miðvikudagur, 10. október 2012

epla- og kanilmöffins


Það er óhætt að segja að þessir muffinsar eru ansi algengir hér á bæ enda eiga epli og kanill alltaf vel við. Við köllum þá alltaf appins og það hefur örugglega verið eiginmaðurinn sem setti það orð saman úr orðunum 'apps' og muffins á einhverjum tímapunkti. Ef ég hef ekki tíma til að baka eplakökuna þá skelli ég frekar í þessa, enda fljótlegt. Ég nota alltaf eina teskeið af kanil en ef ykkur finnst kanilbragðið verða of yfirgnæfandi þá minnkið þið bara magnið og ef þið notið venjulegt lyftiduft þá er ein teskeið nóg. Ég er svo með nokkrar útfærslur hér að neðan ef þið viljið leika ykkur með uppskriftina.

EPLA- OG KANILMÖFFINS

HRÁEFNI

 • 200 g spelti(1½ bolli)
 • 2 teskeiðar vínsteinslyftiduft
 • ½ teskeið fínt sjávarsalt
 • ½-1 teskeið kanill
 • 1 stórt (hamingju)egg
 • 1 eggjahvíta (stórt egg)
 • 100 g lífrænn hrásykur (½ bolli)
 • 2 matskeiðar hreint hlynsíróp
 • 1 matskeið kókosolía
 • 2 stór rauð epli

Útfærsla: Það má nota minna af kanil og/eða nota engifer eða múskat, eða bæði. Stundum bæti ég út í einni lúku af hökkuðum pekanhnetum og ég hef líka notað rúsínur. Smá lífrænt súkkulaði, fínhakkað, er líka gott; 20 g er nóg og sleppið þá einni matskeið af sírópinu.

AÐFERÐ

 1. Blandið þurrefnunum saman í skál og setjið til hliðar
 2. Í aðra skál skuluð þið hræra saman eggi, eggjahvítu, hrásykri, hlynsírópi og kókosolíu (ef kókosolían er í föstu formi látið þá krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)
 3. Afhýðið eplin og fjarlægið steinana. Rífið eplin á grófu rifjárni og bætið þeim svo út í eggja- og sykurblönduna og blandið saman með sleif eða sleikju
 4. Bætið þurrefnablöndunni út í og hrærið bara létt, alls ekki mikið. Deigið á að vera létt í sér þannig að þið þurfið bara rétt að velta því með sleif þar til hráefnin hafa blandast saman
 5. Smyrjið silíkonmöffinsform með kókosolíu áður en deigið fer í formin (gerir 12 stykki). Þið getið ekki notað pappírsform fyrir þessa uppskrift þar sem hún inniheldur litla fitu
 6. Bakið við 200°C (180°C á blæstri) í 22-25 mínútur
 7. Látið kólna í formunum á kæligrind í 5-10 mínútur

Pin It button on image hover