sunnudagur, 23. maí 2010

lasagna með svörtum baunum

Upphaflega var ég með nýrnabaunir í titli þessarar uppskriftar en í langan tíma hef ég notað svartar baunir og það er orðið vaninn. María dóttir mín var hvatinn að þessari uppskrift en hún er bókstaflega óð í lasagna. Þar sem ég er lítið hrifin af útgáfum með hakki þá langaði mig að nota baunir og þessi uppskrift fæddist svo til um leið og ég setti svuntuna á mig. Ef María mætti ráða þá væri þetta í matinn á hverju kvöldi. Hugmyndina að hvítu sósunni fékk ég góðfúslega lánaða hjá (Cafe)Sigrúnu og gerði smávægilegar breytingar.

LASAGNA MEÐ SVÖRTUM BAUNUM (EÐA NÝRNABAUNUM)

HRÁEFNI

RAUÐ SÓSA

 • ½ matskeið létt ólífuolía eða önnur góð olía
 • 1 laukur, fínsaxaður
 • 3 hvítlauksrif, fínsöxuð
 • 1 gul eða rauð paprika, skorin í litla bita
 • 1 gerlaus grænmetisteningur
 • 2 dósir tómatar
 • 1 matskeið óreganó
 • 1 matskeið fersk basilíka eða 1 teskeið þurrkuð
 • 1 teskeið sætt chilli
 • 1 teskeið hrásykur
 • 1 teskeið balsamedik (Modena)
 • 1 dós svartar baunir eða nýrnabaunir
 • sjávarsalt og nýmalaður svartur pipar eftir smekk
 • má sleppa: maísbaunir eftir smekk
 • má sleppa: ein lúka spínat, saxað gróft

HVÍT SÓSA

 • 1 stór dós kotasæla (ca. 500 g)
 • 2 (hamingju)egg
 • 280 g rifinn ostur (gott að nota mozzarellablöndu)
 • 1 teskeið múskat

ANNAÐ

 • 120 g rifinn ostur
 • ferskur parmesan ostur eftir smekk
 • ca. 250 g lasagnaplötur (helst án hvíts hveitis)

AÐFERÐ

RAUÐ SÓSA
 1. Setjið baunirnar í sigti, skolið af þeim og látið liggja í sigtinu þar til þið notið þær
 2. Veltið lauk upp úr olíu og steikið á pönnu við meðalhita þar til hann byrjar að mýkjast. Bætið papriku út í og loks hvítlauk og steikið í nokkrar mínútur
 3. Setjið grænmetistening á pönnuna og blandið saman við
 4. Bætið tómötum á pönnuna og hækkið hitann
 5. Blandið öllum kryddum, kryddjurtum, hrásykri og ediki saman við
 6. Skellið baunum út í (maís og spínati ef notað), saltið og piprið eftir smekk og stillið á lægsta eða meðalhita

HVÍT SÓSA

 1. Setjið kotasæluna í stóra skál, bætið eggi og eggjahvítu út í og veltið þessu saman
 2. Bætið 280 g af rifnum osti, kryddið með múskati og blandið saman
 1. Forhitið ofn samkvæmt leiðbeiningum á lasagnaplötupakka og stillið ofngrind neðst
 2. Slökkvið undir pönnunni, setjið smá af rauðri sósu í botninn á eldföstu móti og raðið lasagnaplötum ofan á
 3. Setjið hvíta sósu ofan á plöturnar, svo rauða sósu og aftur lasagnaplötur. Endurtakið eftir þörfum (sumir kjósa að hafa marga legi) og endið á restinni af hvítri og rauðri sósu
 4. Stráið 120 g af rifnum osti ásamt parmesan yfir og bakið neðst í ofni samkvæmt leiðbeiningum á lasagnaplötupakkanum (plöturnar sem ég nota kalla á 220°C í 25 mínútur)

Berið fram með til dæmis einföldu salati, grófu brauði eða hvítlauksbrauði. Það er mjög gott að nota gerlausa pizzabotnsuppskrift eða snittubrauðin á CafeSigrun til að útbúa hvítlauksbrauð. Ef ég nota snittubrauðin þá baka ég þau fyrr um daginn eða deginum áður og skelli í frystinn. Ég læt ólífuolíu, hvítlauk, oregano og örlítið sjávarsalt í litla skál og pensla heit brauðin/nýbakaðan pizzabotninn.

Uppfærsla 17/5 '11: Ég gerði lasagna í gær og notaði ferska basilíku í sósuna í staðinn fyrir kryddið sjálft. Þumalputtareglan er sú að gott er að nota 1 matskeið af fersku í staðinn fyrir 1 teskeið af kryddi. Það kom alla vega mjög vel út í gær. Ég á eftir að kaupa oregano plöntu og ætla að bæta úr því fljótlega og læt ykkur vita hvernig til tekst.

Pin It button on image hover