mánudagur, 4. apríl 2011

kjúklingabaunir með papriku

Þessi einfaldi réttur er búinn að vera í uppáhaldi hjá mér í mörg ár, einn af þessum sem mér finnst gott að borða í hádegismat. Hann er að finna í matreiðslubók sem var gefin út af Kripalu jógastöðinni í Bandaríkjunum fyrir löngu síðan en ég er búin að breyta hlutföllunum eitthvað: Ég hef t.d. minnkað magn kjúklingabauna (nota bara 1 dós) því það átti að leggja þær í bleyti og sjóða og mér fannst of mikið af þeim. Kosturinn við þennan rétt er sá að það tekur stuttan tíma að undirbúa hann og svo er hann bara í ca. 10 mínútur á pönnunni. Hann er því kjörinn á dögum þegar maður hefur lítinn tíma til að stússast í eldhúsinu en vill samt fá eitthvað hollt og gott í kroppinn. Yfirleitt ber ég hann fram með basmati hrísgrjónum en mér finnst hann líka góður með naan brauði eða chapati (indverskt flatbrauð - lofa uppskrift að því fljótlega), auk þess er hann kjörinn sem meðlæti. Það eru engin sterk krydd í þessum þannig að hann er barnvænn og ekkert ögrandi að til að bera á borð fyrir þá sem eiga það til að fussa og sveia yfir framandi eldamennsku.

KJÚKLINGABAUNIR MEÐ PAPRIKU

HRÁEFNI

 • 1 dós kjúklingabaunir
 • 1 græn paprika
 • ½ matskeið góð olía
 • 1 teskeið sinnepsfræ
 • 1 teskeið mulið túrmerik
 • 1 teskeið mulinn kóríander
 • ½ teskeið gott karrí
 • 1 matskeið tómatmauk
 • 1-1½ matskeið sítrónusafi, nýkreistur
 • 2 matskeiðar gott hunang (má líka nota agave en notið þá eilítið meira af því)
 • 1 teskeið fínt sjávarsalt

AÐFERÐ

 1. Byrjið á því að skola kjúklingabaunirnar í sigti og látið þær liggja í sigtinu þar til þið þurfið að nota þær
 2. Fræhreinsið paprikuna og skerið í bita
 3. Blandið saman öllum kryddum nema sinnepsfræjunum í litla skál. Hafið matskeiðina með tómatmaukinu tilbúna og verið búin að kreista safann sem þið þurfið úr sítrónunni því hlutirnir gerast hratt á pönnunni þegar sinnepsfræin byrja að poppa
 4. Hitið olíuna á pönnunni og bætið sinnepsfræjunum út í
 5. Um leið og sinnepsfræin byrja að poppa á pönnunni þá bætið þið kryddblöndunni út í ásamt tómatmaukinu, sítrónusafanum, hunanginu, paprikunni, kjúklingabaununum og saltinu
 6. Blandið þessu saman og látið malla á miðlungshita í 7-10 mínútur

Pin It button on image hover