mánudagur, 11. ágúst 2014

gulrótarmöffinsÉg trúi varla að ég hafi síðast birt uppskrift hérna á matarblogginu í desember … á síðasta ári! Þarf ég ekki að koma með einhverjar afsakanir? Ein ástæðan er að ég flutti frá Luxembourg til Englands í nóvember og ofninn í nýja eldhúsinu, sem var nýr, var ólíkur öðrum ofnum sem ég hef notað. Ég þurfti að breyta ofnstillingunum og baksturstímanum á öllum uppskriftunum mínum og var frekar rög við að halda áfram með bloggið þar til ég hafði prófað uppskriftirnar í öðrum ofni. Fyrr í sumar flutti ég svo innan Englands og er núna með tvo nýja ofna sem virka eins og aðrir sem ég hef notað og ég þarf ekki að breyta neinu. Á meðan ég tók upp úr kössunum og kom okkur fyrir gerði ég nokkrar tilraunir sem ég á eftir að fínpússa eilítið áður en ég birti uppskriftirnar hér. Þessi uppskrift að gulrótarmöffinsum er ekki ný (hún er þegar á ensku útgáfunni) en þegar líður að hausti þá byrja ég að hugsa um gulrætur og bláber og kartöflur. Ekki endilega í þessari röð. Í dag eru það gulrætur. [Uppfærsla 1. okt. '14: Ég er búin að vera að baka þessi möffins töluvert undanfarið því börnin eru með æði fyrir gulrótum þessa dagana og vilja taka með sér skornar gulrætur í skólann og helst eitt möffins líka til að narta í. Ég jók aðeins speltið og breytti hlutföllum gulrótanna og kryddanna eilítið, og bætti við kardamomum og negul, sem krakkarnir eru mjög ánægðir með.]

GULRÓTARMÖFFINS

HRÁEFNI

 • 250 g spelti (ég blanda grófu og fínu saman)
 • 2½-3 teskeiðar vínsteinslyftiduft
 • ½ teskeið fínt sjávarsalt
 • 1-1½ teskeið kanill
 • ½-1 teskeið engifer
 • ½ teskeið múskat
 • má sleppa: ⅛-¼ teskeið kardimomma
 • má sleppa: ⅛-¼ teskeið negull
 • 1 stórt (hamingju)egg
 • 100 g lífrænn hrásykur
 • 2 matskeiðar hreint hlynsíróp eða agave
 • 1 matskeið kókosolía eða önnur góð jurtaolía
 • 75-90 ml (5-6 matskeiðar) lífræn vanillujógúrt (eða hrein jógúrt + ¼-½ teskeið lífrænn vanillusykur)
 • 175 g gulrætur, rifnar gróft

Útfærsla: Stundum nota ég valhnetur í uppskriftina og hakka þá 50 grömm (ca. ½ bolli) sem ég bæti út í deigið ásamt gulrótunum. Ef ég nota hneturnar þá nota ég bara ½ matskeið af kókosolíu. Það er næg fita í hnetunum og mér finnst möffinsin með hnetunum verða aðeins of klístruð ef ég nota 1 matskeið.

AÐFERÐ

 1. Blandið þurrefnunum saman í stórri skál. Setjið til hliðar
 2. Notið aðra skál til að blanda saman eggi, sykri, sírópi og kókosolíu (ef olían er í föstu formi látið þá krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun). Blandið svo jógúrtinni saman við
 3. Rífið gulræturnar á grófu rifjárni
 4. Bætið eggjablöndunni ásamt rifnu gulrótunum (og hökkuðum valhnetum ef notaðar) út í skálina með þurrefnunum og hrærið bara létt, alls ekki mikið. Deigið á að vera nokkuð létt í sér þannig að þið þurfið bara að velta því með sleif þar til hráefnin hafa blandast saman
 5. Smyrjið silíkonmöffinsform með kókosolíu áður en deigið fer í formin (gerir 12-14 stykki). Þið getið ekki notað pappírsform fyrir þessa uppskrift þar sem hún inniheldur litla fitu
 6. Bakið við 180-190°C í 20-25 mínútur (175°C ef bakað með blæstri)
 7. Látið möffinsin kólna í formunum og svo á kæligrind í 5-10 mínúturPin It button on image hover