fimmtudagur, 12. desember 2013

súkkulaðikrem eða -sósa

Yngri dóttir okkar átti afmæli í gær og þar sem hún elskar marengs þá skellti ég í marengstoppa sem ég ber fram með þeyttum rjóma, ferskum berjum og heimagerðri súkkulaðisósu. Ég deildi einmitt mynd á Facebook síðunni í gær þegar ég var að baka og lofaði uppskrift, sem ég birti fljótlega. En ég áttaði mig á því þegar ég var að útbúa sósuna að ég var búin að lofa að deila nýju súkkulaðikremi með ykkur, kremi sem ég er farin að nota á skúffukökuna. Ég nota sömu uppskrift þegar ég geri sósu fyrir marengstoppa en eyk þá rétt aðeins vatnið til að hafa það meira fljótandi. Sykur telst náttúrlega aldrei vera hollusta en mér líður betur að blanda saman lífrænum hrásykri við agave síróp til að gera krem heldur en að nota flórsykur. Ég hef ekki notað flórsykur síðan 2006 og hef aldrei saknað hans. Það er fljótlegt að útbúa kremið en hafið í huga að það þarf að standa í klukkutíma fyrir notkun.

SÚKKULAÐIKREM EÐA -SÓSA

HRÁEFNI

  • 3 matskeiðar gott kakó, helst lífrænt/fair-trade
  • 1½ matskeið lífrænn hrásykur
  • 2½ matskeið agave
  • 3-3½ matskeiðar vatn (4½-5 msk = ca. 75 ml ef súkkulaðisósa)
  • lítill bútur (20 g) lífrænt dökkt súkkulaði eða mjólkursúkkulaði
  • má sleppa: klípa sjávarsalt, fínt

AÐFERÐ

  1. Setjið allt hráefnið í lítinn pott eða pönnu
  2. Hitið við meðalhita þar til það fer að sjóða og hrærið rólega á meðan. Þegar suðan er komin upp þá fjarlægið þið pottinn/pönnuna af hellunni
  3. Hellið kreminu í skál og leyfið því að standa í klukkutíma fyrir notkun

Pin It button on image hover