mánudagur, 26. nóvember 2012

heitt súkkulaði með heimagerðum vanillusykri

Þessa dagana ríkir einhvers konar æði fyrir heitu súkkulaði á heimilinu. Nýbakað brauð og heitt súkkulaði er blanda sem við fáum ekki nóg af. Hljómar freistandi, ekki satt? Þetta kallast nú varla uppskrift en þessi tiltekna blanda er uppáhald barnanna. Ég nota bara kakóduft í þessa, ég er ekkert að bræða súkkulaði neitt sérstaklega, og það tekur enga stund að búa þetta til. Ég nota heimagerðan vanillusykur sem gefur sætt bragð þannig að það þarf í raun ekki að bera súkkulaðið fram með rjóma. Við skulum orða það þannig að á sunnudögum notum við rjóma/lífrænan vanilluís. Persónulega vil ég hafa meira súkkulaðibragð og jafnvel smá chilli. Það veltur kannski svolítið á kakóduftinu sem ég nota því það getur jú verið mismunandi. Stundum eyk ég kakóið eða krydda með smá chilli. Svo má setja út í nokkra bita af lífrænu dökku súkkulaði.

HEITT SÚKKULAÐI MEÐ VANILLUSYKRI

HRÁEFNI

  • 1 lítri mjólk
  • 2 matskeiðar hrásykur, lífrænn
  • ½ matskeið heimagerður vanillusykur
  • 3 matskeiðar gott kakó, helst lífrænt/fair-trade
  • hnífsoddur sjávarsalt (má sleppa)

AÐFERÐ

  1. Hitið mjólkina í potti á meðalhita
  2. Bætið sykrinum, kakóinu og saltinu út í og hrærið rólega þar til kakóið hefur leyst upp
  3. Hrærið af og til rólega þar til suðan kemur upp og fjarlægið þá strax af hellunni
  4. Berið fram með eða án rjóma

HEIMAGERÐUR VANILLUSYKUR

Ég birti „uppskriftina“ mína að heimagerðum vanillusykri fyrr á þessu ári en skrifa hana hér líka upp á þægindi. Það er mjög auðvelt að gera sinn eigin vanillusykur, það eina sem þarf er hrásykur og vanillustöng.

Kljúfið vanillustöngina í tvennt: skerið í gegnum hana miðja með beittum hníf, og skafið kjarnann úr henni með hnífsoddinum. Setjið lífrænan hrásykur í glerkrukku (með loki) ásamt kjarnanum og vanillustönginni sjálfri. Það þarf ekki að setja kjarnann í krukkuna heldur er nóg að setja bara vanillustöngina sem búið er að skera í tvennt og skafa úr. En ég nota kjarnann, mér finnst það skemmtilegra og það gefur enn meira vanillubragð.

Pin It button on image hover