laugardagur, 15. desember 2012

súkkulaðibitakökur með möndlum og haframjöli


Ég var að baka smákökur með krökkunum um daginn og varð að tilraunast aðeins. Þessar kökur heppnuðust einstaklega vel en til öryggis bakaði ég þær aftur í gær bara til að vera alveg viss um að þær væru jafn góðar í seinna skiptið. Við smjöttuðum alveg jafn mikið þannig að krakkarnir gáfu þeim grænt ljós á uppskriftasíðuna. Ég er viss um að þær bragðast vel með 70% súkkulaði en krökkunum mínum finnst það ekki gott þannig að ég nota 50%. Það má líka alveg nota lífrænt mjólkursúkkulaði en athugið að það gefur minna kakóbragð. Það er ekki leiðinlegt að borða þessar með heita súkkulaðinu sem ég póstaði um daginn.

SÚKKULAÐIBITAKÖKUR MEÐ MÖNDLUM OG HAFRAMJÖLI

HRÁEFNI

 • 1 stórt (hamingju)egg
 • 70 g hrásykur, lífrænn
 • 2 matskeiðar agave
 • 2 matskeiðar lífrænt hnetusmjör
 • 2 matskeiðar kókosolía
 • 30 g spelti
 • ½ teskeið vínsteinslyftiduft
 • ½ teskeið fínt sjávarsalt
 • 2 teskeiðar kakó, helst lífrænt/fair-trade
 • 50 g gróft haframjöl
 • 70 g möndlur, hakkaðar
 • 70 g lífrænt 50% eða 70% súkkulaði, saxað

AÐFERÐ

 1. Hrærið eggi, sykri, agave, hnetusmjöri og kókosolíu saman í stórri skál (ef olían er í föstu formi þá þarf bara að setja krukkuna í skál með heitu vatni fyrir notkun)
 2. Blandið saman spelti, lyftidufti, salti og kakói í lítilli skál, bætið svo út í eggjablönduna og hrærið létt saman
 3. Bætið haframjöli út í ásamt hökkuðum möndlum og blandið rólega saman (mér finnst best að nota matvinnsluvél til að hakka möndlurnar)
 4. Saxið súkkulaðið, bætið því út í og blandið létt saman við
 5. Setjið bökunarpappír á stóra bökunarplötu
 6. Takið ca. matskeið af deigi og setjið á bökunarplötuna og sjáið til þess að hafa gott bil á milli svo kökurnar renni ekki saman í ofninum. Ég næ um 24 kökum úr deiginu og baka 12 í einu
 7. Bakið við 180°C gráður á undir- og yfirhita í 12 mínútur
 8. Kökurnar eru mjúkar þegar þær koma úr ofninum og því er best að leyfa þeim aðeins að standa áður en þið færið þær yfir á kæligrind til að láta kólna frekar eða berið þær fram

Pin It button on image hover