mánudagur, 4. mars 2013

tómatsúpa með hvítlauk og timían

Á þessum bæ kallast þessi tómatsúpa ekkert annað en Mooney súpa því ég smakkaði hana fyrst hjá vinkonu minni, sem ég kalla Mooney. Ef mig minnir rétt þá birtist uppskriftin í aukablaði með Morgunblaðinu fyrir mörgum árum síðan en ég veit ekki hver er höfundurinn. Það sem heillaði mig við súpuna var hversu einfalt var að útbúa hana og því finnst mér hún kjörin á köldum dögum þegar ég hef lítinn tíma til að stússast í eldhúsinu. Ég er búin að breyta upprunalegu uppskriftinni lítilsháttar án þess þó að breyta hlutföllunum. Ég bætti við rauðum linsubaunum, kóríander og papriku.

TÓMATSÚPA MEÐ HVÍTLAUK OG TIMÍAN

HRÁEFNI

 • 1-2 matskeiðar extra virgin ólífuolía
 • 1 laukur, fínsaxaður
 • 2 hvítlauksrif, fínsöxuð
 • 2 grænmetisteningar, helst lífrænir og gerlausir
 • 2 dósir tómatar (2 x 400 g)
 • 1.2 lítrar vatn
 • má sleppa: 2 matskeiðar rauðar linsubaunir
 • 2 teskeiðar timían
 • ¼-½ teskeið mulinn kóríander
 • ¼ teskeið paprika
 • 1 teskeið sjávarsalt
 • nýmalaður svartur pipar eftir smekk

AÐFERÐ

 1. Samkvæmt upprunalegu uppskriftinni var öllum hráefnum skellt í pott í einu en mér finnst betra að byrja á því að bara rétt aðeins steikja laukinn og hvítlaukinn í olíunni. Það þarf ekki að brúna laukinn heldur bara mýkja hann
 2. Bætið restinni af hráefninu út í og látið súpuna malla í 30 mínútur
 3. Ef ykkur finnst það betra þá má mauka súpuna með töfrasprota til að ná fram silkimjúkri áferð (það má líka mauka hana í matvinnsluvél en þá er ráðlagt að leyfa henni að kólna áður og hita svo aftur upp áður en súpan er borin fram)
 4. Berið súpuna fram með heimabökuðu brauði eða hvítlauksbrauði

Pin It button on image hover