laugardagur, 24. júlí 2010

súkkulaðihnetusmjör (eða íssósa)

Uppskrift: Súkkulaðihnetusmjör (eða íssósa) · Lísa Hjalt
Ég kaupi stundum lífrænt súkkulaðihnetusmjör fyrir börnin því þeim finnst það gott ofan á brauð og hrískökur (ég kaupi aldrei Nutella eða svipaðar tegundir). Einhvern tíma þegar börnin sátu við borðið að smjatta á þessu þá fékk ég hugmyndina að prufa einn daginn að gera mitt eigið, bara til að sjá útkomuna. Þessi grófa útgáfa er í raun alfarið hugmynd barnanna. Ég valdi hráefnin og þau stóðu hérna og smökkuðu og sögðu mér nákvæmlega hvort þau vildu meiri sykur eða kakó o.s.frv. Uppskriftin ætti því að vera algjörlega skotheld fyrir krakkabragðlauka. Við skulum bara segja að þetta súkkulaðihnetusmjör sé gott fyrir krakka á öllum aldri því mmmmm hljóðin í mér og bóndanum voru ekkert minni (mér persónulega finnst þó betra að skipta út einni msk af hrásykri fyrir msk af agave, bara upp á áferðina). Ég geymi smjörið í ísskáp en vegna kókosolíunnar þá harnar það og því er gott að láta það aðeins standa áður en það er borið fram. Við notum þetta líka sem íssósu og ég verð að segja að það er algjört lostæti á ís (það þarf ekki að láta það standa áður en það er notað út á ís).

SÚKKULAÐIHNETUSMJÖR

HRÁEFNI

  • 100 g heslihnetur
  • 2 matskeiðar hrásykur (eða 1 msk og þá 3 msk agave)
  • 2 matskeiðar agave síróp
  • 1 teskeið vanillusykur, lífrænn
  • 2½ matskeiðar kakó, helst lífrænt/fair-trade
  • 3½-4 matskeiðar kókosolía (ef í föstu formi er gott að láta krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)

AÐFERÐ

  1. Byrjið á því að þurrrista heslihneturnar á pönnu. Það gæti tekið góðar 10 mínútur að fá hýðið til að losna. Kælið svo hneturnar og nuddið hýðið af með fingrunum, svona eins og hægt er
  2. Fínmalið hneturnar í matvinnsluvél eins vel og þið getið. Það getur verið ágætt að stöðva vélina á einhverjum punkti og rétt aðeins hræra í hnetunum með sleikju, haldið svo áfram að láta vélina ganga
  3. Bætið öllu öðru hráefni út í (byrjið með 3½ msk af kókosolíu) og látið vélina vinna vel. Ef þið notið útgáfu með minna af hrásykri og meira agave þá skulið þið byrja með 3 msk af kókosolíunni

PS. Ég er enn að tilraunast með útgáfu með silkimjúkri áferð (líklega þarf ég aðra matvinnsluvél því mín vinnur ekki nógu vel á hnetunum) og lofa að deila henni með ykkur þegar ég er orðin sátt.

Pin It button on image hover