þriðjudagur, 15. október 2013

sætkartöflusúpa með ristuðum graskersfræjum

Þessi súpa gerist varla haustlegri. Ég fann hana á vefsíðu Sweet Paul (mæli með nettímaritinu þeirra sem er fallegt, inniheldur uppskriftir og fleira, og er ókeypis) og gerði bara minniháttar breytingar á henni: bætti kókosolíu sem valmöguleika, notaði gríska jógúrt í stað rjóma og bætti engifer. Ég er ekki búin að smakka hana enn þá með fersku timían en er viss um að það gefi skemmtilegan keim.

SÆTKARTÖFLUSÚPA MEÐ RISTUÐUM GRASKERSFRÆJUM

HRÁEFNI

 • 1 laukur
 • 1 hvítlauksrif
 • valmöguleiki: lítill bútur ferskt engifer (ca. á stærð við tening)
 • 4 stórar sætar kartöflur
 • 3 stórar gulrætur
 • 1½-2 matskeiðar ólífuolía eða kókosolía (2 í upprunalegu uppskriftinni)
 • 2 lífrænir grænmetisteningar (eða kjúklinga-)
 • 1 lítri vatn
 • 190 ml grísk jógúrt (rjómi í upprunalegu uppskriftinni)
 • ¼ teskeið mulið chilli
 • ¼ teskeið nýmalaður svartur pipar
 • skreytið með ristuðum graskersfræjum, greinum af fersku timían og grískri jógúrt (eða rjóma)

AÐFERÐ

 1. Afhýðið/flysjið og skerið laukinn, sætu kartöflurnar, gulræturnar og engiferið
 2. Léttsteikið laukinn og grænmetið í stórum potti
 3. Bætið grænmetisteningum og vatni út í og látið suðuna koma upp, minnkið þá hitann og stillið á lágan eða miðlungs hita
 4. Sjóðið í um 25 mínútur þar til grænmetið er orðið mjúkt
 5. Notið töfrasprota til að mauka súpuna (má líka nota matvinnsluvél en betra þá að láta hana kólna á undan). Bætið grísku jógúrtinni (eða rjóma) út í til að þykkja súpuna. Hrærið og látið suðuna koma upp
 6. Kryddið með chilli og svörtum pipar. Bætið salti út í ef ykkur finnst það vanta
 7. Ristið graskersfræ á pönnu
 8. Berið súpuna fram í skálum skreytta með graskersfræjum, greinum af fersku timían og grískri jógúrt (eða rjóma)

Pin It button on image hover