þriðjudagur, 22. maí 2012

heimagerður vanillusykur


Síðustu mánuði hef ég verið ódugleg að pósta á síðuna og það er kominn tími til að bæta úr því. Höfum þetta bara einfalt í dag og byrjum næstu lotu á heimagerðum vanillusykri. Það er ótrúlega einfalt að búa hann til. Ég keypti mér glerkrukku með áföstu loki alveg sérstaklega fyrir vanillusykurinn því þá sé ég alltaf hversu mikið ég á eftir.

Vegna fyrirspurnar sem ég fékk þá er ég búin að uppfæra „uppskriftina“ og bæta eitlítið við aðferðarlýsinguna. Ég las einhvers staðar að þumalputtareglan væri að nota 2 bolla af sykri (= 500 ml) á móti einni vanillustöng og þá ætti að taka um tvær vikur að fá góðan vanillusykur. Ég nota 1 bolla (= 250 ml). Ef þið eigið góða matvinnsluvél þá er ekki verra að vinna vel sykurinn og kjarnann úr vanillunni áður en það fer í krukku (eftir að þið hafið losað kjarnann þá má stöngin líka fara í matvinnsluvélina en passið bara að þið séuð með það góða vél að hún vinni þetta vel). Þið getið notað sigti til þess að koma í veg fyrir vanillukekki eins og þið sjáið í krukkunni minni og til að fjarlægja parta af stönginni sem þið viljið ekki hafa í krukkunni.

HEIMAGERÐUR VANILLUSYKUR

HRÁEFNI

  • 1-2 bollar (250-500 ml) lífrænn hrásykur, ekki of grófur
  • 1 vanillustöng

AÐFERÐ

  1. Byrjið á því að kljúfa vanillustöngina í tvennt: skerið í gegnum hana miðja með beittum hníf, og skafið kjarnann úr henni með hnífsoddinum
  2. (Ef þið eigið góða matvinnsluvél kíkið þá á aðferðina í innganginum)
  3. Setjið hrásykur í glerkrukku (með loki) ásamt kjarnanum og vanillustönginni sjálfri. Það þarf ekki að setja kjarnann í krukkuna heldur er nóg að setja bara vanillustöngina sem búið er að skera í tvennt og skafa úr. En ég nota kjarnann, mér finnst það skemmtilegra og það gefur enn meira vanillubragð
  4. Geymið í lokaðri glerkrukku og skiptið reglulega um vanillustöng/kjarna

Pin It button on image hover