sunnudagur, 13. júní 2010

veggie chilli


Að mínu mati getur chilli ekki klikkað, það er klassískt og það má leika sér endalaust með útgáfur og meðlæti. Mig hefur alltaf langað til að þróa mína eigin chilli uppskrift því áður fyrr fór ég eftir hinum og þessum uppskriftum og þó að útkoman væri góð þá fannst mér alltaf eitthvað vanta. Í fyrrasumar ákvað ég svo að ráðast í tilraunir og byrjaði á því að nóta hjá mér allt hráefni sem ég vildi nota í mína eigin uppskrift. Ég vildi ekki hafa hana of sterka vegna barnanna en þau eru nú ýmsu vön þegar kemur að sterkum réttum og það má nota meðlæti eins og sýrðan rjóma, ost eða guacamole til að deyfa bragðið örlítið. Börnin eru vitlaus í þetta og kalla þetta bara mömmu chilli. Uppskriftin er laus við kjöt enda finnst mér veggie chilli, eins og það kallast, miklu betra.

VEGGIE CHILLI

HRÁEFNI

 • 1 meðalstór laukur
 • 4 stór hvítlauksrif
 • 2 grænar paprikur, eða ein rauð og ein græn
 • 1 ferskt, grænt jalapeno eða grænt chilli aldin
 • 1½ matskeið extra virgin ólífuolía eða önnur góð olía
 • 1 matskeið oregano
 • 2 matskeiðar chilli, milt (notið minna ef þið notið sterkt chilli, logandi tungur eru ekki beint áhrifin sem við erum að sækjast eftir)
 • 1 matskeið blackstrap mólassi (eða hrásykur/agave)
 • 2 matskeiðar mulið broddkúmen eða fræ (cumin)
 • 1 teskeið mulinn kóríander
 • 1 teskeið mulið túrmerik
 • 1 dós nýrnabaunir
 • 1 dós pintóbaunir
 • 1 dós tómatar (eða 2 dósir og sleppa þá tómatmaukinu)
 • 2 matskeiðar tómatmauk, vel kúfaðar
 • 1 teskeið sjávarsalt

AÐFERÐ

 1. Byrjið á því að setja baunirnar í sigti, skolið af þeim og látið liggja í sigtinu þar til þið notið þær. Þið getið alveg notað 2 dósir af nýrnabaununum og sleppt pintóbaununum
 2. Blandið kryddum í litla skál og setjið til hliðar (notið vönduð krydd)
 3. Skerið laukinn og fínsaxið hvítlaukinn. Fræhreinsið paprikurnar og skerið í bita. Fræhreinsið jalapeno/chilli aldin og fínsaxið. Setjið þetta allt í stóran pott, veltið upp úr olíunni og léttsteikið á miðlungs hita
 4. Hellið kryddblöndunni út í pottinn og blandið vel saman við
 5. Bætið baunum, tómötum/tómatmauki og mólassa út í ásamt salti og blandið þessu rólega saman
 6. Stillið á fullan hita og látið suðuna koma upp. Setjið lok á pottinn, lækkið hitann, á minnstu eða næstminnstu stillingu, og látið malla með loki í 20 mínútur og án loks í 10 mínútur til viðbótar. (Ef þið hafið tíma þá er gott að láta þetta malla með loki í 30 mínútur og án loks í 10 mínútur.)

 • Ef ykkur finnst maísbaunir góðar þá má bæta ½-1 bolla út í pottinn undir lokin. Það má einnig nota eina dós til viðbótar af nýrna- eða pintóbaunum en þá finnst mér gott að bæta smá tómatmauki út í og jafnvel smá vatni.
 • Hugmyndir að meðlæti: sýrður rjómi, cheddar ostur, guacamole heimabakað brauð, lífrænt tortilla snakk, hrískökur eða hvað sem er svo lengi sem ykkur finnst það gott. Reynið bara að forðast óhollt meðlæti með þessu því þetta er jú holl og góð uppskrift.
 • Það er mjög gott að hita upp chilli daginn eftir. Ef þið eigið stóra fjölskyldu þá má hreinlega tvöfalda uppskriftina til að tryggja nægan afgang. Það er ekki slæmt að taka með sér chilli í vinnuna ef þið hafið aðstöðu til þess að hita það upp. Það má líka setja chilli og ost í samloku og grilla.

PS. Í mörgum búðum erlendis má fá lífræna hakkaða tómata í 500 ml fernum. Ef þið komist í slíkt þá getið þið notað tvær fernur í uppskriftina og notað þá þrjár dósir af baunum og þið þurfið að salta bara örlítið meira.

Pin It button on image hover