laugardagur, 15. maí 2010

frönsk súkkulaðikaka


Franskar súkkulaðikökur eru að mínu mati bestu súkkulaðikökurnar en þessar hefðbundnu uppskriftir innihalda mikið magn af sykri, smjöri og jafnvel suðusúkkulaði (trúi varla að ég hafi bakað svona kökur hér áður fyrr því núna er þetta eitthvað svo fjarri mér). Ég viðurkenni að þessi var lengi í þróun því þegar ég byrjaði á henni þá var ég enn að baka með smjöri en að fikra mig áfram með að minnka það. Þegar ég endanlega sleppti því þá fullkomnaðist kakan, mínu fólki til mikillar gleði. Þar sem kakan hefur fengið frábærar viðtökur á CafeSigrun þá verð ég að hafa hana sem fyrstu uppskriftina á síðunni minni. Sigrún var minn innblástur og ég vil alltaf meina að hún eigi hluta af henni. Hún á alla vega hugmyndina að cashewhnetumaukinu en það má nota það eða kókosolíu eingöngu. Ég hef líka notað blöndu af kókosolíu og lífrænu hnetusmjöri og það kemur vel út. Sonur minn varð 4ra í fyrra og hann heimtaði þessa köku með Spiderman kerti og varð að ósk sinni – alsæll. Ég held að það segi ýmislegt um ágæti hennar. Þessi er ekta frönsk, blaut í miðjunni og hrikalega góð.

FRÖNSK SÚKKULAÐIKAKA

HRÁEFNI

 • 10 döðlur, steinlausar, lagðar í bleyti
 • 1 dl cashewhnetur, lagðar í bleyti
 • 1½ dl lífrænn hrásykur (ekki nota of grófan)
 • 1 egg (notið helst hamingjuegg)
 • 1 eggjahvíta
 • 4 msk cashewhnetur + 4 msk kókosolía eða 2 msk lífrænt cashewhnetumauk + 4 msk kókosolía eða 6  msk kókosolía (látið krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)***
 • 1 tsk vanilludropar eða vanillusykur úr heilsubúð
 • 1¼ dl spelti
 • 4 msk kakó (kaupið lífrænt framleitt og helst fair-trade líka)
 • 1 tsk vínsteinslyftiduft
 • ¼ tsk sjávarsalt, fínt
 • ögn af muldum valhnetum (má sleppa en þær gefa góðan keim)
 • lúxusútgáfa: 20-25 g af söxuðu 70% súkkulaði (kaupið lífrænt sem inniheldur hrásykur, t.d. frá Green & Black’s eða Rapunzel)

*** Ég hef líka notað 2 msk af lífrænu hnetusmjöri og 4 msk af kókosolíu sem kom vel út.

AÐFERÐ

 1. Byrjið á því að leggja döðlur og cashewhnetur í bleyti í 30 mínútur
 2. Ef þið ætlið að gera ykkar eigið cashewhnetumauk þá setjið þið 4 msk af cashewhnetum í matvinnsluvél og blandið á fullum hraða í ca. 1 mínútu. Þið bætið svo 4 msk af kókosolíu út í, einni matskeið í einu, blandið vel í vélinni og setjið til hliðar (þið sleppið þessu stigi ef þið notið tilbúið ásamt kókosolíu eða kókosolíu eingöngu)
 3. Hellið vatninu af döðlunum og cashewhnetunum, setjið þær í matvinnsluvél og vinnið vel. Setjið til hliðar
 4. Setjið hrásykur og egg í bökunarskál og hrærið með gaffli/pískara, bætið kókosolíu eða cashewhnetumauki ásamt vanilludropum út í og hrærið uns allt blandast vel
 5. Blandið saman þurrefnum, spelti, vínsteinslyftidufti og salti, í sér skál og sigtið kakóið út í, hellið þessu út í hina blönduna og hrærið rólega saman með sleif
 6. Blandið síðan maukuðu döðluðunum og cashewhnetunum saman við ásamt valhnetum og söxuðu súkkulaði, ef þið notið lúxusútgáfuna
 7. Smyrjið hringlaga form (passa að þvermálið sé ekki meira en 23 cm) með kókosolíu eða klæðið það með bökunarpappír og bakið við 180°C á blæstri í 12-15 mínútur (það er mjög mikilvægt að baka kökuna ekki of lengi því hún á að vera blaut í miðjunni, athugið þó að ofnar eru mismunandi. Ég var að gera tilraun með baksturstíma á undir- og yfirhita þegar ég tók myndina að ofan og ég hefði þurft að baka kökuna aðeins skemur, hún á að vera blautari)
 8. Leyfið kökunni aðeins að kólna og berið svo fram með rjóma og jafnvel jarðarberjum, bláberjum eða hindberjum

Pin It button on image hover