sunnudagur, 8. ágúst 2010

pizzabotn


Ég hef verið án bakstursofn í smá tíma og þegar ég loksins komst í ofn á föstudaginn þá var pizza það fyrsta sem fór inn í hann enda var ég að vígja pizzastein sem vinkona mín gaf mér í afmælisgjöf. Það er eðalgræja þegar gerðar eru þunnbotna pizzur. Þó ég væri að nota nákvæmlega sömu uppskrift og venjulega þá urðu botnarnir bara betri og hér sátu alsælir fjölskyldumeðlimir við borðið. CafeSigrun á uppskriftina að pizzabotninum sem tekur enga stund að útbúa enda er hann gerlaus. Þar sem við erum yfirleitt fimm þá geri ég alltaf tvöfalda uppskrift, eins og hún birtist hér. Ef ég er að gera pizzur fyrir færri þá skipti ég afganginum af deiginu í litla poka og set í frystinn.

PIZZABOTN

HRÁEFNI

 • 500 g spelti
 • 1½-2 matskeiðar vínsteinslyftiduft
 • fínt sjávarsalt eftir smekk (ég nota ekki nema ca. ½ tsk því ég geri þunnbotna pizzur og auk þess salta ég þær létt þegar þær koma úr ofninum)
 • ½-1 teskeið oregano (má sleppa)
 • 0-1 matskeið extra virgin ólífuolía
 • 225-275 ml heitt vatn (magnið veltur á rakanum í eldhúsinu hverju sinni, ég nota yfirleitt alltaf 250 ml)

AÐFERÐ

 1. Setjið þurrefnin í stóra skál og blandið saman með sleif
 2. Ef þið notið olíu, bætið henni þá út í 225 ml af vatni og hellið rólega í skálina, hrærið létt með sleifinni og aukið svo vatnið eins og þarf (þið finnið hvort þið þurfið meira vatn með því að klípa aðeins í deigið)
 3. Stráið spelti á borðplötuna og hnoðið deigið létt í höndunum. Deigið á að vera létt í sér og á ekki að klessast við borðplötuna
 4. Rífið bút af deiginu og hnoðið létt, fletjið þunnt út með kökukefli og setjið á bökunarplötu með bökunarpappír eða í sérstök pizzuform (ég geri 5-6 miðlungs pizzur úr öllu deiginu)
 5. Dreifið pizzasósu á botninn og bætið svo álegginu og ostinum
 6. Bakið við 230°C í ca. 7-10 mínútur
 7. Ég mæli með að skvetta smá extra virgin ólífuolíu yfir pizzuna þegar hún kemur úr ofninum og salta létt með maldon- eða sjávarsalti úr kvörn. Svo er gott að nota nýmalaðan svartan pipar fyrir þá sem vilja


Á þessum bæ er mismunandi hvað hver vill fá ofan á pizzuna. Ég sjálf elska grænar ólífur og stundum hef ég ekkert nema ólífur, mozzarella ost, smá parmesan og nýmalaðan svartan pipar á minni. Sonurinn vill bara margarítu en dæturnar vilja nokkrar pepperoni sneiðar. Eiginmaðurinn fær nokkrar pepperoni sneiðar, rauða papriku eða sólþurrkaða tómata, ólífur, mozzarella og parmesan. Það er um að gera að leyfa hugmyndafluginu að ráða þegar kemur að pizzum, alla vega hafa eina öðruvísi bara til að smakka.

 Spelt getur verið mjög mismunandi og það er háð rakastiginu í eldhúsinu hverju sinni. Það þarf því yfirleitt að stilla vökvann af þegar bökuð eru brauð og slíkt með spelti. Ég hef ekki enn þá fundið gróft spelti sem ég get notað eitt og sér í pizzubotna. Ég blanda því yfirleitt grófu og fínu spelti saman. Ef speltið er með einhverja stæla þá má nota lífrænt hveiti í neyð á móti grófu spelti. Ég nota annars aldrei hvítt hveiti í bakstur.

 Olía: Undanfarið hef ég alfarið sleppt að nota olíu í deigið og það kemur mjög vel út. Það er nú bara vegna þess að ég hef verið að nota aðra tegund af spelti og deigið verður hreinlega of stíft með olíunni.

 Vínsteinslyftiduft: Athugið að stundum er hægt að kaupa það í pökkum sem eru hugsaðir fyrir 500 g af mjöli og þá þarf ekki að mæla skeiðarnar. Ef þið eruð að nota venjulegt lyftiduft þá er 1 matskeið nóg.

 Það má kaupa lífrænt þurrger í pökkum sem eru hugsaðir fyrir 500 g af mjöli. Þið getið notað sömu uppskrift og bætið þá hálfri matskeið af hrásykri í deigið og látið það hefa sig í ca. 40 mínútur. Persónulega finnst mér vínsteinslyftiduftið miklu skemmtilegra, kannski bara vegna þess að gerlyktin og bragðið truflar mig alltaf örlítið, og með lyftiduftinu er deigið tilbúið um leið og hráefnunum hefur verið blandað saman.

NOTKUN PIZZASTEINS:

Sigrún á CafeSigrun bað mig að deila með notendum síðunnar reynslu minni af notkun pizzasteins og hér er svarið mitt svona nokkurn veginn:

 • Ég kynntist notkun pizzasteins fyrir mörgum árum í gegnum vinkonu mína [sú sem gaf mér steininn minn] og þegar ég fékk pizzur hjá henni þá fékk ég alltaf þá tilfinningu að ég væri að borða Eldsmiðjupizzur, sem voru í uppáhaldi hjá mér. Nú hef ég notað minn eigin stein í tvö ár og held að ég gæti bara ekki án hans verið. Á þessu heimili eru heimagerðar pizzur á hverjum einasta föstudegi og stundum oftar þannig að steinninn góði er í mikilli notkun.
 • Ég geng ekki svo langt að segja að bragð pizzunnar sé öðruvísi þegar pizzsteinn er notaður en það sem steinninn gerir er að hann dreifir hitanum jafnt og hann dregur líka í sig raka úr deiginu. Hann er því sérstaklega góður fyrir þá sem eru hrifnir af þunnbotna pizzum.
 • Það þarf að hita pizzasteininn með ofninum og það sem mér finnst best að gera er að setja bökunarpappír á disk sem er með engum brúnum, útbúa pizzuna á disknum og færa hana svo yfir á heitan pizzasteininn í ofninum. Ég útbý hverja pizzu bara rétt áður en ég set hana í ofninn þannig að það verður engin rakamyndun í bökunarpappírnum; pizzan rennur því auðveldlega af pappírnum yfir á steininn.
 • Fólk hefur oft sagt við mig að pizzasteinn sé bara vitleysa, að það sé enginn munur á pizzum sem eru settar á plötur eða stein. Það gerðist nú einu sinni - OG BARA EINU SINNI - að ég hreinlega gleymdi að hita steininn með ofninum og þurfti því að nota venjulega plötu. Ég held að hver einasti fjölskyldumeðlimur hafi spurt: „Af hverju eru pizzurnar einhvern veginn öðruvísi núna?“ Það var akkúrat botninn sem öllum fannst vera „eitthvað öðruvísi“ en venjulega.

Pin It button on image hover