fimmtudagur, 20. maí 2010

ávaxtakúlur

Þessar ávaxtakúlur eru í miklu uppáhaldi hjá mér og mínu fólki. Þær eru ekki bara ljúffengar og hollar heldur er minningin um það hvernig ég fann uppskriftina svo skemmtileg. Ég á vinkonu sem er mikill sælkeri og er óhrædd við að gera tilraunir í eldhúsinu. Einu sinni bauð hún mér heim til sín í mini-jólaboð, bara ég og hún og yndisleg jólastemning. Eftir ljúffenga máltíð sátum við með heimagerða latte og dökkt, lífrænt súkkulaði og flettum tímaritum með jólaþemum. Síðar um kvöldið útbjó hún heitt súkkulaði, setti dreitil af Baileys út í og bar fram með þeyttum rjóma. Ég var að fletta Bolig þegar ég rakst á þessa uppskrift sem birtist hér í sömu hlutföllum og í blaðinu góða. Það er svo gott að eiga ávaxtakúlurnar í kæli og næla sér í með kaffinu. Ég mæli með því að setja nokkrar í lítið, sætt nestisbox og hafa með í vinnuna/skólann.

ÁVAXTAKÚLUR

HRÁEFNI

  • 100 g þurrkaðar aprikósur (ef mögulegt, notið þá þessar brúnlituðu)
  • 100 g döðlur, steinlausar
  • ca. 100 g kókosmjöl (mér finnst betra að nota gróft)
  • ½ teskeið vanillusykur (notið lífrænan eða vanilludropa úr heilsubúð)
  • ca. 25 g kakó
  • 2-3 matskeiðar kókosolía (mér finnst 2 msk nóg, látið krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun til að fá fljótandi olíu)
  • kókosmjöl eða kakó til að velta kúlunum upp úr

AÐFERÐ

  1. Leggið aprikósur og döðlur í bleyti í 30 mínútur
  2. Hellið vatninu af ávöxtunum og setjið í matvinnsluvél ásamt kókosmjölinu í ca. hálfa mínútu
  3. Setjið restina af hráefninu út í og látið vélina ganga í smá stund
  4. Útbúið litlar kúlur og veltið þeim upp úr kókosmjöli eða kakó
  5. Kælið áður en þið berið fram (geymið í lokuðu íláti í kæli)

ÚTFÆRSLUR

  • Ég hef gert þessar með 50 g af möndlum á móti 50 g kókosmjöli. Ég lét möndlurnar liggja í bleyti með ávöxtunum og bætti svo 2 valhnetum í matvinnsluvélina líka. Konfektið var virkilega gott en ég rúllaði nokkrum kúlum upp úr kókosmjöli og lét hinar vera óhúðaðar
  • Ég hef líka sleppt því að velta kúlunum upp úr kókosmjöli/kakó og brætt dökkt, lífrænt súkkulaði yfir vatnsbaði á vægum hita. Ég dýfi kúlunum alveg ofan í eða bara að hluta og legg þær á bökunarpappír áður en þær fara í ílát og í kæli.

PS. Á CafeSigrun er að finna hátíðlega útgáfu af þessu konfekti sem er virkilega góð.

Pin It button on image hover