miðvikudagur, 30. júní 2010

súkkulaðibitakökur

Ég lagðist í smá tilraunir um jólin 2008 því mig langaði að geta bakað súkkulaðibitakökur fyrir okkur sem væru ekki stútfullar af smjöri og púðursykri. Börnin elska svona kökur og eftir að ég breytti baksturshefðum mínum þá fann ég enga löngun til þess að hræra þessum hráefnum saman ásamt fleiri grömmum af konsúm súkkulaði. Mín útgáfa er auðvitað kaloríurík en ég nota hollara hráefni. Þó ég segi sjálf frá þá eru kökurnar svakalega góðar og ég hef fengið mikið lof fyrir þær. Myndina fékk ég að láni hjá CafeSigrun því vandamálið hingað til hefur verið það að börnin mín og eiginmaður (já, já, ég líka) eru svo fljót að klára þær að ég hreinlega næ aldrei að taka mynd! Og það þýðir ekkert að spyrja mig hvort þessar geymist vel því það er eitthvað sem ég hef aldrei þurft að hafa áhyggjur af.

SÚKKULAÐIBITAKÖKUR

HRÁEFNI

  • 10 döðlur, steinlausar (leggið í bleyti í 30 mínútur)
  • 2 matskeiðar agave eða hreint hlynsíróp
  • 1 (hamingju)egg
  • 75 g hrásykur
  • 1-2 teskeiðar vanilludropar (úr heilsubúð)
  • 2 matskeiðar lífrænt hnetusmjör (eða heimagert)
  • 4 matskeiðar kókosolía (látið krukkuna standa í skál með heitu vatni fyrir notkun)
  • 3-4 matskeiðar kakó (sumir vilja örugglega minnka kakómagnið og nota frekar meira af súkkulaðibitum)
  • 75 g spelti (hér má líka nota 50 g á móti 50 g af heslihnetum sem búið er að þurrrista, taka hýðið af og mala í spað í matvinnsluvél, ég hef notað malaðar möndlur á móti speltinu líka og það kom mjög vel út
  • 1 teskeið matarsódi
  • ½ teskeið sjávarsalt, fínt
  • 1½ dl af hnetum/möndlum eftir smekk (pecan, cashew, möndlur og hýðislausar heslihnetur eru góð blanda, ég ef líka notað saltlausar hnetur eingöngu)
  • 50 g (eða meira) lífrænt dökkt súkkulaði eða mjólkursúkkulaði t.d. frá Green & Black's eða Rapunzel. Veljið semi-sweet (ca. 50%) eða mjólkursúkkulaði ef þið eruð að baka fyrir börn því 70% súkkulaðið er of rammt fyrir þau
  • nokkrar valhnetur, hakkaðar (má sleppa en þær gefa góðan keim og eru meinhollar)
  • sesamfræ eftir smekk (má sleppa en gera kökurnar bara betri)

AÐFERÐ

  1. Byrjið á því að skella öllum hnetum/möndlum og súkkulaði í matvinnsluvél og myljið gróft, setjið til hliðar
  2. Setjið egg, hrásykur, vanilludropa, hnetusmjör og kókosolíu í skál og hrærið saman með pískara, hrærið svo kakóinu rólega saman við
  3. Hellið vatni af döðlum og setjið þær í matvinnsluvél ásamt agave sírópi og maukið vel, blandið svo döðlumaukinu út í hina blönduna
  4. Blandið spelti, matarsóda og salti saman í skál og hrærið þessu saman við blönduna, bara rólega með sleif
  5. Bætið svo hnetum/möndlum/sesamfræjum ásamt súkkulaði út í deigið og hrærið rólega saman við með sleifinni
  6. Notið skeið (ca. kúfaða teskeið) til þess að raða kökunum á plötu með bökunarpappír
  7. Bakið við 170°C í blástursofni í 7-9 mínútur (ofnar eru mismunandi en ekki baka þessar of lengi). Ef ég hef kökurnar frekar stórar þá næ ég að gera 24-28 kökur en það má hafa þær minni og gera þá mun fleiri

Pin It button on image hover