fimmtudagur, 27. maí 2010

baunagums

Ég viðurkenni fúslega að nafnið á þessari uppskrift er allt annað en frumlegt en maðurinn minn kallar þetta alltaf baunagums Lísu þannig að nafnið er komið til að vera. Ég nota ýmist pintóbaunir eða kjúklingabaunir í gumsið. Ég nota það sem meðlæti eitt og sér eða þá að ég blanda því saman við hrísgrjón og hef sem meðlæti (blandað saman við grjón er það í raun fín máltíð fyrir grænmetisætur með t.d. salati). Eins og svo margir aðrir þá nota ég gjarnan hrísgrjón með mat en soðin hrísgrjón eingöngu eru óspennandi til lengdar. Ég geri því mikið af því að poppa þau aðeins upp, eins og sagt er, og þetta baunagums er ein aðferð til þess. Það gefur grjónunum góða fyllingu og skapar smá indverska stemningu vegna kryddsins. Mér og eiginmanninum finnst þetta alveg ofboðslega gott þannig að stundum læt ég ekki allt gumsið út í grjónin heldur tek örlítið frá í litla skál fyrir okkur tvö. Kjúklingur og baunagums með eða án grjóna ásamt mangó chutney er ljúf máltíð.

BAUNAGUMS

HRÁEFNI

  • 1 bolli vatn (250 ml)
  • ½-1 gerlaus grænmetisteningur
  • 1 dós pintóbaunir eða kjúklingabaunir
  • 1 matskeið sítrónusafi, ferskur
  • 1 teskeið garam masala

AÐFERÐ

  1. Byrjið á því að setja baunirnar í sigti og skolið af þeim
  2. Setjið allt hráefnið í frekar stóra pönnu, hrærið rólega á meðan teningurinn leysist upp og látið suðuna koma upp (það tekur stuttan tíma). Lækkið hitann og látið malla í ca. 15 mínútur, ekki of lengi þannig að allur vökvi þorni upp
  3. Setjið í litla skál og berið fram sem meðlæti eða blandið saman við soðin hrísgrjón (ég sýð 1-1½ bolla af grjónum og blanda baununum svo saman við)

Pin It button on image hover