinn).

miðvikudagur, 15. maí 2013

hrísgrjón með indverskum kryddum og rúsínum

Þessi grjón eru svipuð þeim sem ég birti um daginn en í þessa uppskrift eru ekki notaðir negulnaglar og piparkorn. Að vísu er þetta tvennt að finna í garam masala kryddblöndunni en hún inniheldur mörg önnur krydd og er hér í litlu magni. Það má alveg sleppa rúsínunum en mér finnst náttúruleg sæta þeirra vera skemmtilegt mótvægi við bragð indversku kryddanna. Ég segi það enn og aftur að þið getið breytt kryddhlutföllum alveg eins og þið viljið og skipt út kryddum ef bragðið er ykkur ekki að skapi, og ef þið viljið meira saltbragð af grjónunum þá er fínt nota smá Maldon salt þegar þau eru komin á diskinn.

HRÍSGRJÓN MEÐ INDVERSKUM KRYDDUM OG RÚSÍNUM

HRÁEFNI

 • 1½ bolli (300 g) basmati hrísgrjón
 • 3 bollar (750 ml) soðið vatn
 • 1 lífrænn grænmetisteningur
 • 2 teskeiðar gæða jurtaolía (eða ghee)
 • ½ teskeið broddkúmenfræ (cumin seeds)
 • ¼ teskeið sinnepsfræ
 • ögn af chilli flögum
 • ½ teskeið mulið túrmerik
 • ¼ teskeið garam masala
 • ¼ teskeið mulinn kóríander
 • handfylli af rúsínum

AÐFERÐ

 1. Skolið grjónin í sigti og geymið þau í sigtinu þar til þið þurfið að nota þau
 2. Hellið soðna vatninu (ég sýð það í hraðsuðukatli til að flýta fyrir) í stóra könnu og látið grænmetisteninginn leysast upp í því
 3. Hitið olíuna í potti á meðalhita (potturinn þarf að vera nógu stór til að sjóða grjónin) og bætið svo broddkúmen- og sinnepsfræjum út í ásamt chilli flögum. Leyfið þessu að liggja í olíunni þar til fræin fara að poppa. Þar sem lítil olía er notuð þá er óþarfi að hræra í fræjunum í pottinum, sjáið bara til þess að þau liggi í olíunni
 4. Um leið og fræin byrja að poppa þá bætið þið soðinu út í ásamt grjónum, túrmerik, garam masala og kóríander og hrærið rólega saman
 5. Notið hæsta hita þar til vatnið fer að sjóða (tekur stutta stund) og stillið þá hitann á lægsta og sjóðið grjónin í 12-15 mínútur. Notið lok á pottinn en skiljið eftir smá rifu til þess að hleypa gufunni út
 6. Þegar um þrjár mínútur eða svo eru eftir af suðutíma grjónanna dreifið þá handfylli af rúsínum yfir þau en ekki hræra neitt, þið hrærið bara rúsínunum saman við áður en þið berið grjónin fram


þriðjudagur, 23. apríl 2013

hrísgrjón með indverskum kryddum

Um daginn var bóndinn að grilla kjúkling og spurði hvort ég væri til í að útbúa góð grjón til að bera fram með honum. Með því átti hann við grjón með einhvers konar kryddblöndu. Ég hef leikið mér að því í gegnum tíðina að bragðbæta grjón með alls kyns kryddum og jurtum og í þetta sinn ákvað ég að skrifa niður það sem ég notaði til þess að deila hér á blogginu. Ég sjálf er hrifin af einföldum grillmat, ég er lítið fyrir rjómasósur eða of margar tegundir af meðlæti með grilluðu kjöti. Einföld salöt eða grjón finnst mér alltaf eiga vel við. Stundum er nú bara ágætt að setja tamarisósu út á grjón en ég neita því ekki að það er gaman að bæta við indverskum kryddum til að skapa skemmtilegri stemningu. Ég hef sagt það áður að þessar uppskriftir mínar eru ekkert heilagar, þið getið breytt kryddhlutföllum alveg eins og þið viljið og skipt út kryddum ef bragðið er ykkur ekki að skapi. Ég mæli með því að fjarlægja negulnaglana og piparkornin áður en þið berið þessi grjón fram og ef þið viljið meira saltbragð af grjónunum þá er fínt nota smá Maldon salt þegar grjónin eru komin á diskinn.

