þriðjudagur, 18. maí 2010

bláberjamöffins

Um daginn var ég að gera bláberja- og hindberjaþeyting (smoothie) fyrir mig og soninn þegar óstjórnleg löngun í bláberjamöffins tók völdin. Ég elska bláber, sem er heppilegt því þau eru rík af andoxunarefnum, og mér verður reglulega hugsað til risastórra, kanadískra bláberja sem ég borðaði í fyrra. Ég ákvað að gera tilraun með pekan- og valhnetum ásamt smá kanil sem kom ágætlega út en var samt ekki alveg með því bragði sem ég var að leita eftir. Mig langaði í eitthvað eilítið mýkra og hugsaði með mér að ég hefði átt að nota möndlur frekar. Daginn eftir var andinn yfir mér og ég réðst í aðra tilraun. Möffinsin heppnuðust svakalega vel og krakkarnir voru ekki lengi að klára þau (góður mælikvarði á gæði baksturs; börn ljúga ekki). Það er eðal að eiga svona möffins í frystinum og kippa með sér í vinnuna eða setja í nestisbox krakkanna. Ég vil benda á að þar sem uppskriftin inniheldur svo til enga olíu þá þarf að nota silíkonmöffinsform; það er ekki hægt að nota pappírsform.

BLÁBERJAMÖFFINS

HRÁEFNI

 • 1½ bolli spelti (1 bolli = 250 ml)
 • 2 teskeiðar vínsteinslyftiduft
 • ½ teskeið sjávarsalt, fínt
 • 50 g möndlur, saxaðar (ég nota með hýði)
 • 1 (hamingju)egg
 • 1 eggjahvíta
 • ½ bolli hrásykur (100 g)
 • ½ matskeið agave eða hreint hlynsíróp
 • ⅓ bolli sojamjólk (+ 1 matskeið ef þarf)
 • 2½-3 matskeiðar eplamauk (notið lífrænt eða gerið ykkar eigið, sjá neðar)
 • 100 g frosin bláber + ½ matskeið hrásykur

Hugmyndin að innihaldi eplamauksins kemur frá (Cafe)Sigrúnu en á vefnum hennar er að finna hollar og góðar uppskriftir fyrir smábörn. Ég náði 2½ msk úr því hráefni sem ég notaði (ég notaði frekar lítið epli sem var ca. 110 g áður en ég afhýddi það):


 • 1 epli, afhýtt og skorið í bita (kjarni ekki notaður)
 • ½ teskeið sojamjólk/léttmjólk
 • ½ teskeið kókosolía (látið krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)

 • AÐFERÐ

  1. Setjið bláberin í litla skál, hrærið ½ msk af hrásykri út í og látið þiðna á borðinu í 7 mínútur eða svo. Setjið skálina svo strax aftur í frysti og geymið þar uns þið notið bláberin í deigið (þið getið þess vegna gert þetta deginum áður til að undirbúa baksturinn)
  2. Ef þið gerið ykkar eigið eplamauk (mjög auðvelt) þá byrjið þið á því að gufusjóða eplabitana í 6 mínútur, setjið þá svo í djúpa skál ásamt ½ tsk af mjólk og kókosolíu og notið töfrasprota til að mauka (það má líka alveg stappa vel með gaffli)
  3. Blandið þurrefnum saman í stórri skál
  4. Saxið möndlur í matvinnsluvél og blandið saman við þurrefnin (ég saxa þær mjög vel þannig að hluti þeirra verður nánast að mjöli)
  5. Blandið eggi, eggjahvítu, hrásykri, agave, mjólk og eplamauki saman í skál og hrærið létt saman, hellið svo blöndunni í skálina með þurrefnunum og bara rétt veltið deiginu þar til hráefnin hafa blandast saman. Deigið á að vera létt í sér og því á alls ekki að hræra mikið. Ef ykkur finnst þurfa, bætið þá 1 msk af mjólk
  6. Takið sykruðu bláberin úr frysti og notið sömu aðferð til að blanda þeim rólega saman við deigið, bara „fold them in,“ eins og Kanarnir segja
  7. Smyrjið silíkonmöffinsform með smá kókosolíu áður en deigið fer í formin (12-14 stykki). Þið getið ekki notað pappírsform fyrir þessa uppskrift þar sem hún inniheldur litla fitu
  8. Bakið við 200°C á blæstri í 20-23 mínútur

  Þar sem ég er nýbúin að setja saman þessa uppskrift þá á ég líklega eftir að leika mér með hana, ekki grunnuppskriftina þó. Ég á við valmöguleika sem má alveg sleppa og ef þeir koma vel út þá bæti ég þeim inn síðar meir.

  Pin It button on image hover