þriðjudagur, 18. október 2011

kanilsnúðar (gerlausir)


Ég hef nákvæmlega ekkert á móti geri en mér hreinlega leiðist gerbakstur. Ég nenni ekki að bíða eftir því að deig hefi sig og því finnst mér best að nota vínsteinslyftiduft. Fyrir um tveimur árum síðan gerði ég tilraun með uppskrift að gerlausum kanilsnúðum sem heppnaðist þannig séð vel. Allt heimilisfólk var alla vega ánægt en ég var ekki alveg sátt, ég vildi hafa þá aðeins mýkri, svona bollulegri. Á fallegum sunnudegi í september sat ég í stofunni að lesa og lét mig dreyma um mjúka kanilsnúða að bíta í. Allt í einu fékk ég hugmynd og fór beinustu leið inn í eldhús, setti upp svuntuna og það sem ég kýs að kalla ósýnilega aðgangur-bannaður skiltið á eldhúshurðina. Tilraunin heppnaðist eins og í sögu og við tók dásamlegt sunnudagsmorgunkaffi með miklum nammi namm hljóðum. Mér finnst betra að mynda ferning úr deiginu heldur en ílangan ferhyrning því ég vil hafa kanilsnúðana svolítið þykka. Uppskriftin er án eggja og það er enginn sykur í deiginu sjálfu og þrátt fyrir það eru snúðarnir dásamlegir á bragðið.

KANILSNÚÐAR

HRÁEFNI


DEIG

 • 435 g spelti
 • 2-2½ matskeiðar vínsteinslyftiduft
 • ¾ teskeið sjávarsalt
 • 250-300 ml sojamjólk eða önnur mjólk
 • 1-2 matskeiðar kókosolía

FYLLING

 • 1 matskeið agave síróp eða hreint hlynsíróp
 • ½ matskeið kókosolía
 • 3½ matskeið hrásykur, lífrænn
 • 1 teskeið kanill
 • útfærsla: ögn af hökkuðum pekanhnetum og/eða rúsínur

AÐFERÐ

 1. Byrjið á deiginu: Blandið saman spelti, vínsteinslyftidufti og salti í stórri skál. Yfirleitt nota ég 2 matskeiðar af vínsteinslyftiduftinu en stundum bæti ég við hálfri matskeið til að gera snúðana aðeins stærri. (Ef þið notið venjulegt lyftiduft þá þurfið þið bara eina matskeið og ½-1 teskeið til viðbótar ef þið viljið gera þá bara örlítið stærri)
 2. Bætið 1-2 matskeiðum af kókosolíu út í. (Ef kókosolían er í föstu formi látið þá krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)
 3. Byrjið á því að bæta 250-275 ml af mjólkinni út í og hrærið rólega með sleif. Bætið við meiri mjólk ef þið þurfið. Deigið á ekki að vera of blautt þar sem þið eigið eftir að hnoða það í höndunum og fletja út með kökukefli. Það er ágætt að hnoða það aðeins með höndunum í skálinni til þess að finna áferðina á því; það á ekki að loða við fingurna
 4. Stráið vel af spelti á borðplötuna og hnoðið deigið í höndunum. Ef deigið vill festast við yfirborðið stráið þið meira af spelti á flötinn
 5. Takið því næst kökukefli og fletjið deigið út. Leitist við að mynda ferning sem er ca. 37 cm. Ég kýs að mynda ferning heldur en ílangan ferhyrning því mér finnst betra að hafa kanilsnúðana svolítið þykka
 6. Þá að fyllingunni: Blandið saman sírópinu og kókosolíunni í lítilli skál. Útbúið kanilsykurinn í annarri skál.
 7. Dreifið síróps- og olíublöndunni jafnt yfir útflatta deigið (mér finnst best að nota bara fingurna). Stráið svo kanilsykrinum yfir og bætið við smá af pekanhnetum og/eða rúsínum ef þið notið þá útfærslu
 8. Rúllið upp deiginu nokkuð þétt. Notið svo beittan hníf til þess að skera lengjuna í 21 sneið (það er ágætt að byrja á því að skera lengjuna í tvennt). Þykkt hverrar sneiðar á að vera aðeins minni en 2 cm
 9. Klæðið 35 x 25 cm form með bökunarpappír eða smyrjið létt með kókosolíu (hæð formsins sem ég nota er ca. 5 cm). Myndið fjórar raðir með fjórum snúðum. Myndið svo eina röð með fimm snúðum og hafið báða endana í henni
 10. Bakið við 220°C í 12-15 mínútur
 11. Leyfið kanilsnúðunum að kólna í forminu í nokkrar mínútur áður en þið berið þá fram


Pin It button on image hover