fimmtudagur, 8. ágúst 2013

grænmetisbaka með kartöflum og vorlauk

Kannski væri bara réttast að kalla þessa uppskrift karöflur með smá böku til hliðar! Það er næstum því óeðlilegt hversu hrifið heimilisfólkið mitt er af kartöflum og því nota ég eins mikið af þeim og rúmast í bökudisknum. Ólíkt mörgum frönskum grænmetisbökum (quiche) þá eru ekki 5 egg og rjómi í þessari og heldur ekki heilt fjall af smjöri í botninum. Í raun er ekkert smjör í honum. Það þarf hvorki að setja deigið í plastfilmu og láta það standa né að forbaka botninn. Hljómar það ekki bara nokkuð vel? Ef þið hafið keypt deig í svona bökur hingað til þá er kominn tími til að láta af þeirri iðju og gera þetta sjálf. Það er auðveldara en þið haldið og hollara. Ef þið eruð hrifin af kartöflum þá vona ég að ykkur líki bakan en ég á eftir að deila fleiri uppskriftum af grænmetisbökum hér á síðunni. Nokkrir punktar varðandi botninn: Það eru til margar tegundir af spelti og í þennan botn hef ég notað tegund sem aðallega er notuð í brauðbakstur (týpa 630 sem er þýsk flokkun á mjöli). Þegar ég var að gera tilraunir með botna í bökur þá fannst mér bara svo gott að rúlla deiginu út þannig að ég hef bara haldið mig við þessa tegund í bökubakstri. Hafið þetta í huga því stundum þarf maður aðeins að stilla af magnið af speltinu eftir því hvaða tegund maður notar. Fyrir ykkur sem notið ekki bollamál: Einn bolli (250 ml) af spelti vegur um 130 grömm en tegundin af speltinu sem ég nota í botninn vegur um 165-170 g.

GRÆNMETISBAKA MEÐ KARTÖFLUM OG VORLAUK

HRÁEFNI

FYLLING

 • 4 stórar karöflur (ca. 750 g), forsoðnar í 20 mínútur
 • 2 egg
 • 250 g kotasæla
 • 2 teskeiðar (lífrænt) sinnep
 • 1 teskeið steinselja, þurrkuð
 • 1 teskeið hvítlaukssalt
 • ¼ teskeið rósmarín, þurrkað
 • ¼ teskeið sjávarsalt
 • 7 cm bútur af grænum hluta eins vorlauksbúnts, sneiddur
 • 2 handfylli (ca. 50 g) af blönduðum salatblöðum eða spínati
 • Ofan á fyllinguna: 75-100 g rifinn ostur og örlítið af ferskum rifnum parmesan

BOTN

 • 1¼ bolli spelti (sjá inngang)
 • ½ teskeið sjávarsalt
 • 2½ matskeiðar lífræn sólblómaolía
 • 4 matskeiðar vatn

AÐFERÐ

 1. Byrjið á að forsjóða kartöflurnar ca. klukkutíma áður en þið byrjið á grænmetisbökunni: Sjóðið þær í 20 mínútur án loks. Hellið vatninu af og leyfið þeim að kólna
 2. Í stóra skál skulið þið blanda saman eggjum (það má hræra þau létt), kotasælu, sinnepi, kryddjurtum, salti og salatblöðum
 3. Takið vorlauksbúntið og skerið 7 cm bút af græna hlutanum og sneiðið nokkuð fínt. Bætið saman við og setjið skálina til hliðar á meðan þið gerið botninn
 4. Fyrir botninn: Sigtið speltið og saltið í aðra stóra skál. Bætið olíu og vatni í skálina og blandið rólega saman með sleif. Notið hendurnar til þess að hnoða deigið örlítið í skálinni til að fá tilfinningu fyrir áferðinni. Ef það vill molna þá þurfið þið aðeins meiri olíu; ef það er of olíukennt þá notið þið meira spelti. (Ef það þarf meiri olíu, setjið þá bara nokkra dropa í lófann og hnoðið deigið aðeins í höndunum þar til áferðin verður rétt)
 5. Stráið spelti á borðplötu og mótið kúlu úr deiginu. Fletjið það út með kökukefli þar til þið hafið hring sem er um 28 cm að þvermáli. Notið örlítið af olíu til að smyrja 24 cm bökudisk og setjið deigið í formið. Það er ágætt að stinga á nokkrum stöðum í botninn með gaffli
 6. Flysjið kartöflurnar, skerið þær í bita og blandið þeim saman við fyllinguna. Hellið svo fyllingunni ofan í botninn, jafnið út og stráið ostinum yfir
 7. Bakið við 180°C í 50-55 mínútur þar til osturinn er orðinn gullinbrúnn
 8. Leyfið bökunni að standa í um 5 mínútur áður en þið berið hana fram


Pin It button on image hover