HRÍSGRJÓN MEÐ INDVERSKUM KRYDDUM

HRÁEFNI

 • 1½ bolli (300 g) basmati hrísgrjón
 • 3 bollar (750 ml) soðið vatn
 • 1 lífrænn grænmetisteningur
 • 2 teskeiðar gæða jurtaolía (eða ghee)
 • ¼ teskeið sinnepsfræ
 • ¼ teskeið kóríanderfræ
 • 1 teskeið broddkúmenfræ (cumin seeds)
 • 4 svört piparkorn
 • 3 negulnaglar
 • ögn af chilli flögum
 • ½ teskeið mulið túrmerik

AÐFERÐ

 1. Skolið grjónin í sigti og geymið þau í sigtinu þar til þið þurfið að nota þau
 2. Hellið soðna vatninu (ég sýð það í hraðsuðukatli til að flýta fyrir) í stóra könnu og látið grænmetisteninginn leysast upp í því
 3. Hitið olíuna í potti á meðalhita (potturinn þarf að vera nógu stór til að sjóða grjónin) og bætið svo öllum kryddunum út í nema túrmerikinu. Leyfið kryddunum að liggja í olíunni þar til fræin fara að poppa. Þar sem einungis eru tvær teskeiðar af olíu í uppskriftinni þá þarf ekkert að vera að velta kryddunum til og frá í pottinum, sjáið bara til þess að þau liggi í olíunni
 4. Um leið og fræin byrja að poppa þá bætið þið soðinu út í ásamt grjónunum og túrmerikinu og hrærið rólega saman
 5. Notið hæsta hita þar til vatnið fer að sjóða og stillið þá hitann á lægsta og sjóðið grjónin í 12-15 mínútur. Notið lok á pottinn en skiljið eftir smá rifu til þess að hleypa gufunni út
 6. Áður en þið berið grjónin fram þá mæli ég með því að fjarlægja negulnaglana og piparkornin, einkum ef börn sitja til borðsmánudagur, 4. mars 2013

tómatsúpa með hvítlauk og timían

Á þessum bæ kallast þessi tómatsúpa ekkert annað en Mooney súpa því ég smakkaði hana fyrst hjá vinkonu minni, sem ég kalla Mooney. Ef mig minnir rétt þá birtist uppskriftin í aukablaði með Morgunblaðinu fyrir mörgum árum síðan en ég veit ekki hver er höfundurinn. Það sem heillaði mig við súpuna var hversu einfalt var að útbúa hana og því finnst mér hún kjörin á köldum dögum þegar ég hef lítinn tíma til að stússast í eldhúsinu. Ég er búin að breyta upprunalegu uppskriftinni lítilsháttar án þess þó að breyta hlutföllunum. Ég bætti við rauðum linsubaunum, kóríander og papriku.

TÓMATSÚPA MEÐ HVÍTLAUK OG TIMÍAN

HRÁEFNI

 • 1-2 matskeiðar extra virgin ólífuolía
 • 1 laukur, fínsaxaður
 • 2 hvítlauksrif, fínsöxuð
 • 2 grænmetisteningar, helst lífrænir og gerlausir
 • 2 dósir tómatar (2 x 400 g)
 • 1.2 lítrar vatn
 • má sleppa: 2 matskeiðar rauðar linsubaunir
 • 2 teskeiðar timían
 • ¼-½ teskeið mulinn kóríander
 • ¼ teskeið paprika
 • 1 teskeið sjávarsalt
 • nýmalaður svartur pipar eftir smekk

AÐFERÐ

 1. Samkvæmt upprunalegu uppskriftinni var öllum hráefnum skellt í pott í einu en mér finnst betra að byrja á því að bara rétt aðeins steikja laukinn og hvítlaukinn í olíunni. Það þarf ekki að brúna laukinn heldur bara mýkja hann
 2. Bætið restinni af hráefninu út í og látið súpuna malla í 30 mínútur
 3. Ef ykkur finnst það betra þá má mauka súpuna með töfrasprota til að ná fram silkimjúkri áferð (það má líka mauka hana í matvinnsluvél en þá er ráðlagt að leyfa henni að kólna áður og hita svo aftur upp áður en súpan er borin fram)
 4. Berið súpuna fram með heimabökuðu brauði eða hvítlauksbrauði

fimmtudagur, 7. febrúar 2013

indverskt te (chai latte)

