miðvikudagur, 16. mars 2011

gulrótasalat


Þetta einfalda salat hefur verið í uppáhaldi hjá mér í margar vikur, ég hreinlega fæ ekki nóg af því. Það er svo fljótlegt að búa það til og því er það kjörið meðlæti. Það var nú eiginlega eiginmaðurinn sem kynnti mig fyrir þessari dásemd eitt kvöldið. Hann kom heim með poka af rifnum gulrótum og bar þær fram með örlitlu lífrænu majónesi og svörtum pipar. Til hliðar var hann svo með einhvers konar blöndu af pestó og tapenade. Þetta var guðdómlegt á bragðið. Núna rífum við gulræturnar í matvinnsluvélinni enda tekur það ekki nema nokkrar sekúndur. Við höfum svolítið verið að leika okkur með útfærslur og þar sem ég er bókstaflega sjúk í grænar ólífur þá eru þær oftast hafðar með og/eða ferskir sólþurrkaðir tómatar, ekki þessir úr krukkunum með olíunni. Passið ykkur bara að drekkja ekki gulrótunum í majónesi því það er jú engin hollusta; það á bara að vera örlítið magn með hverjum skammti.

GULRÓTASALAT

HRÁEFNI

 • 1 gulrót á mann (ég nota stórar, yfirleitt lífrænar)
 • ½-1 teskeið majónes á mann (ég nota lífrænt)
 • nýmalaður svartur pipar eftir smekk

VALKOSTIR

 • safi úr appelsínu
 • 2-3 grænar ólífur á mann
 • ½-1 ferskur sólþurrkaður tómatur á mann
 • rautt pestó eða tapenade

AÐFERÐ

 1. Rífið gulræturnar með fínu rifjárni í matvinnsluvél
 2. Deilið rifnu gulrótunum niður á diska, smyrjið majónesinu á hvern skammt og malið svartan pipar yfir
 3. Appelsínur og gulrætur eiga vel saman og því má skera appelsínu og kreista smá safa yfir hvern skammt. Ef þið notið safann þá skuluð þið kreista hann yfir fyrst, svo bæta majónesi og svörtum pipar 
 4. Skerið ólífurnar og sólþurrkuðu tómatana (ef notað) og bætið þeim á hvern disk. (Ef þið fáið bara tómata í krukku þá er gott að þerra sem mest af olíunni með eldhúspappír áður en þið notið þá)
 5. Það má líka setja örlítið rautt pestó eða tapenade á hvern disk eða bera fram sér fyrir þá sem vilja

Pin It button on image hover