fimmtudagur, 3. febrúar 2011

núðlusúpa með kjúklingi og grænmeti

Áður fyrr vissi ég fátt betra í kulda en að fá mér núðlusúpu á ónefndu veitingahúsi í Reykjavík sem var borin fram með sítrónu, chilli-mauki og engifer. Eiginmaðurinn kynnti mig fyrir þessari dásemd en kunningjahópur hans hittist þarna reglulega og fékk sér súpu. Við vorum í Köben í einhverju kuldakasti í desember 2009 og dauðlangaði í súpuna. Það var ekkert annað í stöðunni en að ráðast í tilraunir þar til réttu nammi namm hljóðin heyrðust við borðið. Síðan þá hefur súpan verið svo til vikulega á okkar borðum í köldu veðri og hjá nokkrum öðrum sem fengið hafa uppskriftina. Einn kosturinn við hana er sá að það er einfalt að útbúa hana. Ég nota í flestum tilfellum lífrænar gulrætur í súpuna og þar sem ég nota engifer í hana ber ég hana ekki fram með fersku engifer. Við skerum þó alltaf sítrónu og  kreistum út í og notum svo örlítið af Sambal Oelek chilli-mauki. Það eru tvö mikilvæg atriði í þessari súpugerð: Það er að nota gæða kjúklingateninga, helst lífræna, og gæða núðlur. Ég hef gert þessa súpu með síðri vörum og þetta var bara ekki sama súpan. Ég mæli því með að spara ekki þegar kemur að þessu hráefni. (Myndin er tekin áður en kjúklingurinn og núðlurnar fóru ofan í pottinn.)

NÚÐLUSÚPA MEÐ KJÚKLINGI OG GRÆNMETI

HRÁEFNI

 • 3 lítrar vatn
 • 4 kjúklingateningar, lífrænir
 • 3 stórir hvílauksgeirar, fínsaxaðir
 • engifer (15-20 g), fínsaxað
 • 5-6 gulrætur, fyrst sneiddar nokkuð gróft og hver hluti skorinn langsum í fernt
 • 1 blaðlaukur, einungis græni hlutinn notaður og skorinn í ca. 2 cm langar sneiðar, eða græni hlutinn af einu vorlauksbúnti
 • 300-400 g kjúklingur, skorinn í frekar smá bita
 • 200-275 g núðlur (veltur á þykkt núðlanna)

AÐFERÐ

 1. Sjóðið vatnið í stórum potti með loki (til að flýta fyrir má sjóða vatnið fyrst í hraðsuðukatli)
 2. Bætið kjúklingateningunum út í ásamt fínsöxuðum hvítlauk og engifer (ef þið eigið ekki gæða teninga þá má nota það sem ég kalla venjulega en þá þarf rétt aðeins að salta líka með sjávarsalti)
 3. Bætið svo sneiddum gulrótum og blaðlauk/vorlauk út í og látið malla í 5 mínútur með loki
 4. Bætið kjúklingabitunum út í og sjóðið súpuna í 8-10 mínútur til viðbótar með loki
 5. Það fer eftir því hvernig núðlur þið notið en yfirleitt þarf ekki að sjóða núðlur nema í ca. fjórar mínútur. Bætið núðlunum út í ca. 4-5 mínútum áður en kjúklingurinn er tilbúinn
 6. Berið súpuna fram með chilli-mauki og sítrónubitum til að kreista út í. Ef þið viljið meira engifer þá getið þið að sjálfsögðu notað meira í súpuna sjálfa eða borið það fram ferskt og rifið

PS. Við erum fimm og yfirleitt náum við svona nokkurn veginn að klára upp úr pottinum, enda eru börnin dugleg að borða. Núðlusúpur geymast ekki vel og því finnst mér best að veiða kjúklinginn og gulræturnar upp úr pottinum ef það verður afgangur. Það má svo steikja þetta tvennt daginn eftir upp úr sojasósu og bera fram með núðlum eða grjónum.

Pin It button on image hover