© Lísa Hjalt | Lönsj & Latte
Uppskriftina að indverska teinu er nú að finna á Lönsj & Latte blogginu (smellið á tengilinn).

fimmtudagur, 3. janúar 2013

sætkartöflumús með pekanhnetum


Gleðilegt ár! Það stóð alltaf til að deila þessari uppskrift fyrir jól en ég hreinlega komst ekki í að gera hana að degi til og smella af mynd. Ég tók því bara myndina á gamlaárskvöld rétt áður en við settumst niður til að njóta kalkúnamáltíðar. Þetta meðlæti er í alveg sérstöku uppáhaldi hjá okkur og minningin ljúf frá kvöldinu sem við smökkuðum það fyrst. Það var í október 2009 sem við vorum að halda upp á kanadísku þakkargjörðarhátíðina í fyrsta sinn með góðum vinum í íslenska konsúlatinu í Winnpeg, Manitoba. Þvílík dásemdar veisla sem það var! (Ég kom með rósakálið til að setja á borðið og hafði gert pekankökur og bláberja- og súkkulaðiís à la CafeSigrun í eftirrétt). Ég fékk að sjálfsögðu uppskriftina og við berum ekki kalkún á borð án þessarar sætkartöflumúsar. Ég veit ekki hvaðan upprunalega uppskriftin kemur nákvæmlega en hún ber nafnið Sweet Potatoes Supreme á ensku og í henni er talað um 4 bolla af sætkartöflumús. Ég nota 1200 g af sætum kartöflum og hef aldrei mælt í bollum hversu mikið af mús ég fæ úr þeim þannig að ég hef ekki hugmynd um hvort ég sé að nota of mikið eða lítið. Sætkartöflumúsina sjálfa geri ég annars samkvæmt upprunalegu uppskriftinni en er búin að breyta alveg efsta laginu, sem var lítið annað en smjör og sykur sem átti að bræða saman. Ég vil að náttúrulega sæta bragðið af sætu kartöflunum fái að njóta sín og skil ekki áráttu fólks að drekkja þeim í sykri eða sykurpúðum eins og ég hef séð suma gera. Ég elda jú aldrei með smjöri þannig að ég henti því út og nota bara örlitla kókosolíu í staðinn, enda finnst mér óþarfi að nota meiri fitu í réttinn þar sem pekanhneturnar eru ríkar af fitu.

SÆTKARTÖFLUMÚS MEÐ PEKANHNETUM

HRÁEFNI

SÆTKARTÖFLUMÚS

 • 1200 g sætar kartöflur
 • 2 matskeiðar mjólk/sojamjólk eða rjómi
 • 1 teskeið sjávarsalt
 • ¼ teskeið paprika

EFSTA LAG

 • 2 matskeiðar agave eða hreint hlynsíróp
 • 1½-2 matskeiðar kókosolía
 • 130-150 g pekanhnetur

AÐFERÐ

SÆTKARTÖFLUMÚS

 1. Byrjið á að flysja sætu kartöflurnar fyrir suðu. Skerið þær svo í fjóra bita; fyrst í tvennt og svo hvorn helming langsum
 2. Sjóðið vatn í stórum potti (bara eins mikið og þarf til að hylja kartöflurnar). Bætið sætu kartöflunum út í og sjóðið þar til mjúkar (tekur ca. 20 mínútur)
 3. Hellið vatninu af. Notið kartöflustöppu til að stappa kartöflurnar í pottinum þannig að úr verði sætkartöflumús með silkimjúkri áferð. Bætið mjólkinni, saltinu og paprikunni út í og blandið saman við
 4. Færið sætkartöflumúsina yfir í eldfast mót (mitt er hringlaga, þvermál 23 cm) og notið sleikju til að jafna hana út

EFSTA LAG

 1. Setjið agave/hlynsíróp og kókosolíu í litla skál og notið skeið til að bara rétt blanda þessu saman (ef olían er í föstu formi setjið þá krukkuna í skál með heitu vatni fyrir notkun). Dreifið svo yfir sætkartöflumúsina
 2. Dreifið þar næst pekanhnetunum yfir
 3. Hitið í ofni í ca. 15-20 mínútur (ég stilli minn á 200°C) og passið bara upp á að brenna ekki hneturnar

Pin It button on image hover